Ráðherra Málaflokkurinn er á borði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.
Ráðherra Málaflokkurinn er á borði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. — Morgunblaðið/Hákon
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi vegna sameiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ)

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi vegna sameiningar Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (RAMÝ).

Í upplýsingum í samsráðsgáttinni segir að „gert sé ráð fyrir að sameiningin styrki og einfaldi starfsemina og stuðli að frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun, sem og eflingu starfsstöðva á landsbyggðinni“. Um sé að ræða hluta af áformum um endurskipulagningu stofnana ráðuneytisins þar sem gert sé ráð fyrir að til verði þrjár stofnanir í stað átta. Áform um lagasetningu voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í maí 2023.

„Frumvarpið sem nú er til kynningar felur í sér breytingu á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, þar sem gert er ráð fyrir að Náttúrufræðistofnun yfirtaki réttindi og skyldur Landmælinga Íslands og RAMÝ. Gert er ráð fyrir að við sameininguna verði starfsfólk Landmælinga og RAMÝ hluti af hinni sameinuðu stofnun og er jafnframt lagt til að heiti stofnunarinnar verði framvegis Náttúrufræðistofnun í stað Náttúrufræðistofnunar Íslands.“

Fjöldi starfsfólks í sameinaðri stofnun yrði 72 frá 1. janúar 2024 sem áfram starfi á núverandi starfsstöðvum í Garðabæ, Akranesi, Akureyri, Mývatni og Breiðdalsvík.