Áslaug hugsar mikið um liti og á heimilinu er græni liturinn áberandi. Borðið með græna marmaranum var keypt notað á uppboði hjá hostelinu Oddsson.
Áslaug hugsar mikið um liti og á heimilinu er græni liturinn áberandi. Borðið með græna marmaranum var keypt notað á uppboði hjá hostelinu Oddsson. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Maðurinn minn ólst hér upp. Tengdapabbi byggði húsið ásamt bróður sínum árið 1963 og bjó alla tíð hér á efri hæðinni en við keyptum neðri hæðina af bróðurnum fyrir sex árum,“ segir Áslaug um húsið sem fjölskyldan býr í

Maðurinn minn ólst hér upp. Tengdapabbi byggði húsið ásamt bróður sínum árið 1963 og bjó alla tíð hér á efri hæðinni en við keyptum neðri hæðina af bróðurnum fyrir sex árum,“ segir Áslaug um húsið sem fjölskyldan býr í.

Hvað er það sem þú heillaðist af við íbúðina?

„Stóru gluggarnir heilluðu strax og flæðið í íbúðinni er mjög gott. Mér finnst dásamlegt að geta opnað beint út í garð.“

Áttu uppáhaldsstað í stofunni?

„Mér finnst mjög gott að sitja í stóra Norr-stólnum fyrir framan arininn við gólfsíðan suðurgluggann sem vísar út í garð. Á sumrin blómstra rósir beint fyrir utan og græni liturinn flæðir inn og birtan sömuleiðis.“

Hvað finnst þér gera heimili heimilisleg?

„Fallegir og áhugaverðir hlutir, listaverk og fallegur textíll. Mér finnst það heimilislegt þegar maður fær tilfinningu fyrir því að hlutirnir á heimilinu séu valdir meðvitað út frá persónulegri fagurfræði og tengingum.“

Alltaf hægt að finna stað fyrir réttu verkin

Hvernig horfir þú á rými?

„Ég þarf að hafa liti í kringum mig og leitast mikið eftir því að hafa hluti eða element í kringum mig sem grípa augað. Það geta verið listaverk eða bara húsgögn eða hlutir í efnum, litum eða formum sem vekja forvitni. Ég leiði líka hugann að því hvernig augað ferðast um rými frá ólíkum sjónarhornum og hugsa um ryþma innan rýmisins og birtu.“

Er heimilið eins og verk í vinnslu sem tekur breytingum og þróast eða er það alltaf eins?

„Af og til breytum við hjá okkur ef okkur finnst eitthvað ekki vera að virka nógu vel eða ef upp kemur tilfinning þar sem mann langar að fá inn nýja tilfinningu og hrista upp í orkunni í rýminu. Þá gríp ég oft til þess ráðs að endurraða listaverkunum á veggjunum og búa þannig til ný samtöl milli verka og virkja rýmin á nýjan hátt. Það er alla vega mun ódýrari kostur en að hlaupa út í búð og kaupa eitthvað nýtt inn á heimilið í hvert sinn sem þessi tilfinning blossar upp.“

Ertu frekar að hugsa um myndlistina á heimilinu en nýja hluti?

„Fyrir mér skiptir myndlistin sem ég vel að hafa í kringum mig mestu máli. Ef ég gæti haft hlutina alveg eins og ég vildi þá væri ég alltaf að bæta við verkum í safnið. Því miður erum við með takmarkað veggpláss vegna allra stóru glugganna svo ég hef þurft að sýna aðhald í þeim efnum og velja vel verk á þá fáu staði sem koma til greina. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að ef maður sér verk sem manni finnst maður ekki geta lifað án og nærir mann andlega þá eigi það að ráða og annað, eins og húsgögn, að víkja. Það er alltaf hægt að finna stað fyrir réttu verkin.“

En áttu uppáhaldsmublu?

„Fyrir utan listaverkin þá held ég mikið upp á lítið steypt borð sem ég fékk fyrir nokkrum árum í búð sem selur notaða hluti. Það er hringlaga og gert úr grænum steinbrotum og hvít steypa fyllir upp á milli þeirra. Það kom svo síðar í ljós að ein besta vinkona ömmu minnar heitinnar hafði átt það.“

Þykir vænt um öll listaverkin

Hvað veitir þér innblástur?

„Hið óvænta, hið skrýtna, hið hefðbundna, hið frumlega og hið fallega.“

Áttu verk eftir aðra listamenn sem þú heldur upp á?

„Ég held mjög mikið upp á stórt vatnslitaverk sem ég á eftir Bernt Koberling sem ég fékk í gjöf frá foreldrum mínum. Annað verk í uppáhaldi er málverk eftir Helgu Páleyju Friðþjófsdóttur sem er einn af mínum uppáhaldslistamönnum og góð vinkona, málverk eftir Huldu Vilhjálmsdóttur, ljósmynd eftir Katrínu Elvarsdóttur og vatnslita- og collage-verk eftir Guðmund Thoroddsen sem ég gaf manninum mínum í fertugsafmælisgjöf þegar við vorum nýbúin að kynnast. Mér þykir reyndar vænt um öll verkin sem ég á enda höfum við valið þau til okkar vegna þess að þau hafa talað til okkar á einhvern hátt.“

Ertu alltaf með sömu verkin uppi á vegg og bætir við, eða skiptir þú út jafnt og þétt?

„Verkin sem ég á eftir aðra listamenn eru alltaf uppi við en ég skipti oft út verkum eftir sjálfa mig, fæ þau lánuð af vinnustofunni og máta þau heima. Svo leik ég mér að því að hreyfa verkin til og frá innan heimilisins.“

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir