Guðrún Ragnarsdóttir fæddist í Reykjavík 27. september 1947. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 8. september 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Ragnar Jóhannesson, skólastjóri og rithöfundur, cand. mag., f. 14. maí 1913, d. 16. nóvember 1976, og Ragna Jónsdóttir kennari, f. 15. desember 1916, d. 30. desember 1987. Systkini Guðrúnar eru Ragnar, f. 8. ágúst 1940, og Ingibjörg kennari, f. 8. apríl 1943, d. 22. nóvember 1998.

Eiginmaður Guðrúnar var Árni Björn Jónasson verkfræðingur, f. 19. júlí 1946, d. 31. maí 2020. Foreldrar hans voru hjónin Jónas Sigurðsson, skólastjóri Stýrimannaskólans, f. 1911, d. 2002, og Pálína Árnadóttir húsmóðir, f. 1914, d. 1993.

Börn Guðrúnar og Árna eru: 1) Ragna, skrifstofustjóri Alþingis, f. 30. ágúst 1966, gift dr. Magnúsi Jóni Björnssyni tannlækni, f. 14. apríl 1966. Dætur þeirra eru Brynhildur, f. 26. október 1993, og Agnes Guðrún, f. 8. september 2000. 2) Páll kerfisfræðingur, f. 28. maí 1974. Dætur hans og Sunnu Kristjánsdóttur eru Guðrún, f. 14. apríl 2015, og Kristín, f. 7. apríl 2019. 3) Jónas tölvunarfræðingur, f. 9. ágúst 1978, giftur Guðbjörgu Evu Friðgeirsdóttur upplýsingafræðingi, f. 19. desember 1979. Dóttir þeirra er Sunneva Rún, f. 12. ágúst 2013. Fyrir átti Jónas dótturina Rakel Rán, f. 4. nóvember 2006, og fyrir átti Guðbjörg soninn Sigurð Magna, f. 14. september 2000, hans sonur er Kolbeinn Óskar, f. 26. mars 2022. Systurdóttir Guðrúnar er Ragna Pálsdóttir lögfræðingur, f. 5. september 1978, í sambúð með Þórmundi Hauki Sigurjónssyni byggingafræðingi, f. 15. desember 1975. Synir þeirra eru Sigurjón Þorri, f. 9. apríl 2001, Róbert Páll, f. 24. ágúst 2008, og Ragnar Egill, f. 11. janúar 2016.

Guðrún ólst upp á Akranesi til þrettán ára aldurs og fluttist þá með foreldrum sínum til Reykjavíkur þar sem hún lauk gagnfræðaprófi. Við tóku störf í Landsbankanum og nám við lýðháskóla í Danmörku. Guðrún og Árni kynntust ung og giftust 14. júní 1967. Fjölskyldan flutti til Danmerkur þar sem Guðrún starfaði í Landmandsbanken. Eftir að fjölskyldan fluttist aftur til Íslands var Guðrún heimavinnandi þar til hún hóf nám að nýju. Hún útskrifaðist með stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla 1986, lauk BA-prófi í dönsku frá Háskóla Íslands árið 1990 ásamt prófi í kennslufræðum frá sama skóla árið 1995. Að námi loknu vann hún m.a. að útgáfu dönsk-íslensku orðabókarinnar og sinnti kennslu í Póst- og símaskólanum. Árið 1995 hóf hún störf við dönskukennslu í Menntaskólanum við Hamrahlíð þar sem hún starfaði til sjötugs. Guðrún var einn af stofnfélögum Inner Wheel í Kópavogi og gegndi þar ýmsum trúnaðarstörfum. Hún var í tvígang forseti klúbbsins, þá ritari og gjaldkeri, sem og ritari umdæmisins. Þá sat Guðrún í stjórn dönskukennarafélagsins um tíma.

Guðrún verður jarðsungin frá Kópavogskirkju í dag, 22. september 2023, klukkan 13.

„Ég er róleg. Ég hef trúna.“ Á dánarbeðinum sýndi móðir mín æðruleysi sem hjálpaði mér að sættast við orðinn hlut þótt fyrirvarinn væri skammur. Mamma var hlý, glaðvær og góð kona. Hún var skarpgreind og víðlesin. Hún leysti úr vanda þeirra sem til hennar leituðu og sýndi viðmælendum sínum ósvikinn áhuga.

Mamma var átján ára þegar hún eignaðist mig. Það var sannarlega ekki á dagskrá en þrátt fyrir það var ég afar velkomin. Ég var umvafin kærleika foreldra minna og fjölskyldna þeirra. Mamma var staðráðin í að sinna uppeldinu vel, las endalaust fyrir mig sögur og uppbyggilegar bókmenntir, sagði mér frá ástandi heimsins, fór með mig í kröfugöngur og á listsýningar. Hún var óspör á hrós þegar svo bar undir og lýsti það sér gjarnan í rökstuddri endurgjöf að hætti kennarans.

Dætrum mínum reyndist hún líka góður félagi, var ávallt til staðar fyrir þær og leiddi fram veginn. Hið sama gilti um vini mína þegar við vorum að vaxa úr grasi. Hæfileiki hennar til að hlusta á ungt fólk og veita því ráð var einstakur. Kom það því ekki á óvart að heyra að hún væri vinsæll kennari en því starfi gegndi hún af lífi og sál. Henni þótti afar vænt um nemendur sína og bar velferð þeirra fyrir brjósti sem væru þeir hennar eigin börn.

