Miðað við núverandi forsendur eru full orkuskipti fyrir árið 2014, eins og stefnt er að, að fullu óraunhæf. Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst skortur á orkuframboði.
Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, í nýjum þætti Dagmála á mbl.is í dag. Hún segir að rekja megi yfirvofandi orkuskort til kyrrstöðu sem hafi ríkt í orkuframleiðslu í meira en áratug.
„Við höfum alla burði til að ná þessum markmiðum, en þá þurfum við að fara af stað,“ segir Sigríður.
„Í rauninni hefði verið best ef orkuframleiðsla hefði vaxið jafnt og þétt á síðustu árum, sem hún hefur því miður ekki gert.“
Sigríður bætir við að afleiðingar þessa séu nú þegar komnar fram, meðal annars í skerðingum á raforku yfir vetrartímann. Þá hafi innflutningur á olíu einnig aukist, sem gengur gegn þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér um fyrirhuguð orkuskipti. Það er þó ekki aðeins skortur á rafmagni sem vofir yfir, heldur munum við að hennar sögn að öllu óbreyttu sjá fram á skort á heitu vatni á næstu árum.
„Það er staða sem er mjög umhugsunarverð, í landi þar sem við búum yfir miklum auðlindum,“ segir hún.
Spurð um það hvernig sú kyrrstaða sem hún lýsir verður til, segir Sigríður að á því sé engin ein einföld skýring. Hún segir þó að hávær hópur hafi gert sig mjög gildandi í umræðunni og haldið umræðunni um orkumál í gíslingu.
„Þangað til fyrir nokkrum misserum stóðu margir í þeirri trú […] að það væri gnótt af orku á Íslandi og að við værum í raun búin með þetta verkefni,“ segir Sigríður og vísar einnig til þess að félagasamtök á borð við Landvernd hafi ranglega haldið því fram að Íslendingar framleiddu mesta orku á mann í heimi.
Sigríður gagnrýnir einnig þær forsendur sem Orkustofnun hefur sett fram til að ná fram orkuskiptum hér á landi og segir þær upplýsingar sem stofnunin hefur kynnt skapa upplýsingaóreiðu um málaflokkinn.
Aðspurð segir Sigríður að stefna stjórnvalda, þá í þessu tilviki ríkisstjórnarinnar, sé mjög skýr enda um hana fjallað í stjórnarsáttmála og öðrum gögnum á vegum stjórnvalda. Hún segir að þrátt fyrir að ráðherra málaflokksins hafi talað skýrt hafi undirstofnanir ekki fylgt honum að máli. Fram kemur í máli Sigríðar að þörf sé á því að tvöfalda orkuframleiðslu hér á landi, en til þess að það verði að veruleika þurfi stjórnkerfið að vinna eftir skýrum markmiðum.
Í þættinum er einnig rætt um stöðu Íslands í samanburði við aðrar þjóðir, hvort hægt sé að leggja mat á glötuð tækifæri vegna orkuskorts og margt fleira.