Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
„Fyrir það fyrsta þá legg ég mikla áherslu á að flýta málsmeðferðartíma og að við náum að afgreiða umsóknirnar hraðar

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Fyrir það fyrsta þá legg ég mikla áherslu á að flýta málsmeðferðartíma og að við náum að afgreiða umsóknirnar hraðar. Það er ekki gott hve langan tíma þetta tekur, því hver einstaklingur kostar íslenska skattgreiðendur 350 þúsund á mánuði. Við þurfum að ná utan um það,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Guðrún lagði fram minnisblað á fundi ríkisstjórnarinnar í gær þar sem fram komu tölur um fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd það sem af er þessu ári, einnig samanburður við fyrri ár ásamt tölulegum upplýsingum um stöðu þessara mála almennt. Þar kom m.a. fram að búist er við að fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd verði álíka og var á síðasta ári, en þá voru umsóknir ríflega 4.500 talsins.

Dómsmálaráðherra mun leggja fram tvö frumvörp í vetur hvað þessi mál varðar, annað þess efnis að séríslenskar málsmeðferðarreglur verði afnumdar, en hitt um búsetuúrræði með takmörkunum ætlað þeim sem eru í ólöglegri dvöl í landinu, líkt og gert er í nágrannalöndunum.

„Ég mun leggja mikla áherslu á það að löggjöf hér sé í samræmi við það sem er annars staðar á Norðurlöndum og í öðrum Evrópulöndum. Við höfum ekki fylgt nágrannalöndunum eftir í því að þróa verndarkerfið og laga að breyttum aðstæðum,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir. » 12

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson