Leiði Guðmundur Kamban hvílir í Fossvogskirkjugarði.
Leiði Guðmundur Kamban hvílir í Fossvogskirkjugarði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is Sveinn Einarsson fyrrverandi þjóðleikhússtjóri segir að almennt sé talið að ýmsir stjórnmálamenn í Danmörku hafi samið um að fella niður mál sem tengdust síðari heimsstyrjöldinni og kalla mætti óþægileg. Eins og framgöngu manna úr andspyrnuhreyfingunni dönsku þegar stríðinu var lokið.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Sveinn Einarsson fyrrverandi þjóðleikhússtjóri segir að almennt sé talið að ýmsir stjórnmálamenn í Danmörku hafi samið um að fella niður mál sem tengdust síðari heimsstyrjöldinni og kalla mætti óþægileg. Eins og framgöngu manna úr andspyrnuhreyfingunni dönsku þegar stríðinu var lokið.

Sveinn ritaði bók um líf og störf rithöfundarins Guðmundar Kambans sem myrtur var í Danmörku árið 1945 af andspyrnuhreyfingunni og kom bókin út árið 2013. Í Morgunblaðinu í gær var greint frá nafni banamanns Guðmundar en sá hét Egon Alfred Højland og var meðlimur í andspyrnuhópnum Ringen, hann varð síðar þingmaður.

Frá árinu 1996 hefur atburðarásin þegar Guðmundi var ráðinn bani legið nokkurn veginn fyrir vegna skrifa Ásgeirs Guðmundssonar sagnfræðings, en leynd hafði hvílt yfir skjölum þar sem nafn banamannsins var að finna. Ásgeir gaf út bókina Berlínarblús árið 1996.

Erfið mál fyrir Dani

„Hafi ég fengið réttar upplýsingar á sínum tíma þá virðist hafa verið samið um að það sem fyrr hafði gerst á stríðsárunum væri látið kyrrt liggja og hafi ýmsir stjórnmálamenn tekið þátt í því. Ungir Danir höfðu til að mynda verið hvattir til að fara með Þjóðverjum í stríð við Rússa. Einnig hafði neðanjarðarhreyfingin, eða einstaklingar tengdir henni, gerst sek um ansi mörg afbrot og tók menn af lífi án dóms og laga. Eftir stríð urðu þetta vitaskuld erfið mál. Almennt er álitið að gert hafi verið samkomulag um að fella niður þessa tvo málaflokka og láta við það sitja,“ segir Sveinn sem tekur skýrt fram að hann geti þó ekki fullyrt að málin hafi verið látin niður falla með þessum hætti enda langt um liðið.

Sveinn vann mikla rannsóknarvinnu vegna bókarinnar. Fór víða og las fjöldann allan af bókum og skjölum.

Sveinn bendir á að í stríðslok hafi hasarinn verið mikill og allt á öðrum endanum í Kaupmannahöfn, ef þannig má að orði komast. Spurður um hvort honum finnist að Íslendingar eigi að taka málið upp við Dani segist Sveinn ekki geta lagt mat á það en hann hafi verið svolítið undrandi á að ekki hefðu verið gerðar fleiri tilraunir til þess í kringum 1950.

„Þá voru flest þessi mál gerð upp á einhvern hátt. Þá dró úr hasarnum og voru þá margir náðaðir sem dæmi,“ segir Sveinn. Þótt Íslendingum hafi ekkert orðið ágengt að fá afsökunarbeiðni vegna drápsins héldu margir nafni hans á loft. „Útför Kambans fór hins vegar fram á kostnað íslenska ríkisins og Rithöfundasambandið hefur alla tíð haft nafni Kambans í heiðri. Gísli Jónsson bróðir hans reyndi að halda málinu gangandi en einhverra hluta vegna bar það ekki árangur.“

Ljóð birt í Fróni

Við vinnslu bókarinnar varð Sveinn var við ýmsar sögur um Guðmund Kamban og tengslin við Þjóðverja. Þær hafi hins vegar verið slúðurkenndar og því ekki ratað í bókina. Sé mið tekið af þeim svörum sem Sveinn fékk frá safni um dönsku andspyrnuhreyfinguna bendir fátt til þess að Guðmundur hafi verið ofarlega á blaði hjá hreyfingunni.

„Ég fór víða og talaði við marga. Meðal annars fór ég á Frihedsmuseet [safn um dönsku andspyrnuna í síðari heimsstyrjöldinni] og bað þá um að leita dyrum og dyngjum að öllu sem hægti væri að finna varðandi Kamban. Ég fékk þau svör að þar væri ekkert að finna. Kamban virðist ekki hafa verið á lista yfir þá sem átti að yfirheyra og þegar farið var heim til hans virðist það ekki hafa verið í samræmi við fyrirmæli yfirmanna. Hann var ekki í dansk-þýska félaginu og var ekki einn þeirra sem þáðu þessa frægu Lübeck-viku en þar voru menn sem voru hlynntir Þjóðverjum á þessum tíma. Ég fékk einnig þau svör að hann hefði ekki skrifað í blöð sem voru hlynnt nasistum. Kamban átti vini í hópi nasista en það átti við um marga,“ segir Sveinn en tekur fram að í slíkri rannsóknarvinnu geti mönnum mögulega yfirsést eitthvað.

Sveinn nefnir annað athyglisvert dæmi sem segja má að renni stoðum undir að Guðmundur Kamban hafi ekki legið undir grun í Kaupmannahöfn um að vera nasisti.

