Erna Guðrún og sonur hennar Tómas Hrafn eru ánægð með litríku risíbúðina.
Erna Guðrún og sonur hennar Tómas Hrafn eru ánægð með litríku risíbúðina. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það besta við íbúðina er að hún er risíbúð en það er oft eins og að búa í huggulegu tjaldi, sérstaklega þegar rignir, suðursvalirnar eru líka góðar, útsýnið og svo eigum við geggjaða nágranna og leigusala,“ segir Erna Guðrún um íbúðina

Það besta við íbúðina er að hún er risíbúð en það er oft eins og að búa í huggulegu tjaldi, sérstaklega þegar rignir, suðursvalirnar eru líka góðar, útsýnið og svo eigum við geggjaða nágranna og leigusala,“ segir Erna Guðrún um íbúðina.

Tekur heimilið stundum mið af þeim verkefnum sem þú ert að sinna?

„Jájá, stundum kemur til dæmis vinnan heim með mér í milljón pokum af fötum þótt ég reyni, sérstaklega eftir að sonur minn fæddist, að skilja vinnuna eftir í vinnunni, það gengur misvel,“ segir Erna Guðrún sem gerir stundum búninga. Um þessar mundir er hún þó að sýna verkið SUND í Tjarnarbíói.

Rauði liturinn gefur orku

Það eru ekki margir stórir fletir í íbúðinni þar sem hún er undir risi. Þegar kom að eina stóra veggnum í íbúðinni valdi hún nokkuð óvenjulegan lit, sterkan rauðan. „Ég pældi mikið í hvaða lit ég ætti að setja á nánast eina vegg íbúðarinnar sem er ekki undir súð. Það varð að vera einhver epískur litur. Við vinkona mín vorum að drekka freyðivín í stofunni þegar ég var nýflutt og við vorum sammála um að rauður væri málið, maðurinn minn var svolítið hræddur við þetta litaval en svo kom þetta bara svona vel út og svo gefur rauði liturinn manni orku!“

Erna Guðrún segist ekki fara eftir neinum ákveðnum reglum þegar hún raðar og færir til hluti. „Þetta er bara tilfinning og svo er gaman að taka áhættu. Stundum vakna ég með einhverja flugu í hausnum og er búin að breyta einhverju sama dag.“

Hvað finnst þér gera heimili hlýleg og notaleg?

„Litir, persónulegir munir, mottur, plöntur og almenn þægindi.“

Fann draumamottuna á Bland

Erna Guðrún segist stundum verða að eignast ákveðna hluti.

„Ég fæ hluti sem mig langar að eignast á heilann og hætti ekki að leita fyrr en ég finn nákvæmlega það sem ég leitaði að. Ég elska að fara á markaði og í „thrift“-búðir, sérstaklega í útlöndum, og tek undantekningarlaust eitthvað með mér heim þegar ég ferðast. Ég hugsa yfirleitt ekki hvort eitthvað sé nýtt eða gamalt, merkjavara eða ekki, bara hvort mér finnst það flott eða ljótt.“

Dæmi um slík kaup er marglit motta sem Erna Guðrún keypti notaða. „Mig var búið að langa lengi í svona tyrkneska mottu en þær eru dýrar og svo fann ég þessa loksins á Bland og ég náði að prútta hana aðeins niður. Konan sem átti hana var mjög næs. Ég held að hún hafi kunnað að meta hvað mig langaði svakalega í þessa mottu. Hún gaf mér hana á mjög góðu verði og ég elska hana, mottuna.“

Áttu uppáhaldsstað í íbúðinni?

„Baðkarið og stofuna.“

En uppáhaldshlut?

„Mér þykir vænt um flest sem ég á, sumir hlutir hafa fylgt mér frá blautu barnsbeini. Eins og til dæmis englalampi sem mamma mín keypti í blómabúð, ég hafði engan sérstakan áhuga á því að varðveita hann þegar ég var yngri en nú þykir mér mjög vænt um hann.“

Af hverju ertu með öll þessi líkneski og trúarlega hluti?

„Já einmitt, góð spurning. Ég veit það ekki alveg sjálf, það kemur ekki út frá einhverri trú eða neitt svoleiðis. Þetta er meira svona smá fyndið, smá fallegt, smá ljótt væb sem ég laðast eitthvað að.“

Áttu uppáhaldslistaverk?

„Uppáhaldslistaverkin mín er oftast þau sem eru eftir vini eða kunningja. Eða þau sem ég hef fengið að gjöf frá einhverjum sem mér þykir vænt um, hvort sem það er myndlist, bækur eða handverk.“

Alveg að verða fullorðin

Er hægt að gera leiguíbúðir notalegar þrátt fyrir að maður megi líklega ekki gera hvað sem er við þær?

„Það er hægt að gera öll rými kósí, hvort sem það er leiguíbúð, hótelherbergi eða kústaskápur, bara ef maður hefur smá hugmyndaflug og nennir því.“

Hvernig finnst þér fyrir ungt fólk að koma sér inn á fasteignamarkað?

„Ég er alltaf að safna en líka alltaf að eyða! Þetta er auðvitað mikið bras, við erum fyrst núna að fara að skoða það að kaupa eign og mér finnst það mjög fullorðins.“

Er eitthvað á óskalistanum fyrir heimilið?

„Ég er með draumasófann í huga sem ég þarf einhvers staðar að finna en hann kemur líklegast í næstu íbúð,“ segir Erna Guðrún.

Höf.: Guðrún Selma Sigurjónsdóttir |