Jón Sveinn Pálsson fæddist á Hofi á Skagaströnd 28. desember 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir 6. september 2023.

Jón var sonur hjónanna Sigríðar Guðnadóttur húsfreyju frá Hvammi í Holtum og Páls Jónssonar frá Balaskarði, kennara og bónda á Hofi og síðar skólastjóra í Höfðakaupstað á Skagaströnd. Systkini Jóns eru Kristinn, f. 1927, Guðný Málfríður, f. 1929, Guðfinna, f. 1930, Ingveldur Anna, f. 1935, Ásdís, f. 1936, og Edda, f. 1939. Þau eru öll látin nema Ásdís, hún býr á Selfossi.

Eftirlifandi eiginkona Jóns er Björk Axelsdóttir, fyrrverandi kennari, f. 14.1. 1942. Foreldrar hennar voru Þorbjörg Bjarnadóttir og Axel Davíðsson, þáverandi bændur á Ytri-Brekkum á Langanesi. Jón og Björk gengu í hjónaband 14.1. 1960. Börn þeirra eru: 1) Páll fiskiðnaðarmaður, f. 4.5. 1961, d. 13.5. 2021. 2) Rannveig myndmennta- og sérkennari, f. 1962, eiginmaður Baldur Jóhannsson, d. 11.4. 2021, dóttir Rannveigar er Björk, börn þeirra Baldurs eru Una Erlín og Jón Hrafn, synir Baldurs eru Magnús og Kjartan, barnabörn Baldurs og stjúpbarnabörn Rannveigar eru fimm. 3) Þorlákur Axel háskólakennari, f. 1963, kvæntur Gunnhildi H. Gunnlaugsdóttur, þeirra dætur eru Svanhildur og Berglind Jóna, barnabörnin eru þrjú. 4) Sigurður Pétur húsasmíðameistari, f. 1965, kvæntur Ingu S. Guðbjartsdóttur, dæturnar eru Margrét Lena og Katrín Birna. 5) Þorsteinn Styrmir hagfræðingur, f. 1971.

Jón ólst upp á Hofi á Skagaströnd til 10 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan í Höfðakaupstað. Hann tók landspróf á Reykjum í Hrútafirði 1951, lauk kennaraprófi frá KÍ 1956, nam við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn 1973-74 og lauk prófi í sérkennslufræðum við KHÍ 1990. Jón var skólastjóri og kennari í Höfðaskóla á Skagaströnd í tuttugu og fimm ár, hann kenndi ungur á Þórshöfn en lauk áratuga kennsluferli sínum á Húnavöllum. Hann tók þátt í félagsmálum, var formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Þórshafnar, formaður í hestamannafélaginu, Lionsklúbbi og barnaverndarnefnd á Skagaströnd, sat í hreppsnefnd og söng í kirkjukór svo eitthvað sé nefnt.

Jón Sveinn Pálsson verður jarðsunginn frá Blönduóskirkju í dag, 20. september 2023, og hefst athöfnin klukkan 14.

Jón Pálsson faðir minn var glaðlyndur maður sem gott var að eiga samvistir við, hann var minn annar helsti uppalandi og allt ber það að þakka. Skólastjórn, kennsla og sérkennsla var hans ævistarf. Hann tileinkaði sér hina barnvænu uppeldisfræði, bar virðingu fyrir börnum og unglingum, treysti þeim, vakti áhuga þeirra og var óþreytandi við að fræða nemendur sína. „Hann gat alveg brugðið út af áætlun,“ sagði fyrrverandi nemandi hans mér, „en hann var alltaf að kenna okkur.“ Ég átti góðar stundir í skólanum hjá honum. Í Höfðaskóla máttum við nota trésmíðastofu, æfingaaðstöðu fyrir hljómsveit, trommusett, myrkraherbergi og tæki til að framkalla ljósmyndir, eldhús í matreiðslu, fuglasafn og fótboltavöll. Líklega var skólinn tvísetinn en þarna var hópur góðra fastra kennara og svo farandkennarar sem aðeins voru ár eða tvö.

Það var gott uppeldi að fá að vera með við störfin þegar við áttum kindur, láta vita af nýbornum ám suður á túni eða klippa hausa fyrir svíðingu í sláturtíð. Glatt var á hjalla í heyskapnum þegar við fengum að sitja á hlassinu þegar pabbi ýtti saman heyinu í sátur. Pabbi lifði þjóðfélagsbreytinguna, fór í bernsku með stórfjölskyldunni á hestum í Hofssel þar sem heyjað var með orfi, ljá og hrífum. Saman mokuðum við heyi í hlöðu og tíndum bagga af túnum en loks var samið við nágranna um að binda heyið í rúllur. Pabbi lýsti því hvað það var merkilegt að handleika plastpoka í fyrsta skipti, sem nú eru bannaðir til að vernda náttúruna. Ljúft er að rifja upp þegar við lögðum á hestana til skemmtunar innanbæjar, til silungsveiða austur í Fjallabaksá og til að fara í göngur á Skaga eða smöluðum að Skrapatungurétt. Fengum kannski eina hrakningasögu af fjárrekstrum úr Skagafirði vestur yfir fjöllin áður en bílarnir tóku við. Langferðir á hestamannamót í Húnaver, á Melgerðismela eða yfir Kjöl á Hellu, yfir Þingeyrasand að heimsækja vini í vestursýslunni og víðar um héraðið voru fjölskylduferðir, mamma færði okkur nesti og kaffi á jeppa ýmist af japanskri, bandarískri eða rússneskri gerð. Pabbi var laginn ljósmyndari og fangaði hinar ljúfu stundir á filmu. Ein kvöldskemmtun var að skoða saman skuggamyndir nýjar og gamlar.

Ungur maður var pabbi til sjós á sumrin á handfærum og síld. Saman rerum við bæði á rækjubát og við stóðum í aðgerð á Skagastrandartogara. Þar sló hann ekkert af og undi sér prýðilega í harðri vinnu með fyrrverandi nemendum sínum.

Pabbi var alinn upp af góðu fólki, hann var heilsteyptur maður sem vann fjölskyldu sinni og samfélagi allt það besta sem hann mátti. Það var hátíðleg stund þegar hann undirritaði samninginn um landbótaskóg í Kúskerpi, landið verður skógi vaxið. Hann naut þeirrar mestu gæfu lífs síns að kynnast eiginkonu sinni og móður okkar systkina, Björk Axelsdóttur. Það yrði langt þakkarbréf ef ætti að setja allt á blað, en hér fær hún bestu þakkir fyrir umönnunina hin síðari ár eftir að hann veiktist. Ég veit að ég tala fyrir hönd systkina minna í því efni. Vertu sæll kæri faðir, þú verður með okkur áfram.

Þorlákur Axel Jónsson.

Ég man sögur pabba úr barnæsku hans á Hofi þar sem hann þekkti allar jurtir og fugla. Þegar hjólið fór undan kerrunni sem Grástakkur var spenntur fyrir og pabbi þeyttist út í móa og rotaðist. Hann varð vitni að því að valur veiddi rjúpu, át hana og gólaði þegar hann kom að hjartanu. Þegar pabbi stóð í fjörunni og sá svo undarlega vatnsbólu sem sprakk ekki og reyndist vera ljósapera sem hann sá þarna í fyrsta sinn.

Pabbi var fyrirmynd; gekk í öll verk á barnmörgu heimilinu. Á sunnudagsmorgnum bjó hann til kakó og skonsur og söng með okkur „kakóið frá Kammerún“ með sinni fallegu tenórrödd. Stundum eldaði pabbi Túnbraut níu spesíal. Hann nennti að hjálpa okkur krökkunum að teikna og mála; gera listaverk, lesa fyrir okkur kvöldsögur, sjálfur enn þreyttari en börnin, sofnandi út frá lestrinum. Við gátum togað upp úr honum eitt og eitt orð á stangli; „pabbi, hvað svo, hvað svo, pabbi?“

Á laugardagskvöldum dönsuðu pabbi og mamma þannig að við krakkarnir gátum stundum hlaupið á milli. Þau strekktu lök og gerðu um leið hengirúm fyrir okkur.

