Hagnaður BSH15 ehf., sem rekur kynlífstækjaverslunina Blush og samnefnda netverslun, nam í fyrra 91,8 milljónum króna, samanborið við 49 milljónir króna árið áður, og jókst því um 87% á milli ára.
Tekjur félagsins námu í fyrra um 632 milljónum króna og jukust um tæpar 30 milljónir króna á milli ára. Þess má geta að tekjur félagsins hafa nú þrefaldast frá árinu 2019. Afkoma fyrir fjármagnsliði og skatta nam 115,6 milljónum króna, og jókst um 56 milljónir króna á milli ára. Rekstrargjöld félagsins námu um 516 milljónum króna og drógust saman um 27 milljónir króna á milli ára, þrátt fyrir að launakostnaður hafi aukist um rúmar 14 milljónir króna og skrifstofukostnaður um 22 milljónir króna. Engar langtímaskuldir hvíla á félaginu. Eigið fé félagsins var í árslok um 198 milljónir króna. Þá kemur fram í ársreikningi að greiddur verði 45 milljóna króna arður vegna rekstrarársins.