Byltur Dagur byltuvarna er í dag og ráðstefna á Hótel Hilton með fjölda erinda sem tengjast byltum hjá eldri borgurum, heima og á sjúkrahúsum.
Byltur Dagur byltuvarna er í dag og ráðstefna á Hótel Hilton með fjölda erinda sem tengjast byltum hjá eldri borgurum, heima og á sjúkrahúsum. — Ljósmynd/Colourbox
Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Það er ekki aftur tekið þegar eldra fólk dettur og það getur haft mikil áhrif á lífsgæði og færni, jafnvel orðið til þess að fólk geti ekki lengur búið heima. Þá getur óttinn við að detta valdið því að fólk hættir að treysta sér í almenna hreyfingu, einangrast jafnvel og í kjölfarið minnkar hreyfigetan. Í dag frá 9-16 er haldin ráðstefnan Dagur byltuvarna á Hótel Hilton þar sem sérfræðingar halda erindi um ýmis mál tengd byltum hjá eldra fólki.

„Það læðast að okkur öllum aldurstengdar hrörnunarbreytingar í kerfum sem lúta að stjórnun jafnvægis. Þær byrja hægt og bítandi að þróast upp úr fimmtugu. „Eftir því sem þær ágerast verðum við óstöðugri og meiri líkur á að við dettum,“ segir Bergþóra Baldursdóttir verkefnastjóri og sjúkraþjálfari, en hún heldur erindi um innleiðingu verklags byltuvarna á Landspítala á ráðstefnunni. Þriðji hver einstaklingur 65 ára dettur einu sinni á ári og tíðni byltna tvöfaldast á fimm ára fresti eftir það.“

Hætta á sjúkrahúsum

Þegar litið er til þess að mest áberandi hópur sjúklinga á Landspítalanum er 70 ára og eldri, þá eru þetta einstaklingar sem komnir eru í byltuhættu vegna aldurstengdra hrörnunarbreytinga sem skerða getu þeirra til jafnvægisstjórnunar. „Bráð veikindi skerða síðan enn frekar hæfni þeirra til að stjórna eigin stöðugleika. Ókunnugt spítalaumhverfið eykur síðan enn frekar byltuhættuna en byltur eru algengustu óvæntu atvikin á heilbrigðisstofnunum,“ segir Bergþóra.

„Ýmsum veikindum getur fylgt blóðþrýstingsfall við stöðubreytingar, t.d. við að fara fram úr rúmi. Sjúklingar geta verið undir lyfjatengdum áhrifum sem skerða jafnvægið, eru ef til vill nýkomnir úr skurðaðgerðum, þreklitlir og slappir. Því er algengt að sjúklingar detti þegar þeir fara fram úr rúmi, eða fara á salerni á nóttunni á spítalanum.“ Bergþóra segir að það séu margir áhættuþættir, oft samverkandi, sem geti valdið byltum og eftir því sem þeir eru fleiri, því meiri verði byltuhættan. Hún nefnir sem dæmi sögu um fyrri byltu, óráð, réttstöðublóðþrýstingsfall, vannæringu, fjölda lyfja, t.d. lyf sem hafa áhrif á hjarta- og miðtaugakerfi eða sterk verkjalyf, sjónskerðingu, tíð þvaglát, hættur í umhverfi og skort á notkun stuðnings- og hjálpartækja. Bergþóra bendir á vefsíðuna www.landspitali.is/byltur en þar er vinnulag í byltuvörnum á Landspítala kynnt og þar er að finna fræðslubækling með ráðum fyrir sjúklinga til að draga úr byltuhættu og auka öryggi meðan á sjúkrahúsdvöl stendur.

Minnka hættuna heima

Byltur eru einnig algengar hjá eldri einstaklingum sem búa heima. „Það hjálpar þó að þar er fólk í þekktu umhverfi ólíkt því að vera á sjúkrahúsi.“ Eitt af þeim úrræðum sem boðið er upp á í heilbrigðisþjónustunni er að fara heim til fólks, meta umhverfið og koma með tillögur að úrbótum sem aukið geta öryggi og sjálfsbjargargetu. Þá er t.d. litið til þess að útvega stuðnings- og hjálpartæki, t.d. göngugrindur og stuðningsstangir við rúm og salerni. Einnig er mikilvægt að hafa ekki lausar mottur eða snúrur í gangvegi og góð lýsing er mikilvæg.

Hreyfing seinkar hrörnun

Bergþóra segir að besta forvörnin gegn byltum sé að vera duglegur að hreyfa sig. Með reglubundinni hreyfingu, jafnvægis- og styrktaræfingum örvar fólk skyn- og hreyfikerfi sem mikilvæg eru í stjórn jafnvægisins sem stuðlar að betra jafnvægi. „Hreyfingin þarf að vera svolítið ögrandi, t.d. að ganga í þúfum og öðru ójöfnu undirlagi því það reynir meira á en ganga á malbiki. Síðan er líka gott að vera berfættur heima og þegar við æfum jafnvægið, það örvar skynvitund í fótum og hjálpar okkur að jarðtengja okkur.“ Hún bætir þó við að fólk sem hefur skynskerðingu í fótum þurfi að fara varlega í að vera berfætt heima við. Ef eldri einstaklingar eru farnir að finna fyrir óöryggi getur verið gott að leita til sjúkraþjálfara, láta meta jafnvægi sitt og fá ráðleggingar um æfingar. Mikilvægt sé að heimilislæknir fari reglulega yfir lyf eldra fólks því ákveðin lyf geta aukið hættu á byltum. „Svo þarf að passa að borða hollt og gott fæði,“ segir hún að lokum.