Hádegin á jóladag eru minnisstæð. Hangikjötið, jafningurinn og laufabrauðið. Foreldrarnir á þönum. Pabbi í hvítri skyrtu sem líktist skyrtunni sem jólasveinninn var í innan undir rauða jakkanum kvöldið áður með merkilega líkar hendur og hann pabbi minn og sams konar giftingarhring. Pabbi þurfti alltaf að fara út í fjárhús að gefa kindunum um það leyti sem jólasveinninn kom.

Ég man eftir skuggamynda- og bíósýningunum og leikjunum í barnaafmælunum. ferðalögunum, útilegunum og hestaferðunum. Pabba að fara til hrossa upp í borg. Fjölskyldan bjó í Danmörku árið sem hann var í framhaldsnámi. Það víkkaði sjóndeildarhringinn svo um munaði. Þar var flest nýtt fyrir okkur. Eplin komu beint af trjánum í garðinum.

Pabbi gaf mikið og sagði „vel gagnist“ þegar við þökkuðum fyrir hlutbundnar gjafir. Litlu gjafirnar eru minnisstæðar; til dæmis blýantar sem pabbi skar í mismörg strik til að við þekktum þá í sundur. Eitt strik fyrir elsta barnið, tvö fyrir næsta og svo koll af kolli. Þegar við vorum farin að heiman í nám fengum við senda matarkassa sem bundið var um með blágrænu baggabandi. Barnabörnin fengu síðar myndabréf með teikningum og frásögnum af kindum og hestum. Hann ræktaði hross, land, tré og fólkið sitt.

Ég er vel nestuð frá föður mínum eins og þegar ég fékk að fara með honum í göngur í Skagaheiðina með nesti í hnakktösku og setja stein í vörðu eins og þau gera sem koma þar í fyrsta skipti. „Stattu upp ef þú ert ekki brotin,“ sagði hann við mig þegar hestur henti mér hjá sandhrúgu. Og já, pabbi sá til þess að ég var með hjálm þegar ég fór á bak. „Stundum verðum við að taka af varaorkunni,“ sagði pabbi seint á fallegu sumarkvöldi þegar við vorum að moka heyi í hlöðu. Hann notaði orð á borð við skuldseigur og framstygg. Ef ég var að lesa þegar tekið var að dimma kveikti pabbi ljós. Á kvöldin krossaði hann bæinn.

Takk elsku pabbi fyrir alla þína góðu nærveru; traustið, verndina, gleðina.

Rannveig.

Afi Jón var fyrir mér besti afi sem hægt var að hugsa sér. Hann var rólegur, traustur, góður og alltaf til í að framkvæma það sem mér datt í hug að gera. Ég vissi fátt betra en að eyða sumrunum í sveitinni hjá afa og ömmu, þar leyfðu þau mér að hafa það sjálfstæði sem börn þurfa en pössuðu þó vel upp á mig. Ég man sérstaklega eftir sumri þegar ég heimtaði að fara til afa í sveitina og við vorum tvö. Við höfðum skyr og hvítar fiskibollur í jafningi til skiptis í matinn í marga daga, við vildum ekkert vera að flækja hlutina. Mér er einnig minnisstætt þegar þú hjálpaðir mér og vinkonum mínum að læra fyrir samræmdu prófin, þolinmæðin þín var ótrúleg gagnvart þessum unglingum sem höfðu ekki endilega þolinmæði til að læra. Síðustu ár varstu farinn að gleyma en samt fannst mér eins og þú þekktir mig, Jónu nöfnu þína. Þú spjallaðir við mig og sýndir öllu því sem ég sagði þér áhuga. Síðast þegar við hittumst sagðir þú mér að þú værir farinn að sjá illa og mér þótti erfitt að heyra það, ég veit hvað þér fannst gaman að lesa og mála.

Nú ertu farinn í sumarlandið afi minn og ég treysti því að það verði fagnaðarfundir þegar þú hittir afa Gulla og Palla frænda. Ég treysti því líka að þú farir í reiðtúr á Degi, ég sé fyrir mér að þú sért hraustur á líkama og sál og eyðir öllum stundum í hestamennskunni þar sem þér leið svo vel. Elsku amma mín, missir þinn er mikill og ég sendi þér innilegustu samúðarkveðjur mínar og fjölskyldu minnar.

Berglind Jóna Þorláksdóttir.

Elsku afi minn.

