Það eru auðvitað neytendur sem greiða að lokum alla fyrirtækjaskatta.
Það eru auðvitað neytendur sem greiða að lokum alla fyrirtækjaskatta. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Tekjuskattur á fyrirtæki mun að öllu óbreytu hækka á næsta ári. Eins og áður hefur verið fjallað um hér á þessum stað er enginn efnahagslegur eða hægfræðilegur tilgangur með þeirri skattahækkun, heldur er hér um málamiðlunargjörning að ræða til að til að skapa frið á stjórnarheimilinu

Tekjuskattur á fyrirtæki mun að öllu óbreytu hækka á næsta ári. Eins og áður hefur verið fjallað um hér á þessum stað er enginn efnahagslegur eða hægfræðilegur tilgangur með þeirri skattahækkun, heldur er hér um málamiðlunargjörning að ræða til að til að skapa frið á stjórnarheimilinu. Vinstri grænum finnst bara að fyrirtæki eigi að borga hærri skatt en þau gera, Framsókn finnst að sum fyrirtæki eigi bara að greiða enn hærri skatta en önnur ekki og fallast því á smá hækkun á þau öll, og Sjálfstæðisflokkurinn er alveg til í að gefa eftir af því sem einu sinni voru grundvallarstefnumál flokksins til að halda friðinn. Þingmenn flokksins hafa meira að segja verið staðnir að því að segja að eitt prósentustig sé nú ekki svo mikið. Það er ekki síður hættulegt viðhorf, því það er akkúrat þannig – með litlum skrefum – sem frelsið skerðist og lífskjörin minnka.

Stjórnmálamenn eiga það til að tala af mikilli léttúð um skattlagningu á fyrirtæki, svona eins og það sé eðlilegt að haga skattheimtu eftir geðþótta og það sé lítið mál fyrir fyrirtækin að greiða skatta. Þetta á sérstaklega við um sjávarútvegsfyrirtæki og fjármálafyrirtæki, sem hvor tveggja greiða nú þegar hærri skatta en önnur fyrirtæki. Eins og fjallað var um í Morgunblaðinu á mánudag greiða fjármálafyrirtæki nú þegar rúma 16 milljarða króna í aukaskatta. Þá má einnig rifja upp að sjávarútvegsfyrirtæki greiða einnig hærri skatta en önnur fyrirtæki. Það er þó fleira sem fellur til í þessari umræðu. Þegar fyrirtæki greiða eigendum sínum arð líta margir stjórnmálamenn svo á að betur færi á því að greiða það fjármagn til hins opinbera í formi skatta, nema í þeim tilvikum þar sem um opinber fyrirtæki er að ræða. Þau mega hagnast og greiða arð, helst mikinn arð.

Það er í raun alveg hægt að hækka skatta á sjávarútvegsfyrirtæki, svo dæmi sé tekið. Það fer þá bara minna fjármagn í kaup á nýjum skipum, framþróun í veiðum (til dæmis betri veiðarfærum), nýsköpun, umhverfislausnir og þannig mætti áfram telja. Það væri reyndar hægt að segja svipaða sögu um öll fyrirtæki. Þau sem á annað borð eru rekin með hagnaði, og greiða þar með tekjuskatt, gætu greitt hærri skatta til ríkisins. Það fer þá bara minna fjármagn í aðrar fjárfestingar, uppbyggingu, sköpun nýrra starfa og svo framvegis.

Stóra málið er þó að það er mikill misskilningur ef einhver heldur að það séu fyrirtækin sjálf sem beri kostnaðinn af skattgreiðslum, hvort sem er af þeim háu skattgreiðslum sem þau greiða nú þegar eða hærri skattgreiðslum síðar meir. Það eru alltaf neytendur, fólki í landinu, sem endar á því að borga. Þegar stjórnmálamenn vilja slá sig til riddara og boða hærri skatta á tilteknar atvinnugreinar, þá eru þeir í raun að boða hærri skatta á fólkið í landinu. Það er mikilvægt að muna það.