„Það síðasta sem birtist eftir hann eftir því sem ég best veit var í tímariti sem Íslendingar gáfu út í Kaupmannahöfn á stríðsárunum og hét Frón. Þar héldu um stýrið Jón Helgason og Jakob Benediktsson. Ég veit ekki hversu mikið Jón hafði af neðanjarðarhreyfingunni að segja en mér er hermt að Jakob hafi ekki einungis verið meðlimur heldur hafi einnig geymt skjöl fyrir neðanjarðarhreyfinguna. Ég hef fulla ástæðu til að trúa því að þetta sé rétt en nasista grunaði ekki Jakob sem erlendan vísindamann. Í tímaritinu Fróni birtist ljóð eftir Guðmund Kamban sem lýsir aftöku síðasta íslenska skáldsins áður en hann sjálfur varð fórnarlamb morðingja en það er morðið á Snorra Sturlusyni. Mér þykir heldur ólíklegt að Jón og Jakob hefðu tekið þetta ljóð til birtingar hefði þeim verið í nöp við Guðmund,“ segir Sveinn Einarsson en áhugasamir lesendur geta lesið meira um Kamban í bókinni Kamban, líf hans og starf.

Umfjöllunin til góðs

„Mér finnst umfjöllunin góð og finnst hún vera í samræmi við þá skoðun sem ég hafði myndað mér sjálfur á atburðarásinni. Það sem vekur athygli er að menn hafi sloppið frá voðaverkum sem voru gerð á sigurdeginum en kannski voru forsendur til að refsa mönnum fyrir þær ógnir sem Danir bjuggu við í stríðinu. Margt var eflaust innan marka sem hægt væri að réttlæta nema drápið á Kamban sem er ófyrirgefanlegt og hryllilegur atburður í alla staði,“ segir Bjarni Harðarson sem hefur endurútgefið verk Guðmundar Kambans.

Bjarni segir að grunsemdir um tengsl við nasista hafi fylgt nafni Kambans og það sé fyrst og fremst vegna örlaga hans.

„Það hefur alltaf hvílt eins og skuggi yfir Kamban, og hans verkum, þessi grunsemd um að hann hafi verið nasisti. Það er þessi byssukúla sem varpar þessari grunsemd á hann en ekki neitt í starfi hans eða skrifum. Hann var bara borgaralegur krati í skoðunum og það er ósanngjarnt að hann hafi fengið merkimiðann nasisti eftir að hann fékk þessa óverðskulduðu refsingu. Ég held að það sé hins vegar alveg rétt sem kemur fram hjá Guðmundi Magnússyni að í því fólst óvarkárni hjá Kamban að eiga yfir höfuð samskipti við innrásarliðið í Danmörku. Hann vann ákveðin verk fyrir innrásarliðið sem höfðu ekki hernaðarlega eða pólitíska þýðingu en voru verk engu að síður. Hann sótti laun fyrir þau og það kom óorði á hann. Dönsku samfélagi var algerlega stjórnað af Þjóðverjum á þessum tíma og ef ráðist hefði verið á alla sem áttu samskipti við Þjóðverjana þá hefðu fáir orðið eftir í Danmörku. Þetta voru bara ömurlegir tímar og ömurlegri en við sem höfum bara lifað nokkuð góða tíma getum með nokkru móti sett okkur inn í.“

Bjarni er þeirrar skoðunar að umfjöllun um málið geti orðið til þess að mannorð Kambans muni fá á sig annan blæ en verið hefur.

„Mér finnst þetta vera ákveðin uppreist æru að fá þessa umfjöllun núna en það verður engum lögum yfir menn komið úr þessu. Banamaður Kambans er löngu dáinn og þetta eru löngu liðnir atburðir en umfjöllun er af hinu góða. Umfjöllun mun frekar en hitt leiða sannleikann í ljós og hann virðist vera sá að Kamban sé algerlega saklaus þegar andspyrnumennirnir koma til hans fyrir múgsefjun þessa dags. Þar braust fram hefndin og reiðin fyrir illvirki Þjóðverja. Það væri óskandi ef þetta mál gæti kennt okkur að draga úr dómhörku því dómharkan er vaxandi löstur í nútímasamfélagi. Á dögum þegar dómstóll götunnar er frekar sterkur, og hann hefur verið óvæginn í þessu máli eins og mörgum öðrum.“

Viðbrögð ættingja Guðmundar Kambans

„Þetta var bara aftaka“

„Ég tek undir með honum [Guðmundi Magnússyni sem skrifaði greinina í Morgunblaðið í gær] að mér finnst það skrítið að banamaður ömmubróður míns hafi aldrei þurft svara fyrir það sem hann gerði,“ sagði Helga Vala Helgadóttir við mbl.is í gær.

Helga Vala bætir því við að auðvitað sé Højland látinn í dag en það breyti því ekki að viðurkenning á því að Kamban hafi verið veginn saklaus skipti máli.

„Dönsk stjórnvöld sýndu ástandinu skilning með því að greiða ekkju Kambans lífeyri út ævina. Þetta gerist auðvitað áður en ég fæðist, en ég heyrði frá mömmu hvernig áhrif þetta hafði á mömmu hennar, sem var systir Guðmundar. Þau voru mjög náin og þetta var þeim öllum gríðarlega þungbært,“ segir Helga Vala og bætir við: „Þetta var bara aftaka. Þetta var svo ofboðslegur verknaður.“

Helga Vala segir fjölskylduna vera að lesa og meðtaka upplýsingarnar. „Ég held það væri ekkert úr vegi að klára málið og ræða við dönsk stjórnvöld um að fá formlega afsökunarbeiðni.“

Hún segir fjölskylduna ekki munu aðhafast neitt fyrr en búið sé að ræða málið við afkomendur Guðmundar Kambans. sonja@mbl.is