Sýningarstjórar Kristján Steingrímsson og Æsa Sigurjónsdóttir völdu 70 listaverk úr safneign Háskóla Íslands.
Sýningarstjórar Kristján Steingrímsson og Æsa Sigurjónsdóttir völdu 70 listaverk úr safneign Háskóla Íslands. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við héldum Listmílu 1 fyrir nokkrum árum en hún lenti í covid-lokunum svo margir misstu af henni. Okkur fannst því mikilvægt að setja upp aðra sýningu núna sem kallast Listmíla 2 og titillinn vísar sem fyrr til þess að ef maður gengur í…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Við héldum Listmílu 1 fyrir nokkrum árum en hún lenti í covid-lokunum svo margir misstu af henni. Okkur fannst því mikilvægt að setja upp aðra sýningu núna sem kallast Listmíla 2 og titillinn vísar sem fyrr til þess að ef maður gengur í gegnum alla sýninguna sem er í fimm byggingum háskólans er þetta um það bil míla [1,6 km] sem maður hefur gengið,“ segir Æsa Sigurjónsdóttir, dósent í listfræði við HÍ, sem ásamt Kristjáni Steingrímssyni, forstöðumanni Listasafns Íslands, er sýningarstjóri listsýningarinnar sem verður opnuð í Háskóla Íslands í dag.

„Hugmyndin er að sýningargestir kynnist ekki bara verkunum heldur einnig háskólabyggingunum fimm, sem eru mjög fjölbreyttar, teiknaðar af ólíkum arkitektum frá ýmsum tímabilum.“

Stór verk og dulúðug

Alls eru til sýnis 70 listaverk eftir 46 listamenn á Listmílu 2 en það mun vera aðeins brot af safneign listasafnsins sem var stofnað árið 1980 með stórri listaverkagjöf Ingibjargar Guðmundsdóttur (1911-1994) og Sverris Sigurðssonar (1909-2002).

Listasafnið er viðurkennt safn og starfar eftir safnalögum ríkisins.

„Háskólinn á eitthvað um 1.800 verk en við erum auðvitað ekki með allt safnið til sýnis í einu. Þar af eru 1.400-1.500 listaverk eftir Þorvald Skúlason, og töluverður hluti af því eru teikningar og skissur,“ segir Æsa og tekur fram að á sýningunni núna sé lögð áhersla á verk sem ekki hafa komið fyrir sjónir almennings lengi.

„Portrett og sjálfsmyndir Þorvaldar Skúlasonar, sem eru ekki fyrirferðarmiklar í hans höfundarverki enda fyrst og fremst abstraktmálari eins og við gerðum góð skil á Listmílu 1. Við erum líka að sýna eldri verk eftir Hákon Pálsson og mjög stór og dulúðug verk eftir Georg Guðna sem eru til sýnis á Háskólatorgi þar sem flestir koma saman í hádeginu. Svo eru þarna mjög falleg verk eftir Jóhönnu Kristínu Yngvadóttur og Jón Axel þannig að áherslan er á það sem kallað var „Nýja málverkið“ sem menn hneyksluðust mikið á upp úr 1980. Síðan erum við með svolítið af verkum þar sem listamenn eru að vinna með texta og þar vil ég til dæmis nefna verk Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá.“

Af hverju er HÍ að kaupa og safna listaverkum?

„Þetta er nú þannig í mörgum háskólum erlendis og við getum sagt að Háskóli Íslands eigi sér fyrirmyndir úti í heimi, kannski sérstaklega í Bandaríkjunum þar sem eru mjög mörg og fræg háskólalistasöfn. Við getum nefnt háskólasafnið í Yale og Princeton, Harvard og mörgum smærri háskólum. Þar er það mjög algengt að til séu listaverk og það talið mjög mikilvægt að miðla listinni og kynna nemendum hana.“

Kynjahallinn réttur af

Aðspurð segir Æsa að árlega leggi háskólinn safninu til fjármuni til listaverkakaupa. Hún vill þó ekki meina að um mjög háar fjárhæðir sé að ræða.

„Ég myndi nú ekki segja það en jú við höfum ráðrúm til að kaupa verk á hverju ári og við höfum verið að kaupa mjög merkileg verk undanfarið og ekki síst söguleg verk. Get til dæmis nefnt verk eftir Hildi Hákonardóttur frá SÚM-árum hennar, vefnaðarverk sem er á sýningunni. Líka verk eftir yngri listamenn og svo höfum við einsett okkur að bæta kynjahallann því það er þannig í okkar listasafni eins og öðrum að það eru mun fleiri verk til eftir karl-listamenn og við viljum passa upp á að á okkar sýningum sé gott jafnvægi. Svo erum við að taka við listaverkagjöfum og það barst til dæmis nýlega mjög vegleg gjöf frá Áslaugu Sverrisdóttur en hennar fjölskylda hefur verið mikilvægur bakhjarl safnsins.“

Hvar er best að hefja sýningargönguna?

„Ég hugsa að það sé best að byrja í Hámu. Svo er hægt að fara niður í kjallara Háskólatorgs og þar er stór veggur með málverkum eftir listamenn af yngri kynslóðinni, Davíð Örn Halldórsson og Gabríelu Friðriksdóttur, og svo velja ein undirgöngin, til dæmis út í Odda þar sem Tolli, Helgi Þorgils, Jóhanna Bogadóttir, Gunnar Örn Gunnarsson og fleiri eru til sýnis. Eða undir Suðurgötu. Í göngunum þar eru skemmtilegar teikningar eftir Margréti Blöndal, vefverk og verk eftir Guðrúnu Einarsdóttur og Hörpu Árnadóttur svo ég nefni fátt eitt.“

Allar nánari upplýsingar má finna á hi.is og bæklingar um sýninguna verða dreifðir um háskólasvæðið.