„Stjarna er fædd … sem hljómar eins og hún sé fædd fyrir hundrað árum“ er yfirskrift gagnrýni um tónleika Laufeyjar með Los Angeles-fílharmóníunni sem birtist á vef tímaritsins Variety í vikunni

„Stjarna er fædd … sem hljómar eins og hún sé fædd fyrir hundrað árum“ er yfirskrift gagnrýni um tónleika Laufeyjar með Los Angeles-fílharmóníunni sem birtist á vef tímaritsins Variety í vikunni. Uppselt var á tónleikana, sem fram fóru á útisviðinu The Ford í Hollywood, á svipstundu að sögn gagnrýnandans og segir hann að miðar hafi farið á 40-80 þúsund íslenskra króna í endursölu. Rýnirinn, Chris Willman, segir Laufeyju á góðri leið með að byggja upp sína eigin „Great American Songbook“, eins og kanóna bandarískrar djass- og dægurtónlistar 20. aldarinnar er stundum kölluð. Hann segir að lokum að ætla megi að Laufey sé góður kandídat í flokkinn „besti nýi tónlistarmaðurinn“ á Grammy-verðlaunahátíðinni.