Það var svo margt sem ég lærði af þér sem hefur verið mér fallegt veganesti í lífinu. Þín ótrúlega afslappaða framkvæmdagleði og virðing fyrir öllum verkum stórum og smáum. Hvort sem það voru bústörfin, hestamennskan, heimilisverkin, listir, ljóð, söngur eða tónlist. Það voru öll verk unnin af virðingu og vandvirkni.

Ég var mikið hjá ykkur ömmu fyrir norðan í gegnum árin, næstum öll sumur og skólafrí. Þið amma áttuð einstaka ást í 65 ár, lífsförunautar að eilífu, rákuð saman hrossaræktarbú og störfuðuð við kennslu. Í sveitinni var ræktað land, blóm og dýr. Þar lærði ég að þekkja nöfn á fjöllum og tegundir jurta og smádýra og fuglahljóð. Ég lærði að bera virðingu fyrir náttúrunni.

Hestamennskan var stór partur af æsku minni. Ég fékk hest að gjöf mjög ung sem fylgdi mér í mörg ár. Fjallaskjóna var formóðir hrossaræktarinnar í sveitinni, það var hryssa sem átti afkomendur sem eru kjarninn í hestastofninum ykkar ömmu. Undan Fjallaskjónu komu margir gæðingar og eðalhestar, t.d. Snarfari ofurhestur sem keppti og vann mörg 150 metra skeið í gegnum árin.

Þú starfaðir einnig sem skólastjóri og kennari. Þar opnaðir þú heim menntunar fyrir börnum, þú notaðir teikningu, listir og söng og alls konar aðferðir við kennslu, sem hugsanlega þykja mjög nýstárlegar enn í dag.

Þegar ég var lítil varst þú alltaf að gefa mér efni til listsköpunar, blöð, góða blýanta og penna. Gafst mér hvatningu og sjálfstraust til að tjá mig í myndmáli og teikningu. Skrifaðir niður ljóð og sögur sem mér datt í hug, svo töluðum við lengi um sköpunarverkin sem urðu til. Þú átt mikinn þátt í því að ég starfa sem myndlistarkona og listkennari í dag.

Ég held að þú hafir alltaf séð einhverja möguleika í öllu og einhvern veginn virkjað allt í kringum þig. Það var enginn fugl of smár til að læra að þekkja hljóðin hans og allir og allt mikilvægt í samhljómi lífsins.

Við erum þakklát fyrir þig og ég sakna þín mikið afi minn.

Björk Viggósdóttir.

Ég er kominn með vorið til þín vinur

vaknaðu og sjáðu

túnið orðið grænt síðan í gær

svona glöð er jörðin.

Við lestur þessa fyrsta erindis úr ljóði Snorra Hjartarsonar, Harpa kveður dyra, sér maður fyrir sér Jón standa á tröppunum á Kúskerpi, líta yfir jörðina sem hann elskaði og humma með sjálfum sér. Það liti út fyrir gott vor og góðan heyskap.

Því Jón Pálsson var ekki aðeins góður kennari, hann var líka góður búmaður. Hann var alinn upp á Skagaströnd þar sem faðir hans, fyrir utan að vera skólastjóri, átti kindur að þeirra tíma hætti. Jón lærði því snemma umgengni og fóðrun dýra sem kom sér vel þegar hann byrjað að hafa áhuga á hestamennskunni. Hann var góður námsmaður, fór í Kennaraskólann og síðar í framhaldsnám í Danmörku. Hann var kennari af guðs náð, kenndi af mikilli lipurð, var eftirtektarsamur og hugsaði sérstaklega vel um þá nemendur sem áttu erfitt. Hann sinnti þeim af einstakri hugulsemi og fann góðar leiðir til að vekja áhuga þeirra á náminu. Hann var listrænn, teiknaði og málaði og hafði gott auga fyrir því fallega, sérstaklega í náttúrunni.

Sjómennsku stundaði hann líka á sumrin, enda var gert ráð fyrir því þá að kennarar ynnu á sumrin því hvað áttu þeir annars að gera. „Það þyrfti nú líka að vinna fyrir fjölskyldunni“ eins og sagt var.

