Það er veðrahrollur í Guðmundi Arnfinnssyni á Boðnarmiði: Svalt er nú í Köldukinn, kvöddu spói og lóa, að mér sækja feigð ég finn, fer að hvessa og snjóa. Auður Sigurðardóttir heldur áfram: Blöðin falla föl af trjánum frostið herðir að

Það er veðrahrollur í Guðmundi Arnfinnssyni á Boðnarmiði:

Svalt er nú í Köldukinn,

kvöddu spói og lóa,

að mér sækja feigð ég finn,

fer að hvessa og snjóa.

Auður Sigurðardóttir
heldur áfram:

Blöðin falla föl af trjánum

frostið herðir að.

Þó vex ein rós á vesturskjánum

vetrarblóm er það

Bjarni Jónsson yrkir:

Hvorki vill grugg né gjálfur

glaðbeittur fréttakálfur

Magnús Hlynur

mannanna vinur

ræðir, spyr og svarar, öllu sjálfur

Dáðadraumur eftir Hallmund Guðmundsson:

Nú fyrnist orðið mér í muna

meir' en nokkurn skyldi gruna;

- minningin um fyrri funa

og fjörug tök við náttúruna.

Þorgeir Magnússon um Hægagang:

Líkt og núið liggi kjurt

lífið hægt fram skríður.

Fortíðin er farin burt,

framtíð þögul bíður.

Ekki er það gott – Friðrik Steingrímsson yrkir:

Vondum fréttum vil að linni

verra er ekki hægt að fá,

það er ekki einu sinni

almennileg veðurspá.

Ekkillinn eftir Braga V. Bergmann. Það er mikið áfall að missa maka sinn. Flestir ná þó að vinna úr sorginni að lokum – en sumir eru sneggri að því en aðrir:

Magnús er konuna missti

meyjarnar fljótlega kyssti.

Huggun gegn harmi

hann fann í barmi

fögrum – og ekki sá fyrsti!

Limran Frambjóðandi eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson:

Kátur um kjördæmið fór'ann

og kjósendum hollustu sór'ann,

bar hratt yfir storð

með sín hástemmdu orð

og lokaðan siðferðisljórann.

Mótþróaröskun eftir Ragnar Inga:

Þótt hafi ég eitt reynt og annað

og alls konar velsælu kannað

er staðreyndin sú

sem ég staðfesti nú

að mér líkar það best sem er
bannað.