Skagafjörður Varmahlíð er þorp við þjóðbraut þvera. Íbúarnir eru um 140 og hefur fjölgað talsvert síðustu árin.
Skagafjörður Varmahlíð er þorp við þjóðbraut þvera. Íbúarnir eru um 140 og hefur fjölgað talsvert síðustu árin. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Dreifbýlið hér um slóðir er að styrkjast og því þarf þarf sveitarfélagið að mæta með styrkingu þjónustukjarnanna,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði. Unnið er um þessar mundir að endurgerð tveggja gatna í Varmahlíð; Norðurbrún og Laugavegi

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mb.is

„Dreifbýlið hér um slóðir er að styrkjast og því þarf þarf sveitarfélagið að mæta með styrkingu þjónustukjarnanna,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði. Unnið er um þessar mundir að endurgerð tveggja gatna í Varmahlíð; Norðurbrún og Laugavegi. Ofar og sunnar í þéttbýlinu er gatan Birkimelur sem verið er að lengja til suðurs. Með því verða til lóðir fyrir alls 24 íbúðir; einbýlis-, par- og raðhús.

Miðlægur kjarni

„Við finnum fyrir vaxandi áhuga fólks á að byggja og setjast að í Varmahlíð,“ segir Sigfús sveitarstjóri. „Íbúar þar voru um síðustu áramót 141 og hefur fjölgað um tæplega 20 á þremur árum. Raunar hefur fólki verið að fjölga mjög víða hér í Skagafirði, meðal annars í framhéraðinu þar sem Varmahlíð er miðlægur þjónustukjarni með leik- og grunnskóla, sundlaug, íþróttahús og menningarhúsið Miðgarð svo fátt eitt sé nefnt. Nú er hér komin hitaveita víða um sveitir sem og ljósleiðari. Að slíkir mikilvægir innviðir séu fyrir hendi hefur styrkt búsetu í dreifðari byggðum Skagafjarðar.“

Fram undan er útboð fyrir byggingu nýs leikskóla í Varmahlíð; það er jarðvegsframkvæmdir og að reisa húsið að fokheldi. Gert er ráð fyrir að hægt verði að taka á móti allt að 65 börnum í leikskólanum, sem verður með tengingu við Varmahlíðarskóla. Sú bygging, grunnskólahúsið, er að stofni til reist árið 1974 og þá var þar meðal annars heimavist nemenda.

„Heimavistin er löngu aflögð, kennsluhættir hafa breyst og af þeim sökum og vegna almennrar viðhaldsþarfar liggur fyrir að ráðast þarf í miklar endurbætur á húsinu. Húsaskipan þarf að taka mið af þörfum dagsins í dag og fyrirsjáanlegrar framtíðar,“ segir Sigfús um Varmahlíðarskóla – þar sem nú eru liðlega 100 nemendur í 1.-10. bekk. Í nýju deiliskipulagi fyrir skólasvæðið í Varmahlíð og næsta ná grenni er einnig horft til þess að stækka meg i bæði leik- og grunnskóla ef þörf krefur í framtíðinni.

Skagfirðingar nú 4.403

Íbúar í Skagafirði eru skv. allra nýjustu tölum nú 4.403 og hefur fjölga ð um tæplega 100 manns það sem af er ári.

„Að talan færi yfir 4.400 var mjög ánægjulegt, nokkuð sem við höfðum lengi vænst. Á Sauðárkróki eru íbúarnir í dag liðlega 2.600 og fer fjölgandi og þróunin er söm á öðrum svæðum í sveitarfélaginu. Þar má sérstaklega nefna Fljótin, þar sem ör fjölgun hefur orðið á liðnum árum. Þar eru öflug fyrirtæki í ferðaþjónustu, þannig að starfsfólk hefur flutt á svæðið og er með lögheimili þar,“ segir Sigfús Ingi.