Þórarinn Páll Bech fæddist í Reykjavík 21. júlí 1948. Hann lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 14. september 2023.

Foreldrar hans voru Halldór Bech flugstjóri, f. 9.7. 1921, d. 10.9. 1994, og Lára Bech verkakona og húsmóðir, f. 26.3. 1924, d. 20.3. 2005.

Systir Þórarins er Guðný Bech, f. 2.4. 1950. Börn Guðnýjar eru: Anna R. Ingvarsdóttir, f. 19.6. 1970,
eiginmaður hennar er
Pétur V. Reynisson og eiga þau þrjú börn, Ingvar, Lilju og Baldur; Halldór Rune Beck, f. 18.9. 1979, eiginkona hans er Auður Jónsdóttir og eiga þau einn son, Tryggva; Lára Björg Grétarsdóttir, f. 7.9. 1988, eiginmaður hennar er Hafsteinn Hjartarson og eiga þau þrjú börn, Grétar, Eriku og Eldar.

Þórarinn bjó alla tíð í Reykjavík. Hann var prentari að mennt og vann við þá iðju stærsta hluta ævinnar, fyrst í Prentsmiðjunni Gutenberg og síðar í Múlalundi, en þar starfaði hann fram að starfslokum 67 ára.

Útför Þórarins fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 22. september 2023, klukkan 13.

Tóti frændi minn hefur alltaf átt stóran part í mínu lífi. Þau mamma voru mjög náin systkini og þar sem Tóti eignaðist aldrei eigin fjölskyldu varð hann mikilvægur í lífi okkar systkina. Hann var mikið á okkar heimili og við vorum saman á hátíðum og í fríum þegar ég var barn. Tóti bjó einnig hjá okkur um tíma, þá sáum við um uppvaskið eftir matinn og ég man eftir að við vorum oft að „rífast“ um það hver ætti að gera hvað, vaska upp eða þurrka, því báðum þótti leiðinlegt að þurrka. En að sjálfsögðu fékk ég vilja mínum framgengt enda er Tóti mesta góðmenni og ljúflingur sem ég hef kynnst. Þessar stundir við uppvaskið voru skemmtilegar, þá var mikið talað og hlegið. Sem barn gat ég alltaf platað hann í hvað sem var; kaupa dót, gefa mér pening eða láta hann skutla mér eitthvað þegar ég var orðin unglingur.

Þó að Tóti hafi verið feiminn og frekar hlédrægur var hann vinmargur og var í ýmsum spilaklúbbum, hann spilaði bridge og var mikill skákmaður. Hann var mjög góður á því sviði og vann til margra verðlauna. Hann var einnig forfallinn fótboltaáhugamaður og KR-ingur í húð og hár, fór á völlinn með KR-trefill og studdi sína menn. Horfði hann líka mikið á fótbolta í sjónvarpinu, hann hélt með Liverpool og ekki var skemmtilegt að heimsækja hann þegar mikilvægur leikur var í sjónvarpinu því þá átti boltinn hug hans allan. Það var dásamlegt að hann hafði þessa iðju því þegar hann var orðinn mjög veikur gat hann í það minnsta unað sér við að horfa á boltann.

Tóti var alltaf mjög áhugasamur um líf okkar systkina og barna okkar, spurði ávallt hvernig öllum vegnaði og var rausnarlegur í gjöfum á afmælum og þegar stórum áföngum var lokið.

Hann hafði áhuga á þjóðmálum og var vel inni í öllum heimsmálum og hafði sterkar skoðanir og fannst gaman að ræða þær en gat þó verið ansi fastur á skoðunum sínum og þá gátu umræðurnar orðið heitar.

Í seinni tíð, eftir að pabbi hans lést, bjó hann hjá móður sinni og annaðist hana þar til hún lést 2005. Nokkrum árum eftir það flutti hann svo til systur sinnar, móður minnar, og studdi hana í hennar veikindum þar til hún fór á hjúkrunarheimili enda voru þau alltaf mjög náin systkini.

Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir í lífi Tóta, verið mikið á spítala vegna veikinda sinna.

Hann var svo heppinn að eiga góðan vin og frænda í gegnum súrt og sætt á lífsleiðinni. Þeir hafa þekkst alla ævi. Tóti og Ragnar Már frændi voru einstakir vinir og hafa brallað ýmislegt í gegnum tíðina, þeir voru eins og bræður, voru svo heppnir að eiga hvor annan að. Ragnar var Tóta ómetanlegur stuðningur í veikindum hans og verðum við fjölskyldan honum ævinlega þakklát.

Elsku Tóti, það er sárt að missa góðan frænda en minningarnar lifa og ég veit að hann hefur það gott í sumarlandinu góða.

Þín frænka,

Anna Ragnheiður.

Elsku Tóti minn. Nú ertu farinn frá okkur eftir erfiðu veikindin sem hafa hrjáð þig undanfarin ár, þá sérstaklega síðastliðna mánuði. Þú sýndir mikinn styrk og hugrekki á þessum erfiðu tímum sem og baráttuvilja. Þrátt fyrir erfiðleikana tókstu á veikindunum af miklu æðruleysi. Langt gat liðið á milli skipta sem við hittumst undanfarin ár eftir að ég flutti í burtu, en alltaf var jafn gaman að hitta þig, þú varst alltaf með á hreinu hvað krakkarnir voru að bardúsa og hafðir alltaf mikinn áhuga á að fylgjast með Grétari stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki í körfubolta. Þegar ég hugsa til baka um æskuárin mín rifjast upp fyrir mér minningar og þú átt hlut í svo mörgum af þeim. Ég á þér margt að þakka. Þú kenndir mér meðal annars að tefla, veiða og spila. Þú varst alltaf svo þolinmóður, sérstaklega í spilunum og skákinni, meira að segja þegar ég reyndi að svindla eða breyta leikreglunum, þá sast þú á móti mér og hlóst bara að vitleysunni í mér. Mér fannst svo gaman að skoða bækurnar þínar, pípustandinn og ég lék mér að því að raða á mig eins mörgum verðlaunapeningum og ég gat um hálsinn, þú áttir jú ansi marga verðlaunagripi eftir gott gengi í bridge og skák. Það var svo gott að kúra í fanginu þínu í stólnum hans afa, enn betra að læðast að þér og kitla þig, því að viðbrögðin þín voru svo mikil og skemmtileg. Ég hafði unun af því að fara á rúntinn með mömmu, ömmu og þér, þar sem þú keyrðir stundum á fjallavegum og gerðir þær alveg vitlausar af hræðslu, á meðan flissuðum við að þeim. Stundum fórum við á KR-völlinn eða landsleiki í fótbolta, þá þóttist ég hafa mikinn áhuga því mér fannst svo gaman að fá að fara með. Á unglingsárunum var alltaf hægt að fá þig til að skutlast út um allan bæ og yfirleitt þurfti ekki mikið að suða til að þú gæfir líka pening. Þú varst líka bara þannig, rausnarlegur og gjafmildur alla tíð og gerðir vel við fólkið í kringum þig. Þú varst svo mörgum góðum eiginleikum gæddur, hafðir gott hjartalag, svo ljúfur, skemmtilegur og fyndinn. Þrátt fyrir að vera fremur hlédrægur þá var alltaf svo mikið að gera hjá þér í félagslífinu og þú laðaðir að þér fólk úr öllum áttum. Það var yndislegt að fylgjast með einstöku vinasambandi ykkar Ragga frænda, þið voruð heppnir hvor með annan. Stundum þegar maður hitti ykkur saman var eins og maður væri staddur á uppistandi, þið sögðuð saman svo skemmtilega frá, alltaf gleði og húmor. Takk fyrir að vera besti frændi sem hægt er að hugsa sér, takk fyrir allt.

Þín

Lára frænka.