Frumvarp um kristinfræðikennslu er allrar athygli vert

Nokkrir þingmenn úr þingflokkum Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins, þeir Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Jakob Frímann Magnússon, Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason og Eyjólfur Ármannsson, hafa lagt fram lítið frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, nánar tiltekið um kristinfræðikennslu. Breytingin felst í því að bæta orðunum „kristinfræði og“ fyrir framan orðið „trúarbragðafræði“.

Flutningsmenn lýsa því í greinargerð, þar sem saga kristinfræðikennslu er rakin, að hún hafi verið hluti af námsefni hér á landi um aldir en horfið sem sérstök námsgrein fyrir fimmtán árum. Fyrir áratug hafi trúarbragðafræðslan orðið ein af níu námsgreinum sem falli undir samfélagsgreinar og nú sé það hvers skóla eða kennara að ákveða vægi trúarbragðafræðslunnar innan samfélagsgreinanna. Þess séu dæmi „að kristinfræði fái minna vægi í trúarbragðafræði en önnur trúarbrögð“.

Í greinargerð er bent á að kristni sé samofin sögu þjóðarinnar í meira en þúsund ár og ekki sé „hægt að skilja menningu okkar nema hafa þekkingu á kristnum gildum, svokölluð fjölmenningarhyggja kemur þar ekki í staðinn“. Flutningsmenn vilja þess vegna að kristinfræði fái aukið vægi innan trúarbragðafræðinnar en að áfram fari fram kennsla um önnur trúarbrögð. Þá er nefnt að með fjölgun íslenskra ríkisborgara sem eru af erlendu bergi brotnir „eykst nauðsyn þess að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa og auka þar með umburðarlyndi. Slíkt er best gert með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni, og almennri fræðslu um trúarbrögð heimsins og þar með menningu og siði þjóða og þjóðarbrota. Til að slík fræðsla verði að gagni og nái að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi þarf hún að ná til allra.“

Í þessu sambandi er vísað í tilmæli Evrópuráðsins um að „aðildarríkin geri sér grein fyrir því að trúarbrögð séu mikilvægur þáttur í evrópsku samfélagi og að menntun sé lykillinn að baráttunni gegn fáfræði, staðalímyndum og misskilningi varðandi trúarbrögð og leiðtoga þeirra“.

Enn fremur er bent á að á Norðurlöndum sé „kristinfræðikennsla yfirleitt skilgreind sem hluti af almennri menntun. Grunnskólar í Danmörku byggja trúarbragðakennslu á kenningum dönsku þjóðkirkjunnar, siðfræði, biblíusögum og sögu kristninnar. Í Noregi segir að skólinn skuli byggjast á grunngildum hins kristna arfs.“ Í löndum þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju hafi farið fram, „eins og í Svíþjóð, er enn lögð mest áhersla á kristna trú í trúarbragðafræðslu grunnskólanna“.

Í greinargerð sinni nefna flutningsmenn einnig að grunnur þess siðgæðis sem „íslenskt þjóðfélag hefur byggt á er í anda kristilegs siðgæðis. „Við eigum ekki að vera feimin við að segja að við séum kristið samfélag,“ sagði Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra í umræðum á Alþingi um kristilegt siðgæði í nóvember 2007. Engu að síður mælti ráðherra fyrir því að kristinfræði yrði ekki lengur kennd sem sérstakt fag.“ Með nýjum grunnskólalögum frá árinu 2008 var fallið frá því að kenna kristinfræði sem sérstakt fag. Full ástæða er til að efast um að sú breyting hafi reynst vel eða sé líkleg til að hafa jákvæð áhrif til framtíðar.

Flutningsmenn nefna það sömuleiðis að skólinn sé ekki trúboðsstofnun og kennslan eigi ekki að stangast á við trúfrelsi. En þeir telja, réttilega, að kristni sé svo ríkur þáttur í sögu og menningu landsins að kennsla í skólum landsins verði að taka mið af því. Um leið gera þeir ráð fyrir að kennslan fari fram sem hluti af náminu og sé í höndum kennara við skólana. Það er nokkuð sem þyrfti að huga að í tengslum við ýmislegt annað sem orðið er hluti af náminu en skólarnir hafa ákveðið að útvista. Hér í eina tíð sinntu prestar kennslu í kristinfræði og fórst það almennt ágætlega úr hendi. Engu að síður var ákveðið að það væri ekki lengur við hæfi og réttara væri að breyta fyrirkomulaginu, kennslan yrði færð til kennara og yrði hluti af almennri trúarbragðafræðslu. Full ástæða er til að börn kynnist fleiri trúarbrögðum en of langt hefur verið gengið með því að kristin trú sé orðin í aukahlutverki í þeirri fræðslu. Eðlilegt er að áherslunni sé breytt á ný og þó að ekki sé horfið til þess tíma þegar prestar kenndu þessi fræði í skólum landsins er eðlilegt að þau fái þar aukið vægi. Landsmenn verða að þekkja sögu og menningu þjóðarinnar og þau gildi sem Ísland og önnur vestræn ríki byggjast á. Sú þekking verður ekki fyrir hendi til framtíðar ef kristinfræði fær ekki aukið vægi í námsefni ungmenna.