Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Dagsektir Samkeppniseftirlitsins (SKE) á sjávarútvegsfyrirtækið Brim hf. eru ólöglegar og felldi áfrýjunarnefnd samkeppnismála þær úr gildi með mjög afdráttarlausum úrskurði í gær.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, fagnaði úrskurðinum í samtali við Morgunblaðið í gær en segir hann umhugsunarverðan.
„Samkeppniseftirlitið verður að virða lög til að halda trúverðugleika í þjóðfélaginu. Fólkið og fyrirtækin í landinu verða að geta treyst eftirlitsstofnunum, þær hafa mikil völd og mega ekki misfara með sínar heimildir.“
SKE ákvað í júlí að beita Brim 3,5 milljóna króna dagsektum – hæstu dagsektum í sögu eftirlitsins – til að knýja á um að útgerðin afhenti allar umbeðnar upplýsingar í tengslum við athugun þess á sjávarútvegsfyrirtækjum. Hún var gerð samkvæmt samningi við Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, ætluð til pólitískrar stefnumótunar í sjávarútvegi, nefnd Auðlindin okkar.
Sjálfstæði SKE í uppnámi
Áfrýjunarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að lagaheimildir SKE til beitingar dagsekta hrökkvi ekki til. Þær séu veittar til að unnt sé að beita þvingunaraðgerðum í samkeppnisbrotamálum, en ekki vegna verkefna fyrir aðra.
Áfrýjunarnefndin segir að samningurinn við matvælaráðherra hafi yfirbragð verktakasamnings, en fyrir slíkri verktöku sé ekki gert ráð í samkeppnislögum. Verktaka af því tagi gegn greiðslu „samræmist ekki því hlutverki Samkeppniseftirlitsins, sem því er fengið í samkeppnislögum, sem sjálfstæðs stjórnvalds,“ segir í úrskurðinum.
„Þaðan af síður [verður] talið að Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að beita valdheimildum sínum og þvingunarúrræðum eins og dagsektum til að knýja á um afhendingu gagna vegna slíkra athugana og skýrsluskrifa.“
Ekki náðist í Pál Gunnar Pálsson, forstjóra SKE, eða Ásgeir Einarsson aðstoðarforstjóra við vinnslu fréttarinnar, en Sveinn Agnarsson, formaður stjórnar SKE, baðst undan viðtali.