Eimskip var í fjárhagskröggum sumarið 2008. Samskip höfðu þá hug á að kaupa erlendar eignir af félaginu, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Reyndar var forsvarsmönnum Eimskips lítið skemmt yfir tilefni fundarins.
Eimskip var í fjárhagskröggum sumarið 2008. Samskip höfðu þá hug á að kaupa erlendar eignir af félaginu, en höfðu ekki erindi sem erfiði. Reyndar var forsvarsmönnum Eimskips lítið skemmt yfir tilefni fundarins. — Samsett mynd
Upphaflegan fund forsvarsmanna Samskipa og Eimskips, sem fram fór í júní 2008 og er nú sagður marka upphaf að ólöglegu samráði flutningafélaganna, má samkvæmt heimildum Morgunblaðsins rekja til þess að upplýsingar um bága fjárhagsstöðu Eimskips…

Upphaflegan fund forsvarsmanna Samskipa og Eimskips, sem fram fór í júní 2008 og er nú sagður marka upphaf að ólöglegu samráði flutningafélaganna, má samkvæmt heimildum Morgunblaðsins rekja til þess að upplýsingar um bága fjárhagsstöðu Eimskips höfðu með einhverjum hætti borist forsvarsmönnum Samskipa.

Hluti af þessu hefur komið fram í andmælum Samskipa í aðdraganda þess að Samkeppniseftirlitið lagði 4,2 milljarða króna sekt á félagið fyrr í þessum mánuði. Þá koma sambærileg sjónarmið fram í andmælum, en ViðskiptaMogginn hefur undir höndum andmælaskjöl félagsins sem lögð voru fram áður en Eimskip tók ákvörðun um að játa samráð og greiða 1,5 milljarða króna sekt sumarið 2021. Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintu samráði félaganna hafði þá staðið yfir í um áratug.

Nánar er fjallað um tilurð fundarins í júní 2008 hér til hliðar á síðunni. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMogga var þó nokkur óánægja með það meðal stjórnenda Eimskips að svo viðkvæmar upplýsingar um fjárhagsstöðu félagsins höfðu ratað í hendur stjórnenda Samskipa. Ekki liggur fyrir hvort þær upplýsingar hafi ratað frá Kaupþingi, sem var þá viðskiptabanki Eimskips, eða að um innanhússupplýsingaleka var að ræða. Hvað sem því líður er fátt sem bendir til þess, samkvæmt þeim gögnum sem bæði Eimskip og Samskip hafa lagt fram, að þessi umræddi fundur hafi markað upphafið að því mikla samráði sem félögin hafa nú bæði verið sektuð fyrir.

Glærukynning sem enginn sá

Eins og áður hefur verið fjallað um telur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um meint brot Samskipa yfir þrjú þúsund blaðsíður sem birt er í 15 bindum. Annað atriði sem talið er hafa markað upphafið að meintu samráði félaganna er glærukynning sem fannst í tölvu Gylfa Sigfússonar, fyrrverandi forstjóra Eimskips, við rannsókn málsins. Glærukynningin, sem ber heitið „Nýtt upphaf“ var þó, samkvæmt andmælaskjali Eimskips, búin til sjö mánuðum áður en fyrrnefndur fundur fór fram í júní 2008 og send þáverandi forstjóra, Baldri Guðnasyni. Af þeim gögnum sem fyrir liggja er fátt sem bendir til þess að kynningunni hafi verið fylgt eftir eða rædd frekar, kynnt í tölvupósti, á fundi, í minnisblaði eða með öðrum leiðum.

Rétt er að taka fram að ekkert af þessu sýnir fram á sakleysi fyrirtækjanna í málinu, enda hafa þau bæði verið sektuð vegna málsins. Hér hafa þó verið viðruð andsvör og andmæli skipafélaganna við málaflutningi Samkeppniseftirlitsins og þær forsendur sem eftirlitið gefur sér um upphaf hins meinta samráðs.

Glærukynning um verkefnið „Nýtt upphaf“

Samkeppniseftirlitið segir að glærukynninguna, sem búin var til hjá Eimskipi, innihalda hugmyndir um samstarf Eimskips og Samskipa sem síðan hafi verið hrint í framkvæmd eftir fund æðstu stjórnenda fyrirtækjanna 6. júní 2008. Þar hafi grunnurinn að víðtæku samráði fyrirtækjanna verið lagður.

Eimskip segir í andsvörum 2020 að glærukynningin hafi ekkert gildi haft. Hún hafi verið útbúin fyrir fyrri forstjóra A1988 (sem svo varð Eimskip) – sjö mánuðum áður en fundurinn fór fram – og gengið til næsta forstjóra sumarið 2008 sem vistað hafi skjalið. Um hafi verið að ræða hugmyndir um hvernig draga mætti úr kostnaði sem aldrei hafi komið til framkvæmda og ekki verið dreift frekar.

Samskip hafa í andsvörum til Samkeppniseftirlitsins og víðar sagt að engin vitneskja hafi verið innan fyrirtækisins um glærukynninguna eða þær hugmyndir sem þar eru reifaðar. Fulltrúar fyrirtækisins hafi fyrst fengið að vita af tilvist hennar þegar Samkeppniseftirlitið sendi hana með andmælaskjali árið 2018, um áratug eftir að hún var samin.

Fundur forsvarsmanna Samskipa
og Eimskips sem fram fór 6. júní 2008

Samkeppniseftirlitið segir að á fundinum hafi verið til umræðu aukið samstarf og samráð fyrirtækjanna í takti við glærukynninguna „Nýtt upphaf“ og grunnurinn verið lagður að víðtæku samráði skipafélaganna næstu árin.

Eimskip segir að í fyrstu hafi verið talið að fundurinn væri að undirlagi Kaupþings banka vegna tengsla eiganda Samskipa við bankann. Síðan hafi komið í ljós að til fundarins var boðað til að ræða áhuga Samskipa á að kaupa tilteknar eignir Eimskips, sem rætt hafi verið um að selja í ljósi fjárhagsörðugleika félagsins. „En tekið var fálega í þær umleitanir af hálfu fulltrúa A1988, af augljósum samkeppnislegum ástæðum,“ segir í svörum Eimskips til Samkeppniseftirlitsins.

Samskip segja fundinn til kominn af því að eigendur Samskipa hafi orðið þess áskynja að Eimskip stóð höllum fæti eftir offjárfestingar á árunum á undan. Markmið eigenda Samskipa með fundinum hafi verið að kanna hvort vilji stæði til þess innan Eimskips að selja Samskipum eignir, nánar til tekið finnska gámaflutningafélagið Containerships og hollenska frysti-geymslufyrirtækið Daalimpex. Fundurinn hafi verið stuttur og árangurslaus. Reynt hafi verið að koma á frekari viðræðum um kaup á eignunum en ekki tekist.