Vinsæll George R.R. Martin.
Vinsæll George R.R. Martin.
Stéttarfélag rithöfunda í Bandaríkjunum (Authors Guild) hefur ásamt 17 nafngreindum höfundum höfðað hópmálsókn gegn fyrirtækinu OpenAI í New York fyrir brot á höfundarrétti með því að hafa notað skáldverk til að þjálfa ChatGPT-gervigreindina

Stéttarfélag rithöfunda í Bandaríkjunum (Authors Guild) hefur ásamt 17 nafngreindum höfundum höfðað hópmálsókn gegn fyrirtækinu OpenAI í New York fyrir brot á höfundarrétti með því að hafa notað skáldverk til að þjálfa ChatGPT-gervigreindina. Meðal höfundanna sem höfða málið eru Michael Connelly, John Grisham og George R.R. Martin. Þetta kemur fram á vef félagsins.

Í frétt Politiken um málið kemur fram að fleiri fyrirtæki sem nýta sér gervigreind, þeirra á meðal Meta og Stability AI, standi frammi fyrir sambærilegum málshöfðunum. Fulltrúar þeirra eru, ásamt stjórnendum OpenAI, þeirrar skoðunar að þeim sé heimilt að nota efni af netinu þrátt fyrir að reglur um höfundarrétt eigi við um sjálfar bækurnar. Á móti benda höfundarnir á að oft á tíðum séu bækur þeirra afritaðar með ólöglegum hætti og dreift á netinu og því sé óheimilt að nýta slíkt efni í þeirra óþökk.

Mary Rasenberger, framkvæmdastjóri Authors Guild, segir að höfundar verði að hafa möguleika á að stjórna því hvort og hvenær verk þeirra séu notuð til að þjálfa GPT. Maya Shanbhag Lang, forseti félagsins, sakar OpenAI og fleiri sambærileg fyrirtæki um að stela lífsviðurværi höfunda og því sé það skylda félagsins að gæta réttinda félagsmanna sinna. Authors Guild er bæði elsta og fjölmennasta félag rithöfunda í Bandaríkjunum með um 14.000 félagsmenn.