Og Jón var svo sannarlega ekki einn. Hann giftist norðurþingeyskri stúlku, Björk Axelsdóttur frá Svalbarða í Þistilfirði, sem stóð við hlið hans í blíðu og stríðu til hinstu stundar. Hún sá fyrst um heimilið og uppeldi barnanna fimm, að þeirra tíma sið, en fór síðar í kennaranám og fór að kenna. Þau áttu vel saman, bæði fróð, skemmtileg og góð heim að sækja.

Þau bjuggu lengi á Skagaströnd þar sem Jón varð síðan skólastjóri. Fjölskyldan stækkaði og það er óhætt að segja að Jón hafi sinnt henni vel. Hann hafði áhuga á öllu því sem hún var að fást við og voru barnabörnin sérstaklega hænd að honum. Hann var óþreytandi að ræða og lesa fyrir þau, teikna, kenna þeim að sitja hest og fara í reiðtúra. Því í Kúskerpi voru hrossin bæði alin og tamin og mikill áhugi á öllu því er tengdist hestamennskunni.

Við kynntumst Jóni og Björk þegar þau hjónin söðluðu um og fluttu að Húnavöllum og hófu kennslu þar. Á sama tíma keyptu þau Kúskerpi í Engihlíðarhreppi og fluttu hesthúsið og hrossin þangað, en hesthúsið höfðu þau byggt í Bótinni hjá okkur á Reykjum. Í Kúskerpi hófst nýr kafli í lífinu þar sem þau gátu sameinað áhugann á kennslunni og hestamennskunni. Og nú er fjölskyldan orðin skógarbændur og hefur plantað hundruðum trjáa sem vaxa og dafna á jörðinni sem Jóni var svo kær.

Það er mikil gæfa fyrir okkur að hafa kynnst, ferðast og átt samleið með þeim hjónunum og svo fjölskyldunni allri. Jón var gegnheill maður, eins við alla, hafði góða nærveru, einstaklega kurteis og sinnti öllum sínum störfum af mikilli natni. Sannkallaður heiðursmaður.

Með þessum línum sendum við Björk og allri fjölskyldunni samúðarkveðjur.

Inga Þórunn og Þorsteinn H.

Hugleiknir hafa Jónar verið mér árum saman og í fylking þeirra má finna margt göfugmenni svo vitnað sé til alkunnrar sögu og glettu sunnan úr Skeiðháholti.

Þann Jón, sem við kveðjum í dag, reyndi ég ekki að öðru, hann hafði Húnaflóann, bláan og bjartan, fyrir augum sínum um dagana, fæddur á Hofi eins og nafni hans Árnason og Jón var, ásamt með Björk konu sinni, traustur og heill í stuðningi við arf, sögu og framtíð húnvetnskra byggða.

Starfsferill Jóns hófst í Steinsstaðaskóla, þar sem Jón kenndi 1956-7, síðan á Þórshöfn í fjögur ár, en þá lá leið hans út til Skagastrandar þar sem hann kenndi og stjórnaði grunnskólanum og sömuleiðis frammi í héraðinu, á Húnavöllum.

Ég kynntist Jóni á fyrsta vetri mínum við tónlistarkennslu, sem var á Skagaströnd, í heimabyggð hans. Öðlingur og alúðarmaður reyndist hann vera og studdi af einlægni góð mál sem komu upp samfélaginu.

Þau voru samhent í því eins og öðru, hjónin Björk og Jón – á efri árum sínum – að kaupa jörðina Kúskerpi í Refsborgarsveit, gerðu upp bæinn með sonum sínum og dvöldu þar löngum stundum.

Sögufélagið Húnvetningur vill þakka þátt þeirra hjónanna í starfi félagsins síðustu árin og ekki síst þegar við minntumst nafna Jóns, þjóðsagnasafnarans frá Hofi, með messum og samkomum úti í Hofskirkju, í Skagabúð og á Skagaströnd fyrir fáum árum.

Ég vel vísu eftir Guðmund Inga á Kirkjubóli til að kveðja vin minn. Þeir áttu það sameiginlegt, Jón og Ingi, að vera traustir skólamenn og höfðu yndi af sauðfé og fjárbúskap:

Ég á mér draum um garð sem grær

það gildir einu hvar hann er

en hann er mínu hjarta nær

en hæðin sem á milli ber.

Ingi Heiðmar Jónsson.