Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Sveitarstjórn Mýrdalshrepps samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að úthluta Pennanum ehf. lóð fyrir allt að 1.200 fermetra verslunar- og þjónustuhús á Smiðjuvegi 7, austast í Víkurþorpi. Um lóðina bárust á annan tug umsókna en það var niðurstaða sveitarstjórnar að umsókn Pennans þjónaði heildarhagsmunum íbúa best. Þannig stendur til í væntanlegu húsi að hafa bókabúð með ritföng og gjafavöru, en einnig er þar gert ráð fyrir til dæmis bókasafni, apóteki, kaffihúsi, skrifstofum og heilbrigðisþjónustu.
Áhugi fjárfesta var mikill
„Áhuginn á lóðinni var mikill og fyrir Mýrdalinn er merki um styrleika að fjárfestar vilji nema hér land,“ segir Einar Freyr Elínason sveitarstjóri í samtali við Morgunblaðið. „Mikilvægur þáttur í því að styðja við mikla íbúafjölgun á svæðinu er að auka aðgengi að fjölbreyttri þjónustu. Í því efni eru uppi ýmsar hugmyndir. Þeim þarf sveitarfélagið að bregðast við með því að skipuleggja ný svæði til uppbyggingar.“
Íbúafjölgun í Mýrdalshreppi síðustu árin hefur verið fordæmalítil. Íbúar nú eru 964 en voru 462 fyrir tíu árum, á haustdögum 2013. Þessu ræður að mestu leyti uppsveifla í ferðaþjónustunni. Reynisfjara er einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Áhugaverðir staðir í Mýrdal og nágrenni eru fleiri, svo á svæðinu hefur verið reist hótel, veitingastaðir, verslanir og svo mætti áfram telja. Slíkt krefst vinnuafls; fólks sem að stórum hluta kemur frá öðrum löndum. Þannig eru um 60% Mýrdælinga í dag fólk frá til dæmis Póllandi, Grikklandi og Spáni, svo þjóðerni nokkurra hópa nýrra íbúa sé tiltekið.
Byggja leikskóla og styrkja innviði
„Við úthlutuðum Pennanum lóðinni við Smiðjuveg vegna hugmynda og tillagna um að í húsinu yrði fjölbreytt starfsemi. Þetta er góð viðbót á stað þar sem til hefur orðið alþjóðlegt samfélag á til þess að gera fáum árum,“ útskýrir Einar Freyr. Íbúafjölgun síðustu ára segir hann hafa kallað á margvíslega uppbyggingu af hálfu sveitarfélagsins. Nú sé verið að byggja nýjan leikskóla í Vík og styrkja ýmsa innviði. Þá séu einkaaðilar að reisa hús fyrir iðnaðarstarfsemi og fjárfestar séu með í byggingu tvö fjölbýlishús, með alls 25 íbúðum. Einnig séu í smíðum nokkur rað- og einbýlishús eins og full þörf sé á.
„Fjölgun íbúa hér síðustu árin hefur verið afar hröð – en þó alveg í samræmi við þarfir ferðaþjónustunnar. Okkur vantar í raun sáralítið upp á að íbúafjöldinn hér komist í fjögurra s tafa tölu, sem að óbreyttu gæti gerst á fyrri hluta næsta árs,“ segir sveitarstjórinn.
Ríkið efli þjónustu
Hundruð þúsunda ferðamanna koma í Mýrdal á ári hverju. Einar Freyr segir mikilvægt að starfsemi ríkisins á svæðinu, svo sem læknisþjónusta og löggæsla, taki mið af því. Að miða aðeins við lögheimilisskráningu, þegar fjármunum er ódeilt og þjónusta skipulögð, sé úrelt nálgun. Nú stefnir til dæmis í að aðeins einn lögregluþjónnn verði með fasta búsetu í Vík og því sé hætta á að löggæsla á svæðinu veikist.
„Af þessu höfum við miklar áhyggjur og viljum að gert verði betur. Við hér í Mýrdalnum krefjumst aðeins þess sem sanngjarnt er. Ferðaþjónustan hér á svæðinu skilar hinu opinbera afar miklum tekjum. Þessi vöxtur hefur skilað sveitarsjóði miklum og stórauknum útsvarstekjum sem við höfum nýtt til margvíslegrar uppbyggingar. Slíkt hið sama þarf ríkið að gera,“ segir Einar Freyr.