Guðmundur Svavar Valgarðsson (alltaf kallaður Bósi) fæddist í Reykjavík 11. nóvember 1932. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 6. september 2023.

Foreldrar hans voru Valgarður Vigfús Magnússon, f. 22. október 1905, d. 1. júní 1995, og Jamí Oktavía Guðmundsdóttir, f. 22. október 1904, d. 24. mars 1988.

Systkini Guðmundar Svavars: Guðrún, f. 14. júlí 1931, d. 24. febrúar 2019; Hafsteinn, f. 11. júní 1937, d. 22. ágúst 2012; Georg Sævar, f. 25. september 1938, d. 19. nóvember 2008; Ásdís Vala, f. 25. febrúar 1943, d. 27. júní 2005; Arnar Reynir, f. 21. mars 1946, d. 13. janúar 2005; Ester Svanhvít, f. 21. júlí 1943.

Hinn 26. desember 1958 giftist Guðmundur Svavar Sigurlaugu Jónínu Kristjánsdóttur, þau slitu samvistir. Börn Guðmundar Svavars og Sigurlaugar eru: 1) Kristján Haukur, f. 1957, lést 1961. 2) Oktavía Jóna, f. 1958, maki Baldvin Jóhann Þorláksson. Börn þeirra: Brynhildur Sara, Linda Dís og Unnur Bára, barnabörnin eru sex. 3) Valgarður Ómar, f. 1963, maki Ingibjörg Ragnarsdóttir, börn þeirra: Eva Rós og Ómar Karl, barnabörnin eru þrjú. 4) Guðmundur Rúnar, f. 1965, maki Ingunn Ásgeirsdóttir. Börn þeirra: Ásgeir Þór og Kristján Þór, barnabarn eitt. 5) Bragi Kristján.

Hinn 29. nóvember 1980 giftist Guðmundur Svavar Áslaugu Sæunni Sæmundsdóttur, f. 22. ágúst 1936, d. 17. janúar 2020. Þau eignuðust Írisi Huld, f. 1975, maki Gestur Sigurðsson. Börn þeirra eru Sigurður Arthúr og Thelma Björk.

Guðmundur Svavar ólst upp á Spítalastígnum og seinna í Ánanaustum. Hann gekk í Miðbæjarbarnaskólann til 15 ára aldurs. Hann seldi blöð og var sendisveinn meðfram námi. Hann fór 13 ára á fiskibát og seinna á togara. Guðmundur Svavar fór í Iðnskólann og lauk prófi sem málarameistari árið 1955. Hann vann við þá iðn þar til hann stofnaði Brauðstofu Áslaugar ásamt Áslaugu
konu sinni. Þau hjónin bjuggu á Framnesvegi 26a þar til þau keyptu hús af Valgarði föður Guðmundar í Karfavoginum og seinna fluttu þau í Grafarvoginn. Þegar þau hjónin hættu að vinna settust þau að í húsi á vegum dvalar- og hjúkrunarheimilisins Áss í Hveragerði.

Útför hans fer fram frá Hveragerðiskirkju í dag, 22. september 2023, klukkan 14.

Jæja, elsku pabbi minn, þá ertu loksins kominn til mömmu og ég veit að hún og fleiri hafa tekið vel á móti þér. Ég vann í foreldralottóinu þegar ég fékk þig sem pabba því þú varst mín stoð og stytta í gegnum lífið
og ávallt tilbúinn til að hlusta og grípa mig ef svo þurfti. Við vorum miklir vinir, þó við værum bæði þrjósk og þver, og eftir að mamma dó þá sagðir þú svo oft: „Já, það erum við tvö á móti heiminum.“ Við áttum dásamlegar stundir saman og þú elskaðir að vera sóttur og boðinn í mat eða bara eyða deginum með okkur. Þú varst líka ofsalega glaður þegar ég kom með rúnstykki með smurosti og heitt kakó eða rjómaís með ananassósu. Þú varst svo mikill sælkeri og vá hvað ég elskaði að dekra við gamla minn. Þú varst aldrei sáttur við að mamma færi á undan og saknaðir hennar alveg svakalega og varst í raun löngu tilbúinn að hitta hana aftur. En þú gerðir þitt besta til að taka þátt í lífinu og var það mikil lukka þegar þú fórst inn á Ás í Hveragerði og fékkst yndislegan herbergisfélaga.

Við ferðuðumst mikið þegar ég var yngri og líka þegar ég var komin með mína eigin fjölskyldu og eru börnin mín sífellt að rifja upp ferðirnar með afa og ömmu. Þú tókst svo vel á móti Gessa mínum á sínum tíma og þér þótti virkilega vænt um hann og varst svo stoltur að ég væri búin að finna mér svona góðan mann. Já, það
eru forréttindi að hafa átt eldri foreldra og er ég þakklát fyrir tímann okkar saman.
Þú varst alltaf næmur og sást og vissir meira en við hin.

Þú varst búinn að vera
mikið veikur síðustu mánuði sem reyndist þér erfitt og í raun má segja að lífsgleðin í augunum þínum hafi verið farin að dofna. Á miðvikudeginum áður en þú lést varstu upp á þitt besta og við fórum saman í göngutúr. Þú sagðir þá að þetta væri þinn síðasti góði dagur og að næstu dagar yrðu erfiðir
en ég mætti ekki vera leið.
Það kom á daginn að dagarnir á eftir voru erfiðir og ég sat með þér næstu daga og er ég endalaust þakklát fyrir þann tíma. Á þriðjudeginum áður en þú lést sagðir þú við mig: „Jæja, Ísa mín, þá er loksins komið að þessu,“ og kysstir mig. Já, þú varst svo einstakur og svo tilbúinn í næsta kafla. Við tvö náðum að klára þetta ferðalag þitt saman, bæði sátt því gamli minn vildi fara og hitta gömlu sína. Ég er viss um að nú sértu alsæll á röltinu með mömmu, með fullkomna sjón og heyrn og getur notið þín, jafnvel með vindil og rauðvínsglas og Bósa mín hleypur glöð í kringum ykkur.

Takk fyrir allt, elsku besti minn, og mun ég sakna þín
mikið en geymi þig í hjarta mínu að eilífu. Knús og kossar, þín

Íris Huld (Ísa).

Elsku afi, nú ertu kominn til ömmu og sú hefur verið glöð að sjá þig. Þú varst svo tilbúinn að fara til hennar og sú vitneskja hjálpar okkur í sorginni að hafa þig ekki lengur hjá okkur. Við eigum svo margar góðar minningar með þér og ömmu og svo þegar amma var farin þá var alltaf svo gaman þegar þú komst til okkar og eyddir deginum með okkur. Eða fara saman í bæjarferð og kíkja í Kringluna á uppáhaldskaffihúsið ykkar ömmu. Þú varst alltaf svo stoltur af okkur og vildir fylgjast með því sem var að gerast hjá okkur. Minningarnar eru margar eins og þegar við komum til þín og sýndum einkunnir okkar og þú varst stoltasti afinn á svæðinu. Við erum svo heppin að hafa fengið svona mikinn tíma með þér og munum geyma minningarnar vel í hjarta okkar. Knús frá okkur elsku afi og njóttu þess að vera aftur með ömmu og Bósu.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Sigurður Arthúr og Thelma Björk.