Mjólkurferð Kann vel við þann rólega takt sem einkennir lífið í sveitunum, segir Friðrik Kjartansson.
Mjólkurferð Kann vel við þann rólega takt sem einkennir lífið í sveitunum, segir Friðrik Kjartansson. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Mér líkar vel við bændur og kann vel við þann rólega takt sem einkennir lífið í sveitunum. Upphaflega ætlaði ég mér aðeins að vera eitt ár í þessu starfi, en svo teygðist úr og nú hillir undir starfslokin,“ segir Friðrik Kjartansson mjólkurbílstjóri. Austur á landi er hann búaliði og fleirum vel kunnugur og er aufúsugestur á bæjum. Á vordögum á því herrans ári 1979 hóf hann störf sem bílstjóri hjá Kaupfélagi Héraðsbúa sem þá rak mjólkurbúið á Egilsstöðum. Nú er sú starfsemi á vegum Mjólkursamsölunnar og áfram er Friðrik á ferðinni.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Mér líkar vel við bændur og kann vel við þann rólega takt sem einkennir lífið í sveitunum. Upphaflega ætlaði ég mér aðeins að vera eitt ár í þessu starfi, en svo teygðist úr og nú hillir undir starfslokin,“ segir Friðrik Kjartansson mjólkurbílstjóri. Austur á landi er hann búaliði og fleirum vel kunnugur og er aufúsugestur á bæjum. Á vordögum á því herrans ári 1979 hóf hann störf sem bílstjóri hjá Kaupfélagi Héraðsbúa sem þá rak mjólkurbúið á Egilsstöðum. Nú er sú starfsemi á vegum Mjólkursamsölunnar og áfram er Friðrik á ferðinni.

Þrír öxlar og átta dekk

Í ferðum sínum austur á landi er Friðrik á stórum Scania-vörubíl árgerð 2017, 28 tonna bíl á þremur öxlum og átta dekkjum.

„Í slarkið hér fyrir austan þarf öflugan og stóran bíl. Þar dugar Scania vel, til dæmis á veturna þegar farið er um öræfi, heiðar og fjöll. Í Vopnafirði eru tveir mjólkurinnleggjendur og einn í Seyðisfirði og á þessa staði er farið tvisvar í viku. Og yfirleitt kemst maður þetta þótt færð geti verið rysjótt. Vegagerðin hleypir mér stundum í gegn þótt vegir séu lokaðir annarri umferð, eins og nauðsynlegt er. Erlendir ferðamenn á smábílum eiga ekkert erindi á íslenska fjallvegi um hávetur.“

Barnabörn tekin við

Friðrik sækir mjólk á bæi alveg frá Vopnafirði suður í Berufjörð. Þetta er víðfeðmt svæði og daglegur akstur getur verið um 300 kílómetrar. Mjólkurinnleggjendum hefur hins vegar fækkað.

„Breytingarnar á þessum 44 árum í starfinu eru miklar. Þegar ég byrjaði var sótt mjólk á rúmlega 50 bæi á Fljótsdalshéraði en í dag eru þeir 11. Flest litlu búin hafa lagst af, því ekki var grundvöllur fyrir áframhaldandi búskap þar. Á öðrum bæjum hefur verið bætt í og nýjar kynslóðir tekið við. Eldra fólk sem var í búskap þegar ég byrjaði sem mjólkurbílstjóri er flest horfið af sviðinu og jafnvel barnabörnin komin þess í stað. Að fylgjast með þessari þróun og kynslóðaskiptum er áhugavert og mér finnst dýrmætt að eiga vináttu þessa fólks. Stundum gefst tími í spjall í mjólkurhúsinu eða við eldhúsborðið, enda þótt fylgja þurfi stífri áætlun svo dagurinn gangi upp,“ segir Friðrik, sem var í Seyðisfirði þegar Morgunblaðið hitti hann dögunum. Síðan þá hefur sitthvað gengið á fyrir austan, svo sem rigningar með skriðuhættu svo flýta þarf mjólkurferðum á firði.

Sveitin alltaf nálæg

„Ég hef hugsað mér að vera tvö ár enn í starfi; hætta 67 ára. Þetta fer að verða gott,“ segir Friðrik, sem býr með fjölskyldu sinni á Hallormsstað. Kveðst utan vinnunnar eiga sér skemmtilegt líf, svo sem í hestamennsku og að halda nokkrar kindur. Sveitin og menning hennar sé alltaf nálæg.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson