Róm Markvörðurinn Ivan Provedel skallar boltann í mark Atlético þar sem Jan Oblak kom engum vörnum við.
Róm Markvörðurinn Ivan Provedel skallar boltann í mark Atlético þar sem Jan Oblak kom engum vörnum við. — AFP/Filippo Monteforte
Markvörðurinn Ivan Provedel var maður gærkvöldsins á fyrsta leikdegi Meistaradeildar karla í fótbolta. Provedel er 29 ára gamall Ítali sem ver mark Lazio frá Róm en lið hans virtist ætla að tapa á heimavelli fyrir Atlético Madrid á Spáni

Markvörðurinn Ivan Provedel var maður gærkvöldsins á fyrsta leikdegi Meistaradeildar karla í fótbolta.

Provedel er 29 ára gamall Ítali sem ver mark Lazio frá Róm en lið hans virtist ætla að tapa á heimavelli fyrir Atlético Madrid á Spáni.

Pablo Barrios skoraði fyrir varnarsinnaða Spánverjana í fyrri hálfleik og það virtist ætla að duga til sigurs.

En í blálokin á uppbótartíma var Provedel kominn inn í vítateig Atlético og jafnaði metin með glæsilegu skallamarki, 1:1, eftir fyrirgjöf frá Luis Alberto.

Robert Lewandowski skoraði sitt 100. mark í riðlakeppni Evrópumóta þegar Barcelona vann auðveldan heimasigur á Antwerp frá Belgíu, 5:0. Aðeins Cristiano Ronaldo (144) og Lionel Messi (132) hafa áður náð þessum áfanga. Pólverjinn hefur skorað 92 mörk í Meistaradeildinni og átta í Evrópudeildinni.

Evrópumeistarar Manchester City byrjuðu á sigri gegn Rauðu stjörnunni frá Serbíu, 3:1. Þeir lentu þó óvænt undir í lok fyrri hálfleiks en Júlian Álvarez var fljótur að skora tvö mörk í seinni hálfleik og koma City yfir. Rodri innsiglaði sigurinn með þriðja markinu.

Newcastle lék sinn fyrsta Meistaradeildarleik í 21 ár og náði jafntefli gegn AC Milan á San Siro, 0:0. Litlu munaði að Newcastle stæli sigrinum í lokin þegar Mike Maignan í marki Milan varði glæsilega frá Sean Langstaff.