Hælisleitendur Málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd munu koma til kasta Alþingis í vetur, en dómsmálaráðherra boðar tvö frumvörp um þau.
Hælisleitendur Málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd munu koma til kasta Alþingis í vetur, en dómsmálaráðherra boðar tvö frumvörp um þau. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Við verðum að laga okkur að löndunum í kringum okkur. Við getum ekki verið hér með einhverjar sérreglur sem eru á skjön við það sem aðrar þjóðir eru að gera,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Fréttaskýring

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Við verðum að laga okkur að löndunum í kringum okkur. Við getum ekki verið hér með einhverjar sérreglur sem eru á skjön við það sem aðrar þjóðir eru að gera,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Guðrún lagði fram minnisblað á fundi ríkisstjórnarinnar í gær þar sem grein var gerð fyrir stöðu mála hvað varðar umsóknir um alþjóðlega vernd. Þar kemur m.a. fram að slíkar umsóknir eru 3.104 það sem af er þessu ári og stefnir í að þær verði á fimmta þúsund talsins hið minnsta í lok árs, að sögn Guðrúnar. Í fyrra var metár í þessu samhengi, en þá sóttu 4.520 um alþjóðlega vernd, sem var ríflega fimmföldun frá árinu 2021. Frá árinu 2015 hefur fjöldi umsókna legið á bilinu 356 til um 1.100.

Verðum að reyna að fækka þessum umsóknum

„Þetta er meiri fjöldi en ég tel að innviðir okkar ráði við og það er alveg ljóst að við verðum að reyna að fækka þessum umsóknum,“ segir Guðrún og bætir því við að hún telji meiri líkur en minni á að umsóknir um alþjóðlega vernd fari vaxandi eftir því sem líði á árið og búast megi við því að umsóknirnar verði álíka margar á þessu ári og hinu síðasta.

Flestir frá Venesúela það sem af er ári

Athygli vekur að flestir umsækjendanna það sem af er ári koma frá Venesúela, 1.270, en næstflestir frá Úkraínu, 1.140, þar sem innrásarstríð Rússa geisar með tilheyrandi hörmungum fyrir íbúana. Meirihluti umsækjenda eru karlmenn. Af þeim 690 umsækjendum sem eftir standa eru flestir frá Palestínu, en einnig eru margir frá Nígeríu, Sómalíu, Sýrlandi, en færri frá öðrum löndum. Alls eru 115 umsóknir frá einstaklingum sem njóta verndar í öðru ríki, um helmingur í Grikklandi, en einnig á Kýpur og Ítalíu.

Stór hluti umsókna tilhæfulaus

Spurð um hvernig hún hyggist bregðast við þessu ástandi segir Guðrún: „Ég er að leita leiða hvernig við getum snúið fólki hraðar til baka sem hér er með tilhæfulausar umsóknir og svo hvernig við getum unnið hraðar úr umsóknunum. Ég er að leita allra leiða til þess að styrkja Útlendingastofnun í þeirri vinnu, sem og hvað við getum gert til að færri komi hingað til lands sem eiga hingað ekkert erindi. Það er skýrt að hugmyndafræði okkar er að veita fólki í neyð skjól og hjálpa fólki sem þarf á hjálp að halda. En það er mikill hluti umsókna tilhæfulaus og það fólk verður að finna sér annan farveg en þann að koma hingað í gegnum verndarkerfið sem ætlað er fólki í neyð,“ segir hún.

Það sem af er ári hefur Útlendingastofnun tekið ákvörðun í málum um 2.400 umsækjenda um alþjóðlega vernd og hafa 1.380 þeirra fengið jákvæða niðurstöðu, langflestir frá Úkraínu eða 1.070, en 310 í kjölfar efnismeðferðar. Um 1.200 hefur verið synjað um vernd, flestum að lokinni efnismeðferð og voru hælisleitendur frá Veneúsela þar fjölmennastir.

23 umsækjendur hafa látið sig hverfa

Svo sem kunnugt er var útlendingalögum breytt sl. vor á þann veg að þeir útlendingar sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd, missa rétt til þjónustu 30 dögum eftir slíka synjun. Sá hópur telur 58 manns. Nefna má að kostnaður við uppihald hvers hælisleitanda nemur um 350 þúsund krónum á mánuði.

Þeir sem fengið hafa synjun og sýna ekki samstarfsvilja við brottför af landinu eru 15 talsins og hefur verið vísað úr búsetuúrræði ríkislögreglustjóra, þá eru 4 sem þannig háttar til um, en eru á 30 daga frestinum og njóta því enn þjónustu. Þá hafa 15 einstaklingar yfirgefið landið, ýmist sjálfviljugir eða með atbeina lögreglu, og einn hælisleitandi hefur lýst vilja til samstarfs um brottflutning og nýtur því enn þjónustu á meðan heimferðar er beðið.

Þá er ótalinn hópur 23 einstaklinga sem hafa látið sig hverfa og finnast ekki.

Fólk getur alltaf snúið til baka í öruggt skjól

„Það er skýrt af okkar hálfu að fólk sem hefur misst þjónustu getur alltaf snúið til baka í öruggt skjól yfirvalda og við tryggjum þeim öruggt húsnæði, fæði og uppihald, svo framarlega sem það fólk ætlar að vinna með stjórnvöldum að farsælli heimför,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson