Þjóðadeildin
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
„Ég er mjög spennt og það er alltaf gaman að spila alvöru keppnisleiki með landsliðinu,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið á æfingu liðsins á Laugardalsvelli í gær.
Íslenska liðið leikur sína fyrstu leiki í A-deild Þjóðadeildarinnar í þessum landsleikjaglugga þegar liðið mætir Wales á Laugardalsvelli á föstudaginn og svo Þýskalandi í Bochum á þriðjudaginn. Danmörk leikur einnig í sama riðli, C-riðli keppninnar.
„Reynslumestu leikmennirnir eru vissulega horfnir á braut en við fengum Söndru Sigurðardóttur aftur inn sem var mjög jákvætt fyrir okkur. Hún er náttúrulega frábær markvörður og gríðarlega reynslumikil ofan á það og það mun hjálpa okkur mikið, bæði innan sem utan vallar.
Á sama tíma eru margir ungir leikmenn að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og það eru ný andlit í hópnum núna. Það er gott að fá þessar stelpur inn snemma, fá að kynnast þeim, og mér líst mjög vel á leikmannahópinn fyrir komandi verkefni,“ sagði Sveindís.
Mikilvægt að hafa gaman
Þrátt fyrir ungan aldur á Sveindís að baki 32 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað átta mörk.
„Ég get ekki sagt að ég sé eitthvert unglamb í þessum hóp lengur, enda orðin 22 ára gömul. Það kemur örugglega að því á einhverjum tímapunkti að maður þurfi að þroskast eitthvað en ég passa mig samt alltaf á því að taka lífinu ekki of alvarlega. Ég reyni að njóta mín sem best þegar ég er með landsliðinu og að hafa gaman af því sem ég er að gera og það breytist ekki.
Mér finnst við vera með góða leikmenn sem eru að spila með góðum liðum. Það er ákveðin endurnýjun að eiga sér stað núna og þetta snýst meira um það að við spilum okkur saman og finnum taktinn saman sem lið. Þegar það kemur þá eigum við að geta strítt þessum bestu liðum heims, að mínu mati, og framtíðin er mjög björt hjá landsliðinu.“
Tilbúin í allar stöður
Sveindís Jane hefur verið hættulegasti sóknarmaður íslenska liðsins undanfarin ár en hún hefur fengið talsverða gagnrýni fyrir að nýta færin sín ekki nægilega vel.
„Það er alveg klárt mál að ég þarf að fara að nýta færin mín betur með landsliðinu og ég veit það best sjálf. Ég set ákveðna pressu á mig sjálf, og ég vil standa mig sem allra best þegar ég spila með landsliðinu. Á sama tíma líður mér mjög vel á kantinum og mér líður líka vel í framherjastöðunni.
Ég er í raun tilbúin að spila allar þær stöður sem Steini [Þorsteinn Halldórsson] vill að ég spili og ég mun alltaf gefa mig alla í verkefnið, nema kannski miðvörðinn, enda er ég ekki viss um að mér myndi líða neitt sérstaklega vel aftast á vellinum.“
Inn og út úr liðinu
Sveindís er samningsbundin stórliði Wolfsburg í Þýskalandi og varð hún Þýskalandsmeistari með liðinu á sínu fyrsta tímabili árið 2022.
„Fyrstu árin í atvinnumennskunni hafa verið mjög skemmtileg en á sama tíma krefjandi líka. Ég er búin að vera inn og út úr liðinu og mér hefur ekki alveg tekist að eigna mér sæti í byrjunarliðinu á þessum tveimur árum sem ég er búin að vera í Þýskalandi. Á sama tíma erum við með heimsklassasóknarmenn og samkeppnin er mikil.
Ég tek mínu hlutverki og þegar ég fæ tækifæri þá reyni ég að skila mínu, hvort sem það er að skora mörk eða leggja upp á liðsfélaga mína. Það sem skiptir mestu máli er að liðinu gangi vel og þegar við erum að vinna leiki þá er ekki yfir miklu að kvarta.“