Veður Staðan á veðráttunni tekin við Ásgarð í Dalabyggð. Tæknin mun koma í stað veðurathugunarmanna víða um land nema á lykilstöðum.
Veður Staðan á veðráttunni tekin við Ásgarð í Dalabyggð. Tæknin mun koma í stað veðurathugunarmanna víða um land nema á lykilstöðum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Þetta hefur verið þróunin, bæði hér á landi og úti um allan heim,“ segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugunar- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofu Íslands. Í dag eru mannaðar veðurstöðvar á Íslandi 13 talsins en ætlunin er að þeim verði fækkað hratt

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Þetta hefur verið þróunin, bæði hér á landi og úti um allan heim,“ segir Ingvar Kristinsson, framkvæmdastjóri athugunar- og upplýsingatæknisviðs Veðurstofu Íslands. Í dag eru mannaðar veðurstöðvar á Íslandi 13 talsins en ætlunin er að þeim verði fækkað hratt. Ingvar segir skýringuna einfalda:

„Það gengur alltaf verr og verr að fá fólk til að sinna þessu mikilvæga verkefni, að taka veður. Fólkið sem sinnir þessu í dag gerir það vel en það er að eldast. Við fáum ekki ungt fólk til að taka þessi verkefni að sér.“

Fjallað er um málið í nýrri skýrslu veðurmælingateymis Veðurstofunnar um athuganir á landinu þar sem farið er yfir núverandi stöðu og framtíðarsýn veðurstöðvamælinets landsins á næstu árum. Búist er við því að úrkomumynstur breytist með hlýnandi veðurfari, úrkomuákefð muni aukast og þurrkadögum á móti fjölga. Það kalli á betri vöktun á stöðum þar sem vatnavá getur valdið tjóni.

Fleira kemur þó til að mannleg vöktun veðurs víkur fyrir tæknivæðingunni. „Í sjálfvirkum mælingum erum við farin að fá gögn á 10 mínútna fresti. Mestu upplýsingarnar sem þú getur fengið frá mannaðri veðurathugunarstöð eru á þriggja klukkustunda fresti. Það sættir sig enginn við það. En það sem tapast á móti, og menn hafa haft mestar áhyggjur af, er að með mönnuðum veðurathugunum þá ertu að lýsa veðri sem mælitæknin okkar ræður illa við í dag.“

Í Danmörku, Þýskalandi og víðar eru t.d. engar mannaðar veðurathuganarstöðvar lengur fyrir hendi. „Það er alveg klárt mál í okkar huga að mönnuðum veðurathugunarstöðvum mun halda áfram að fækka,“ segir Ingvar en á Íslandi eru lykilstöðvar sem verða áfram mannaðar. „Við sjáum það fyrir okkur að innan ekki langs tíma verði mannaðar stöðvar fjórar til fimm talsins.“

Hann nefnir í því samhengi Stykkishólm, sem búi að langri tímaröð veðurathugana, og einnig Dalatanga. „Það verður einnig seint lögð af mönnuð veðurathugun í Reykjavík og Keflavík.“