Með tilliti til smæðar markaðarins eru þessar niðurstöður hagfelldar fyrir Ísland. [...] með samstarfi á vegum Reiknistofu bankanna hefur tekist að ná fram meiri hagkvæmni en ef hver banki eða sparisjóður væri að þróa eigin upplýsingatæknikerfi.

Fjármálafyrirtæki

Yngvi Örn Kristinsson

Hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja

Vinnuhópur sem menningar- og viðskiptaráðherra skipaði í fyrra til að gera úttekt og samanburð á gjaldtöku og arðsemi íslenskra og norrænna banka skilaði skýrslu í lok ágúst síðastliðins. Mesta umræðan um skýrsluna hefur snúist um vaxtamun bankanna og kostnað við greiðslumiðlun, þótt lítið sé nýtt í þeim efnum.

Vaxtamunur var á árinu 2022 svipaður og árið 2018. Um þetta var m.a. fjallað í hvítbók fjármálaráðuneytis um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið árið 2018. Þar var bent á að hærri skattar og þyngri eiginfjárkröfur kynnu að hafa áhrif á vaxtamun hér á landi. Seðlabankinn sem hefur eftirlit með greiðslumiðlun hefur ítrekað á undanförnum árum dregið fram að kostnaður við greiðslumiðlun sé hærri hér á landi en í nágrannalöndum. Engin einhlít skýring liggur fyrir á því hvers vegna svo er. Smæð markaðarins og hærri vextir og verðbólga en í nágrannalöndum kann að hafa áhrif en einnig mikil notkun kreditkorta hér á landi, en þau virðast dýrari greiðslumiðill en debetkort. Allt þetta hefur legið fyrir í mörg ár.

Niðurstöður vinnuhópsins varðandi þjónustugjöld eru aftur á móti nýmæli. Langt er síðan samanburður hefur verið gerður á þjónustugjöldum hér og annars staðar og því áhugavert að gera þennan samanburð nú.

Helstu niðurstöður vinnuhópsins varðandi þjónustugjöldin eru eftirfarandi:

•Verð á bankaþjónustu og þjónustugjöld greiðslukorta hafa lækkað um 15% til 17% að raunvirði frá 2018 skv. mælingum Hagstofu.

•Bankakostnaður (að vaxtagjöldum frátöldum) vegur ekki þungt í heildarútgjöldum heimila, eða aðeins um 0,4% skv. Hagstofu. Þjónustugjöld vegna greiðslukorta vega um 0,1% af útgjöldum skv. Hagstofu. Þessi hlutföll virðast áþekk hlutföllum á öðrum Norðurlöndum.

•Fyrirkomulag gjaldtöku fyrir bankaþjónustu er nokkuð öðruvísi hér landi en á öðrum Norðurlöndum. Hér á landi er algengt að innheimt sé gjald af hverri færslu bæði við notkun korta og greiðslu reikninga (seðilgjöld). Slíkt er ekki gert á öðrum Norðurlöndum en þess í stað eru tekin gjöld vegna stofnunar bankareikninga og árgjald vegna þeirra. Til að meta bankakostnað var stillt upp dæmigerðri körfu bankaviðskipta og kostnaður við hana metinn í hverju landi.

•Dæmigerð mánaðarleg útgjöld fyrir bankaþjónustu (að vaxtagjöldum frátöldum) eru tiltölulega lágar fjárhæðir eða um 3.000 krónur á mánuði hjá einstaklingi, 6.000 krónur hjá pari og rímar það við áætlun Hagstofunnar um að banka- og kortaþjónusta sé um 0,5% af útgjöldum heimila.

•Bent er á að gjöld fyrir þjónustu á afgreiðslustað hafi hækkað meira en gjöld vegna rafrænnar afgreiðslu.

•Að mati vinnuhópsins skortir í einhverjum tilvika á að gjaldskrár banka séu nægilega gagnsæjar og þá er einnig bent á að fyrirkomulag gjaldeyrisviðskipta vegna erlendrar notkunar greiðslukorta mætti vera gagnsærra.

•Gengisálag vegna erlendra greiðslukortaviðskipta er hærra hér en á öðrum Norðurlöndum, eða 1,95% til 3,5% samanborið við að 1% til 2% gengisálag er algengast þar, að öðru leyti en því að Danir taka ekki gjald af kortaviðskiptum í gjaldmiðlum EES-landa.

Með tilliti til smæðar markaðarins eru þessar niðurstöður hagfelldar fyrir Ísland. Ekki er vafi á að miklu skiptir að með samstarfi á vegum Reiknistofu bankanna hefur tekist að ná fram meiri hagkvæmni en ef hver banki eða sparisjóður væri að þróa eigin upplýsingatæknikerfi. Reyndar er sama uppi á teningnum í nágrannalöndum og margvíslegt samstarf er þar í gangi til að ná fram hagkvæmni við þróun stafrænnar tækni.