Á mánudaginn laumaði Ingólfur Ómar að mér eins og einni vísu sem ekki þarfnast skýringar: Gleður mest og léttir lund lagast flest því betur. Afbragðs hestur öl og sprund alltaf hresst mig getur. Pétur Stefánsson gaukaði að mér þessari vísu nú þegar…

Á mánudaginn laumaði Ingólfur Ómar að mér eins og einni vísu sem ekki þarfnast skýringar:

Gleður mest og léttir lund

lagast flest því betur.

Afbragðs hestur öl og sprund

alltaf hresst mig getur.

Pétur Stefánsson gaukaði að mér þessari vísu nú þegar haustveðráttan er farin að segja til sín sem setur gjarnan kvíðahroll í suma.

Ennþá versnar veðráttan,

veröld fölna lætur.

Setur hroll í margan mann

myrkar haustsins nætur.

Áfram er kveðið um hauskúpufundinn í Ráðherrabústaðnum. Ólafur Stefánsson kvað:

Til tíðinda eitt sinn við Tjörnina bar,

er troðfull af gleðskap var stofan,

að höfuð af einni höggvið var,

á hæðinni fyrir ofan.

Ólafur Ingimarsson um Hauskúpu á háalofti og skuli nota harðan norðlenskan framburð á hv:

Í ráðherrabústaðnum hvíldina kaust

þó kórinn ei yfir þér syngi.

Ég vona að almættið hirði í haust

hausana af fleirum á þingi.

Jón Jens Kristjánsson yrkir þar sem eldisfiskur skekur laxveiðiheiminn:

Líða til sjávar laxveiðiárnar fögru

löngum til gróða, en nú virðist fátt um ráð

djúpt niðrí hyljunum blandað er illu blóði

blasir við útrýming, því hefir margur spáð

haft er á orði að heimilisfastir stofnar

halloka fari og verði eldi að bráð.

Helgi Björnsson um laxveiði:

Vissulega vænlegt telst

í veiðiskap að baksa.

Og út úr því að hafa helst

hnúð- og eldislaxa.

Limran Tveir góðir eftir Jónas Árnason:

Það er staðreynd að Glámur var strangeygður

og að lengi hann Grettis beið langeygður.

En Gretti mest brá

er hann Glám leit og sá

að hann einnig var andskoti rangeygður.

Önnur limra eftir Jónas: Fyrr mætti vera!

Já, menn hafa oft karpað um Kiðafljót

og líka um svonefnda siðabót.

Samt álít ég að

enginn efist um það

að humarinn hafi mörg liðamót.