Græni stóllinn frá ömmu Sigríðar kemur vel út við ljósa Rico Lounge- stólinn frá Ferm Living og svarta Eames-stólinn.
Græni stóllinn frá ömmu Sigríðar kemur vel út við ljósa Rico Lounge- stólinn frá Ferm Living og svarta Eames-stólinn. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríður Ágústa hefur unnið mörg skemmtileg verkefni upp á síðkastið og má þar nefna föt fyrir söngkonuna Bríeti. Hún er nýkomin með nýja vinnustofu sem hefur breytt miklu fyrir heimilið. „Nýverið flutti ég vinnustofuna út af heimilinu en…

Sigríður Ágústa hefur unnið mörg skemmtileg verkefni upp á síðkastið og má þar nefna föt fyrir söngkonuna Bríeti. Hún er nýkomin með nýja vinnustofu sem hefur breytt miklu fyrir heimilið.

„Nýverið flutti ég vinnustofuna út af heimilinu en síðastliðin þrjú ár hef ég verið með vinnuaðstöðuna í litlu herbergi hér heima. Skilin milli vinnu og heimilis eru því nú orðin skýrari og við þessar breytingar fékk dóttir okkar loksins herbergi,“ segir Sigríður Ágústa.

Hvernig er stíllinn á þínu heimili?

„Grunnurinn er látlaus og nokkuð stílhreinn og við poppum hann svo upp með litum. Ég er mjög hrifin af því að blanda saman ólíkum formum og mismunandi efnivið.“

Sigríður Ágústa segir heimilið ekki undir neinum sérstökum áhrifum. „Það er hvorki mínímalískt né ofurlitríkt. Hér má hoppa í sófum og leika með dót frammi í stofu, en það má líka hafa fínt.“

Endurspeglast fatahönnun þín á einhvern hátt í því hvernig heimilið lítur út?

„Já, ég held að ég fái að einhverju leyti útrás fyrir sköpunarkraftinn inni á heimilinu. Ekki svo ólík listform, efniviðurinn er annar og á öðrum skala, en í grunninn er ég oft að vinna með það að blanda saman ólíkum heimum og hér heima mætast bæði nýtt og klassískt í bland við eldra með smá sál og hér heima finnst mér gaman að para saman ólík form.“

Færð þú að ráða öllu eða er þetta samvinna allra á heimilinu?

„Ég fæ ekki að ráða öllu en ég held ég ráði nú flestu. Hjalti minn vinnur annan hvern mánuð í burtu og stundum þegar hann kemur heim er ég búin að breyta einhverju, hann kippir sér ekki mikið upp við það, þessi elska, enda orðinn vanur. En flestar stórar ákvarðanir tengdar heimilinu tökum við í sameiningu. Unglingurinn fær svo mikið frelsi í sínu herbergi.“

Stóllinn frá ömmu í uppáhaldi

Hvar líður þér best á heimilinu og af hverju?

„Ætli það sé ekki bara við borðstofuborðið. Þar hafa skapast margar góðar minningar, hvort sem það er notað sem vinnuborð, undir kaffiboð, heimalærdóm, föndur, matarboð fyrir stórfjölskylduna eða bara fyrir okkur fjögur.“

Áttu uppáhaldshlut?

„Græni stóllinn sem Guðrún amma mín átti er í miklu uppáhaldi. Bæði finnst mér liturinn svo fallegur, á óskalistanum er sófi í sama lit, og svo minnir hann mig á góðar stundir sem við áttum saman.“

Hvað með listaverk, heldur þú sérstaklega upp á eitthvert verk á heimilinu?

„Myndir sem Ægir sonur okkar málar eru í mestu uppáhaldi. Svo á ég plakat af verki eftir Louise Bourgeois sem ég held mikið upp á, en ég er víst ein um það á heimilinu að finnast það flott.“

Kaupir þú notað eða nýtt?

„Við höfum gaman af því að blanda saman gömlu og nýju. Ég er mjög hrifin af hlutum með smá sál.“

Hvað er það síðasta sem þú gerðir á heimilinu?

„Ég er frekar dugleg að breyta, þá aðallega að færa til myndir eða rótera húsgögnum. Það síðasta sem við gerðum var sennilega að mála stofuna og ganginn.“

Er eitthvað á óskalistanum fyrir heimilið?

„Grænn sófi er efst á óskalistanum.“

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir |