Það breytti stemningunni í húsinu þegar veggurinn milli eldhúss og sjónvarpsstofu var tekinn niður.
Það breytti stemningunni í húsinu þegar veggurinn milli eldhúss og sjónvarpsstofu var tekinn niður. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingibjörg segir að virkilega hafi verið vandað til verka þegar húsið var byggt. Arkitektarnir hönnuðu húsið frá a til ö, allt frá innréttingum og lýsingu yfir í litaval

Ingibjörg segir að virkilega hafi verið vandað til verka þegar húsið var byggt. Arkitektarnir hönnuðu húsið frá a til ö, allt frá innréttingum og lýsingu yfir í litaval. Garðinn hannaði síðan landslagsarkitektinn Reynir Vilhjálmsson. „Steyptir burðarveggir eru með málaðri sjónsteypu, allir milliveggir með láréttum lútuðum furupanel og útveggir sléttir og málaðir hvítir. Þegar við keyptum var mjög mikill viður í húsinu en við höfum minnkað hann, sem gaf húsinu léttara yfirbragð. Við bættum líka við rennihurð úr eldhúsinu út á sólpallinn,“ segir Ingibjörg um húsið.

Heildstæð hönnunin og þessi litlu smáatriði voru meðal þess sem heillaði hjónin þegar þau keyptu húsið af upprunalegum eigendum fyrir tæpum 20 árum. „Við féllum fyrir húsinu þegar við skoðuðum það. Ég vildi hús með útsýni og maðurinn minn vildi fá arin og þetta hús hafði bæði arin og útsýni,“ segir Ingibjörg.

Er eitthvað sem þér þykir sérstaklega vænt um í húsinu?

„Ég er mjög hrifin af stíl hússins. Það með skandínavískum blæ og er bæði nútímalegt og klassískt. Þetta er stíll sem dettur inn og út úr tísku og var ekki beint í tísku þegar vinsælt var að hafa allt hvítt fyrir nokkrum árum. Það er mjög notalegt að hafa viðarklædda veggi og skemmtilegt á móti grófri steypunni. Húsið er málað í hlýjum litum og voru litirnir ákveðnir af arkitektunum. Loftið í stofunum er í mosagrænum lit og innihurðir í sterkum gulum lit. Við höfum haldið okkur við upprunalega liti nema við máluðum tvo útveggi í hlýjum dökkum lit.“

Gaman að horfa yfir Reykjavík úr eldhúsinu

Gamla eldhúsinnréttingin, sem var sérsmíðuð úr gegnheilum aski, var góð en var þó sums staðar farin að láta á sjá eftir 40 ára notkun. „Við vildum gjarnan halda henni og spáðum mikið í hvernig hægt væri að gera hana upp. Á endanum ákváðum við að skipta um innréttingu líka með það í huga að fá ýmis þægindi sem eru í nýjum innréttingum,“ segir Ingibjörg.

„Við vorum búin að fara fram og til baka með valið á innréttingunni og spáðum í hvað passaði inn í húsið. Það komst svo hreyfing á hlutina þegar Edda Sif Guðbrandsdóttir, innanhússráðgjafi hjá Stúdíó Brandi, kom hingað og gaf okkur ýmsar hugmyndir. Hún kom með þá hugmynd að taka niður vegginn á milli eldhúss og sjónvarpsherbergis sem okkur fannst þá ekki koma til greina. En hugmyndin var komin í undirmeðvitundina og svo var það eitt kvöldið að ég fór á TikTok að skoða innréttingar og sá þar myndir hjá Houselovelife af breytingum á þýsku húsi og var húsið svolítið líkt okkar húsi. Þar hafði eldhúsið verið opnað og valin innrétting í sama stíl og sú sem við völdum. Þá sannfærðist ég um að taka niður vegginn. Maðurinn minn var fyrst ekki sannfærður en samþykkti svo að taka vegginn.“

Þegar kom að því að velja innréttingu varð tvískipt innrétting frá HTH fyrir valinu. Þau ákváðu að halda sama skipulagi og á gömlu innréttingunni sem þeim fannst hafa virkað mjög vel.

„Í neðri skápunum er gegnheil eik með svörtum listum og í veggskápunum er svört eik. Eikin í innréttingunni er áþekk litnum á viðnum í gömlu innréttingunni. Það var gott að hafa Eddu með til ráðgjafar við valið og Klara Guðmundsdóttir hjá HTH veitti okkur frábæra þjónustu. Við erum mjög ánægð með innréttinguna og það er mikill munur að hafa útdraganlegar skúffur í stað skápa, vera með þægilegan búrskáp, tækjaskáp og flokkunarkerfi fyrir rusl.“

Hvað varð um gömlu innréttinguna?

„Við vildum helst að gamla innréttingin yrði gerð upp og fengi framhaldslíf á góðum stað svo ég auglýsti hana á Bland. Úr varð að við gáfum hana í hús eftir Högnu Sigurðardóttur. Sonur vinkonu minnar var að taka húsið í gegn og færa í upprunalegan stíl og innréttingin passaði vel þangað inn. Það er mjög góð tilfinning að vita af henni í Högnuhúsi.“

Hjónin eru hæstánægð með breytingarnar á eldhúsinu og sérstaklega þá ákvörðun að hafa opnað á milli eldhúss og sjónvarpsstofu. „Við erum bæði alsæl með að hafa tekið niður vegginn og opnað eldhúsið. Það er gaman að geta horft yfir Reykjavík úr eldhúsinu, geta fylgst með sjónvarpinu og vera í samskiptum á milli rýmanna. Framkvæmdirnar kláruðust í vor og við sáum fljótt hversu gaman er að taka á móti gestum í nýja eldhúsinu.“

Frístandandi baðkar setur svip á baðherbergið

Það hefur verið nóg að gera hjá hjónunum en nýlega tóku þau í gegn baðherbergi í húsinu sem var orðið óumflýjanlegt að gera. „Upprunalegt baðherbergi var með mikinn karakter. Á baðinu var stór og flott handlaug á fæti, veggir að hluta viðarklæddir í bland við fallegar flísar. Það var með upphengdu klósetti með innbyggðum klósettkassa sem hefur verið nokkuð framúrstefnulegt árið 1980.

Við héldum sama skipulagi og hafði verið. Flísarnar á veggnum eru með sama lagi og þær gömlu og borðplatan er úr bambus með viðaráferð sem gefur hlýleika sem gömlu viðarveggirnir veittu. Blöndunartækin eru svört Vola-tæki en upprunalega voru hvít Vola-tæki á baðinu. Okkur langaði að hafa stóru handlaugina áfram en því miður brotnaði fóturinn í framkvæmdunum. Við völdum frístandandi baðkar og létum setja góðan sturtuhaus á vegginn og notum baðkarið sem sturtubotn. Annars erum við líka með útisturtu sem ég nota flesta morgna.“

Eru þið búin í framkvæmdum í bili?

„Við byrjuðum að taka baðherbergið í gegn og vorum í ár að klára það og þurftum að taka okkur góða pásu á eftir. Eldhúsið var gert á þessu ári og núna erum við að njóta þess að vera búin með það. Það er orðið brýnt að endurnýja fataskápana og svo er ég með augastað á flottum rennihurðum úr röstuðu gleri frá HTH sem mig langar að setja fyrir þvottahúsið.“

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir |