Heimir Guðjónsson fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1951. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 12. ágúst 2023.

Heimir giftist Vilhelmínu Roysdóttur, f. 4. febrúar 1954, árið 1973 og skildu þau árið 1983. Þau eignuðust þrjár dætur: 1) Halla Svanhvít, f. 1. ágúst 1973, gift Þorkeli Guðbrandssyni, f. 26. september 1971. Börn Höllu af fyrra sambandi eru: a) Brynja Hlíf, f. 9. október 1998, í sambúð með Agli Gunnarssyni, f. 20. nóvember 1996, saman eiga þau soninn Dvalin Snæ, f. 9. desember 2020. b) Skarphéðinn, f. 12. júlí 2004. Börn Þorkels af fyrra sambandi eru Andrea Ósk, f. 10. nóvember 1994, Róbert Orri, f. 3. apríl 2002 og Daníel Darri, f. 9. mars 2006. 2) Sara, f. 25. mars 1980, í sambúð með Ægi Ísleifssyni, f. 15. janúar 1971. Saman eiga þau Heimi Jarl, f. 25. júní 2007. Dóttir Söru af fyrra sambandi er Aldís Gestsdóttir, f. 25. maí 1998, í sambúð með Inga Birni Leifssyni, f. 3. september 1997, saman eiga þau dæturnar Júlíu, f. 2. febrúar 2020 og Heklu, f. 28. febrúar 2023. Synir Ægis af fyrra sambandi eru Aron Örn, f. 4. nóvember 1992 og Sigurður Jökull, f. 4. janúar 2000. 3) Sandra, f. 25. mars 1980, í sambúð með Sævari Hólm Valdimarssyni, f. 1. janúar 1979. Dóttir þeirra er Alexandra Helma, f. 14. janúar 1999 og á hún soninn Oliver Zion, f. 6. september 2017.

Seinni kona Heimis var Anna Hauksdóttir, f. 20. janúar 1948, hún lést af slysförum 9. nóvember 2006. Dóttir Önnu var Jóna Sjöfn, f. 17. júlí 1979, hún lést af slysförum 4. maí 1997.

Foreldrar Heimis voru Guðjón Þorleifsson, vélstjóri frá Reykjavík, f. 1. maí 1928, d. 15. desember 2022 og Halla Kristinna Sveinbjörnsdóttir, húsmóðir frá Litlu-Ávík, f. 10. október 1932, d. 22. júlí 1988. Systkini Heimis eru: 1) Erna Hrönn, f. 4. nóvember 1953, hún á einn son. 2) Rafn Arnar, f. 24. júlí 1956, giftur Önnu Maríu Þorláksdóttur, f. 14. apríl 1962, þau eiga fjögur börn og átta barnabörn. 3) Víðir Þormar, f. 15. maí 1957, giftur Málfríði Elísdóttur, f. 9. október 1959, þau eiga þrjú börn og átta barnabörn. 4) Stella Dröfn, f. 31. janúar 1959, gift Guðlaugi Gunnþórssyni, f. 15 nóvember 1950. Stella á tvö börn úr fyrra sambandi og eitt barnabarn.

Útför hefur farið fram í kyrrþey.

Elsku pabbi minn.

Mikið finnst mér erfitt að setjast niður og skrifa minningarorð um þig, það er bara svo óraunverulegt að þú sért ekki lengur hér hjá okkur. Það sem ég sakna þess að fá ekki 10 email, skilaboð á facebook og margar hringingar á dag. Ég þarf að finna þann styrk að lifa lífinu án þín og eina sem huggar mig núna eru allar dásamlegu minningarnar sem eru svo margar.

Man þegar við Títí (eins og þú kallaðir okkur tvíburana alltaf) vorum litlar, þá var t.d. einn leikur sem þér fannst agalega fyndinn, þá hélstu á mér eða Söndru fast í fanginu og sagðist ekki ætla að sleppa okkur fyrr en Bronco keyrði fram hjá og það gat alveg liðið smá tími þar til það gerðist.

Eða þegar við fórum í bíó eitt skiptið þegar við vorum litlar og þú faldir annan skóinn hjá mér eða Söndru og beiðst bara þolinmóður meðan við leituðum í öllum salnum, sýningin löngu búin og salurinn tómur, þá sáum við þig hristast úr hlátri og réttir fram skóinn.

Allir bílasölurúntarnir, sem var svona síst í okkar uppáhaldi en þú mútaðir okkur alltaf með ís og nammi.

Þegar þú ætlaðir að vera ákveðinn og skamma okkur endaði það alltaf með að við sprungum úr hlátri.

Þú varst svo fyndinn í svo mörgu eins og t.d. að kaupa bara tvo bíómiða í stað þriggja og vonaðist til að það myndi ekki fattast eða þegar þú komst með skíði fyrir okkur sem voru frá sautján hundruð og súrkál og hélst að við myndum bara skíða á þeim en varst fljótur með þau til baka og komst með nýjar og flottar græjur fyrir okkur. Og þegar þú fórst á spítala og kynntir okkur sem frænkur þínar fyrir starfsfólki, það fannst okkur öllum sjúklega fyndið.

Síðasta ferð okkar Heimisdætra með þér verður seint gleymd og erum við svo þakklátar fyrir þá ferð með þér norður á Strandir þar sem þú elskaðir að vera og fannst okkur svo fyndið að tala um þá ferð sem við værum að fara í pabbahelgi.

Þú varst alltaf tilbúinn að gera allt fyrir stelpurnar þínar og tala þá ekki um barnabörn þín og barnabarnabörn. Þú varst strax í janúar farinn að kaupa jólagjafir fyrir þau fyrir næstu jól, því þú vissir að þinn tími væri að koma og vildir sjá til þess að þau fengju jólagjafir frá þér. Þú dýrkaðir öll barnabörnin þín og þau þig enda voru mikil samskipti á milli ykkar og hvert og eitt átti einstakt samband við þig. Og ég er viss um að þú hafir verið tilbúinn til að fara í sumarlandið þegar þú heyrðir í langafabörnunum í garðinum fyrir utan herbergið hjá þér uppi á líknardeild, þá vorum við öll hjá þér.

Þú varst og verður alltaf hetjan mín. Sakna þín og elska þig meira en allt elsku pabbi minn. Veit að afi, amma, Anna og Jóna Sjöfn hafa tekið vel á móti þér.

Þín dóttir,

Sara.

Elsku pabbi.

Orð fá ekki lýst söknuðinum, það er svo skrítið að heyra ekki í þér mörgum sinnum á dag.

Ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar okkar og þegar ég hugsa til baka þá er hlátur alltaf fyrstu viðbrögðin hjá mér. Það eru svo endalaust margar fyndnar sögur og minningar. Þú varst alltaf svo góður við okkur systur, barnabörn og barnabarnabörn. Það skipti þig miklu máli að við hittumst öll saman einu sinni í mánuði og borðuðum góðan mat og hefðum gaman.

Það var svo dýrmætt og ætlum við að halda í þá hefð og hafa þig með okkur í anda. Því ég veit að þér leið best þegar við vorum öll saman, hlæjandi, mikil læti, þannig leið þér best.

Síðasta ferðalag okkar var í fyrrasumar norður á Strandir sem ég er svo þakklát fyrir. Við systur kölluðum þetta pabbahelgi. Þú elskaðir sveitina þína, það var svo gaman hjá okkur. Þú varst alltaf að passa að öllum liði vel.

Og þú varst alltaf að gefa barnabörnunum einhverjar skemmtilegar gjafir og þú varst búinn að kaupa allar jólagjafir fyrir þau og pakka þeim inn og koma með þær til mín. Ég geymi þær hérna í gulum Bónuspoka því þú vissir að þú yrðir líklegast ekki með okkur næstu jól.

Þú laðaðir fólk að þér því þú varst svo einlægur, fyndinn og mikill húmoristi.

Þú þurftir alveg að berjast í lífinu og það voru mörg áföll, en þú gafst aldrei upp.

Þú ert mín hetja og verður alltaf. Ég sakna þess svo heyra ekki í þér og sakna þín svo mikið. Ég ætla að enda þetta eins og þú endaðir öll símtölin: „I love you!“

Þín dóttir,

Sandra.

Elsku besti afi okkar.

Þú átt svo risastóran stað í hjarta okkar. Það sem þú hefur helst kennt okkur er að taka lífið ekki of alvarlega og að bros og hlátur getur komið manni ansi langt. Það er svo margt gott og fyndið sem við höfum um þig að segja, eins og það að í hvert skipti sem maður var að fara og fékk koss bless þá þurfti að minna þig á að þurrka varirnar því annars fékk maður rennandi blautan rembikoss á kinnina, eða þegar þú fórst með okkur stelpurnar að veiða og við þurftum alltaf að setja orminn sjálfar á öngulinn því þér fannst það svo ógeðslegt en alveg innilega skemmtilegt að veiða. Þú varst ávallt harður á þínu, t.d. þegar þú þrættir um hvernig ætti að fallbeygja nafnið Júlía, það ætti að vera um „Júlíönu“ en það fékk mann alltaf til þess að brosa. Þú varst svo ótrúlega kærleiksríkur og þú hefðir fært fjöll fyrir fjölskylduna þína hvort sem það væri með berum höndum eða hreinlega bara heimta að fjöllin færðu sig því þú gast verið smá frekja líka. Við erum svo ævinlega þakklátar fyrir að hafa átt svona yndislegan afa og þakklátar fyrir að börnin okkar, Zion, Júlía, Dvalinn og Hekla, hafi átt langafa sem vildi allt fyrir þau gera, sama hversu stórt eða smátt. Þú varst farinn að senda endalausa tölvupósta og hringja varðandi jólagjafir fyrir langafabörnin þín í janúar því þú vildir að þau fengju frá þér jólagjafir því þú vissir að þú myndir líklegast ekki ná þeim. Þetta segir svo innilega mikið um hversu fallegt hjartað þitt var, þú vildir allt gera fyrir alla ef þú hafðir tök á. Það kunni enginn að meta heimsóknir frá okkur jafn mikið og þú og þess vegna var svo ótrúlega gaman að koma með langafabörnin í heimsókn til þín, það gerði alltaf daginn þinn. Þú hringdir mjög reglulega í okkur öll bara til þess að athuga hvernig við hefðum það og hvort allt væri ekki örugglega í lagi. Þú varst límið í fjölskyldunni okkar og passaðir upp á að við hittumst öll reglulega. Heimurinn missti mikinn húmor daginn sem þú fórst því þú varst mesti húmoristinn af þeim öllum, sama hverjar kringumstæðurnar voru var húmorinn alltaf til staðar og lífið aldrei litlaust því þú gafst því lit. Söknuðurinn er mikill og við vitum að þú munt vaka yfir okkur öllum um ókomna tíð. Við söknum þín og elskum þig elsku afi okkar.

Þangað til við sjáumst aftur,

Aldís, Alexandra
og Brynja.

Heimir bróðir er farinn frá okkur í bili og væntanlega kominn í sumarlandið og búinn að hitta Önnu sína, Jónu Sjöfn, mömmu og pabba.

Ég segi eins og Halla: 896-5120 hringir ekki í bili. Það gat verið erfitt að þurfa að svara honum tíu sinnum plús á dag, hann áttaði sig stundum ekki á að aðrir voru uppteknir eða í vinnu, nei hann vildi að við skildum það að ef hann hringdi þá skyldi svara símanum strax, suma dagana var þetta hreinasta martröð.

Svo nú þegar síminn er þagnaður þá myndast tómarúm og maður er strax farinn að sakna símhringinganna, svona er lífið stundum skrýtið.

Mér þótti óendanlega gott að geta kvatt hann eins og hann vildi og á sínum forsendum og okkar kveðjustund var bæði tilfinningarík og falleg.

Við Heimir bróðir unnum saman til fjölda ára fyrst hjá JP innréttingum þar sem við báðir lærðum innréttingasmíði hjá Jóni Péturssyni. Síðar var hann hjá okkur Guðmundi Hannessyni hjá Innréttingaþjónustunni í nokkur ár, saman vorum við með bílasölu til fjölda ára, sennilega höfum við unnið meira og minna saman í yfir 20 ár.

Það er hægt að segja margar sögur af Heimi sem eru bæði fyndnar og skemmtilegar, ætla þó að rifja upp eina sem mér hefur alltaf þótt góð. Fyrir um 40 árum fórum við upp í Veiðivötn eins og við vorum vanir að gera þó að Heimir hafi nú ekki verið mikil veiðimaður. Veður var einstaklega gott, alveg logn og sól og mikið um mý sem var að gera mann brjálaðan þannig að maður flúði inn í bíll en Heimir sagði að maður þyrfti bara að labba niður að vatni, kasta út og standa kyrr, þá myndi mýið láta mann í friði. Já, sögðum við öll og hvöttum hann til að sýna okkur þetta. Jú, minn maður arkar niður að vatni og kastar út, síðan sjáum við þegar hann hverfur hægt og rólega í mýský þar til hann sést hreinlega ekki fyrir mýi, en allt í einu sjáum við veiðistöngina fljúga í loftið og hann tekur sprettinn að bílnum og öskrar eins og óður maður: Opnið bílinn strax! Þar fór þessi kenning hans.

Sum símtölin byrjuðu svona: Hæ, ertu nokkuð á leiðinni til mín? Já sæll, nei ekki endilega en hvað ertu að spá? Ég var að kaupa svakalega sniðugt og þú verður að koma og skoða, ég keypti líka handa þér á Ebay. Hvað varstu nú að kaupa? Það kemur í ljós þegar þú kemur, en það væri líka gott ef þú kæmir með eins og eina fötu í leiðinni! Auðvitað fór maður til að skoða hvað hann hafði verið að panta. Ég mun geyma alla bílana sem þú ert búinn að gefa mér kæri bróðir.

Á Þorláksmessu undanfarin ár hef ég haldið skötuveislu og hefur Heimir verið ómissandi þann dag, oftast kom Rikki vinur hans með og á hann bestu þakkir fyrir.

Heimir bróðir lést 12. ágúst síðastliðinn og var öll fjölskyldan hans hjá honum þegar hann kvaddi þennan heim.

Heimir stóri bróðir: Nú er komið að kveðjustund í bili, ég á eftir að sakna þín óendanlega en minnast allra góðu daganna sem við höfum átt saman. Ég bið góðan Guð að taka á móti þér opnum örmum, ég veit að hann mun gera það. Kæra fjölskylda, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Rafn (Rabbi) bróðir.