Meiri halli er á rekstri stærri sveitarfélaga sem hafa birt uppgjör fyrir fyrri helming ársins en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum fyrir yfirstandandi ár. Staðan er þó betri en á síðasta ári. Þetta sagði Sigurður Á

Meiri halli er á rekstri stærri sveitarfélaga sem hafa birt uppgjör fyrir fyrri helming ársins en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum fyrir yfirstandandi ár. Staðan er þó betri en á síðasta ári. Þetta sagði Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands ísl. sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í gær. Birti hann upplýsingar um sex mánaða uppgjör fimm af stærstu sveitarfélögum landsins sem hafa birt hálfsársuppgjör, Reykjavíkur, Kópavogs, Reykjanesbæjar, Akureyrar og Garðabæjar. Í ljós kemur að taprekstur var hjá þeim öllum nema Reykjanesbæ sem skilaði afgangi. Almennt var þó afkoma þeirra betri en á sama tíma í fyrra. Nam tap þeirra á fyrri hluta þessa árs 3% af tekjum samanborið við 8% á fyrri hluta síðasta árs.

Birti hann einnig tölur um afkomu 14 annarra sveitarfélaga sem næst koma að stærð miðað við íbúafjölda. Var rekstrarhalli á fyrri hluta ársins hjá ellefu þeirra en þrjú skiluðu afgangi. Nam hallinn á rekstri 5% af tekjum þeirra fyrri hluta ársins samanborið við 12% á sama tíma í fyrra. Á heildina litið batnaði framlegð á milli ára í þessum sveitarfélögum samanborið við fyrri hluta síðasta árs. Tekjurnar hækkuðu um 16% og gjöldin um 9%. Að sögn hans stefnir almennt í meiri halla sveitarfélaga en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum. Þær gerðu ráð fyrir 1,2% halla en vísbendingar eru um að hann hafi verið 3,4% á fyrri hluta ársins. „Verðbólgan er stóra málið,“ sagði hann. Óvissa væri um verðbólgustigið, henni fylgdu háir vextir og há ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði. „Það þýðir að fjárfestingargeta sveitarfélaganna mun verða miklu minni.“ omfr@mbl.is