Tvenna Færeyringurinn Klæmint Olsen skoraði tvö fyrstu mörk Breiðabliks í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í Tel Avív í gærkvöldi.
Tvenna Færeyringurinn Klæmint Olsen skoraði tvö fyrstu mörk Breiðabliks í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í Tel Avív í gærkvöldi. — Ljósmynd/Maccavi Tel Aviv
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðablik bauð upp á hetjulega frammistöðu er liðið mátti þola 2:3-tap á útivelli gegn sterku liði Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í gærkvöldi

Sambandsdeildin

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Breiðablik bauð upp á hetjulega frammistöðu er liðið mátti þola 2:3-tap á útivelli gegn sterku liði Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í gærkvöldi.

Var leikurinn sá fyrsti hjá íslensku karlaliði í riðlakeppni í Evrópukeppni og voru eflaust margir farnir að óttast slæma útreið fyrir Breiðablik þegar staðan var orðin 3:0 fyrir Maccabi eftir 32 mínútur.

Þrátt fyrir þá stöðu var frammistaða Breiðabliks ekki alslæm fyrsta hálftímann. Blikar áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir og heimamenn fengu ekki mörg færi. Maccabi skoraði hins vegar nánast í hvert skipti sem liðið sótti fyrsta hálftímann og nýtti færin sín býsna vel. Þegar þú ert kominn í riðlakeppnina er þér refsað fyrir nánast öll mistök.

Það hefði verið auðvelt fyrir Breiðablik að leggja árar í bát í stöðunni 0:3 á erfiðum útivelli, en leikmenn eiga gríðarlegt hrós skilið fyrir að gefast ekki upp.

Þess í stað tókst liðinu að minnka muninn í 3:1 með marki frá Klæmint Olsen á 44. mínútu, þegar hann rak endahnútinn á glæsilega sókn og sendingu frá Jasoni Daða Svanþórssyni, og opna þannig leikinn fyrir seinni hálfleikinn.

Færeyingurinn gerði stuðningsmenn Maccabi síðan stressaða með því að minnka muninn í 3:2 á 55. mínútu með skalla eftir hornspyrnu frá Höskuldi Gunnlaugssyni. Því miður náðu heimamenn áttum eftir það, spiluðu skynsamlega það sem eftir lifði leiks og fékk Breiðablik ekki annað opið færi.

Klæmint kláraði færin sín vel og var besti leikmaður Breiðabliks í gær en aðrir leikmenn heilluðu einnig. Gísli Eyjólfsson var mjög líflegur og reyndist Ísraelsmönnunum erfiður. Jason Daði átti góða spretti og Höskuldur stendur ávallt fyrir sínu. Þá varð Anton Logi Lúðvíksson betri eftir því sem leið á leikinn.

Leikurinn gefur góð fyrirheit fyrir Breiðablik í komandi verkefni í keppninni. Þegar Blikar spila vel, eru þeim allir vegir færir. Nú er mesti skrekkurinn farinn úr liðinu og ætti leikurinn í gær að gefa leikmönnum aukna trú á að þeir geti látið finna fyrir sér í riðlinum.

Næst er það Zorya Luhansk frá Úkraínu á Laugardalsvelli 5. október. Zorya gerði jafntefli við Gent frá Belgíu á heimavelli í gær, sem eru fín úrslit fyrir Breiðablik. Sagan er rétt að byrja hjá Blikum.