Gunnar Heiðar Þorvaldsson var í gær ráðinn þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í knattspyrnu til næstu tveggja ára. Gunnar Heiðar tók við Njarðvíkurliðinu í afar erfiðri stöðu á miðju sumri en það var þá við botn 1. deildarinnar með aðeins 8 stig þegar tíu leikir voru eftir og útlitið frekar svart. Njarðvík náði í fimmtán stig í þessum síðustu tíu leikjum og hélt sæti sínu í deildinni.
Ian Jeffs tilkynnti hins vegar að hann myndi ekki halda áfram sem þjálfari karlaliðs Þróttar úr Reykjavík sem rétt eins og Njarðvík slapp naumlega við fall úr 1. deildinni. Jeffs tók við Þrótturum þegar þeir féllu í 2. deild fyrir tveimur árum og fór upp með liðið í fyrstu tilraun.
Stjörnukonur, sem eru nýliðar í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik í vetur, hafa bætt við sig reyndum leikmanni fyrir tímabilið. Denia Davis-Stewart frá Bandaríkjunum er komin til liðs við Stjörnuna en hún er framherji eða miðherji, 1,85 m á hæð, og var valin leikmaður ársins í NEC-deildinni með Merrimack í bandaríska háskólakörfuboltanum árið 2020. Hún er 25 ára gömul og lék með Dafni Agioy í grísku A-deildinni seinni hluta síðasta tímabils en þar á undan í Ungverjalandi, Þýskalandi og Rúmeníu.
Íslandsmeistarar Tindastóls hafa krækt sér í fyrirliða nígeríska karlalandsliðsins í körfuknattleik fyrir komandi keppnistímabil. Hann heitir Stephen Domingo, 28 ára gamall framherji sem er fæddur í San Francisco og lék með yngri landsliðum Bandaríkjanna, varð heimsmeistari með U17 ára landsliðinu árið 2012, en hefur spilað með landsliði Nígeríu frá 2019. Hann var gerður að fyrirliða landsliðsins fyrir Afríkumeistaramótið árið 2021. Domingo lék með Donar í Hollandi og í bandarísku G-deildinni, varadeild NBA.
Hannes Þ. Sigurðsson hefur látið af störfum sem þjálfari þýska knattspyrnuliðsins Wacker Burghausen. Hannes, sem er 39 ára gamall, tók við þjálfun liðsins síðasta sumar eftir að hafa stýrt liði Deisenhofen í E-deildinni. Wacker Burghausen hefur ekki farið vel af stað í D-deildinni og er sem stendur í fimmtánda sæti Bayern-riðilsins með 7 stig eftir 9 umferðir og er í fjórða neðsta sætinu.
Norska handknattleikskonan Ingeborg Furunes, leikmaður Hauka, þurfti að fara meidd af velli snemma leiks í leik liðsins gegn ÍBV í úrvalsdeildinni í Vestmannaeyjum á laugardaginn. Handbolti.is greindi frá því að óttast sé að krossband hafi slitnað í hnénu, sem myndi þýða langvarandi fjarveru frá handboltavellinum, á bilinu níu til tólf mánuði.
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Gabriel Martinelli verður ekki með enska liðinu Arsenal í fyrsta leik þess í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld. Martinelli meiddist um miðjan fyrri hálfleik í viðureign Arsenal og Everton á Goodison Park á sunnudaginn og Mikel Arteta staðfesti á fréttamannafundi í gær að hann yrði ekki orðinn leikfær þegar Arsenal mætir PSV Eindhoven í London í kvöld.