Mamma var mikil hugsjónamanneskja, gegnheill jafnréttissinni og fór ekki í launkofa með skoðanir sínar á mönnum og málefnum, sem gat verið mjög skemmtilegt að hlusta á. Hún beinlínis elskaði fræðigrein sína, dönsku, og var óþreytandi að segja frá HC Andersen og Karen Blixen. Manni fannst stundum eins og þetta væru sprelllifandi manneskjur, svo ástríðufull var frásögnin. Mamma var líka mikill húmoristi og gátum við hlegið út í eitt að hinum og þessum atvikum, helst á okkar eigin kostnað.

Ég þakka minni elskulegu og góðu móður uppeldið, samfylgdina og allar góðu stundirnar. Hvíl í friði mamma mín.

Þín

Ragna.

Guðrún Ragnarsdóttir tengdamóðir mín yfirgaf okkur skyndilega eftir stutta sjúkdómslegu föstudaginn 8. september síðastliðinn.

Þá voru rúmlega 32 ár frá fyrstu fundum okkar Guðrúnar. Við hittumst fyrst á Skjólbrautinni; Guðrún á fullu í garðinum en tók sér tíma til að spjalla við glænýjan kærasta einkadótturinnar. Þá kom strax í ljós einn af mörgum kostum Gunnu; hún sýndi fólki endalausan áhuga. Hún lét mér líða eins og við værum aldavinir, þrátt fyrir einungis nokkurra mínútna kynni. Ég var býsna ánægður með fyrstu viðtökur á heimilinu, fannst ég hlyti að hafa staðið mig vel. Það kom reyndar í ljós síðar að henni hefði ekki litist meira en svo á nýja tengdasoninn við fyrstu kynni, án þess þó að láta á neinu bera (sennilega brennd af fyrri kynnum við forvera mína, hugsaði ég með mér). Það leið þó ekki á löngu þar til ég átti í henni hvert bein.

Guðrún var ástríðumanneskja. Hún elskaði allt í senn, kennsluna, nemendurna, dönskuna og MH sem var vinnustaður hennar seinni hluta starfsævinnar. Hún elskaði fjölskylduna og faðmur hennar stóð öllum í stórfjölskyldunni og vinum þeirra ætíð opinn. Barnabörnin áttu öruggan stað með tei, ristuðu brauði og Futurama eða Simpsons þegar foreldrarnir þurftu frí frá amstri dagsins. Þar gátu þau gengið að því vísu að samskiptin færu fram á sértungumáli heimilisins, en einn af helstu kostum Gunnu var að hún var óborganlegur bullari eins og margir aðrir í fjölskyldunni.

Það reyndist henni þungt þegar hún missti Árna sinn sviplega fyrir rúmum þremur árum. Hún tókst þó á við breytingu á högum sínum með æðruleysi. Tengsl og samvera með fjölskyldunni stórjukust frá því sem verið hafði og samskipti urðu hreinskiptnari en fyrr; við kynntumst Gunnu upp á nýtt og það voru ánægjuleg kynni.

Þrátt fyrir stutta sjúkdómslegu kom í ljós að Guðrún óttaðist ekki það sem koma skyldi. Hún sagðist hafa átt gott og ríkulegt líf og trúði á hið góða sem biði; skrafl með Imbu systur, daglegt spjall við Árna sinn og kannski nokkrir þættir af Matador eða Poirot í kaupbæti.

Með ástarþökkum fyrir allt,

Magnús Björnsson.

Elsku Ommí okkar.

Mikið var alltaf yndislegt að koma til ykkar afa í hlýjuna heima á Skjólbrautinni.
Það var svo gaman þegar
við komum að þú lést okkur alltaf vita að þú ættir okkur með stóru faðmlagi. Við vorum oft úti garði þar sem við fengum að hjálpa þér með garðstörf
eða búa til stóran drullupoll þar sem við busluðum svo mikið að það þurfti að sprauta okkur hreinar og síðan lánaðir þú okkur þurr föt af þér þegar við komum inn. Á afmælisdaginn fengum við alltaf hringingu frá ykkur afa, og síðan bara þér eftir að afi dó, þar sem þið sunguð afmælissönginn og spiluðuð undir á litla spiladós. Mikið eigum við eftir að sakna þess að fá þessa afmælishringingu frá ykkur. Þegar við vorum að fara frá ykkur var svo oft kvatt með stóru faðmlagi og hringkossi. Mikið vildum við að við hefðum getað fengið einn stóran hringkoss í viðbót.

Þínar ömmustelpur,

Rakel Rán og
Sunneva Rún.

Hún Guðrún amma, eða Omma eins og hún var kölluð af okkur barnabörnunum, var okkur óendanlega mikilvæg. Hún tók virkan þátt í lífi okkar systra og fylgdist grannt með okkar störfum.

Hún var okkur ávallt innan handar. Símhringingar og heimsóknir voru tíðar og gátum við talað stundunum saman um lífið og tilveruna. Skjólbrautin var griðastaður og ekkert var betra en að koma í heimsókn og fá tekex með osti og heitan bolla af Melrose‘s-tei.

Samband okkar systra við Ommu einkenndist af ást
og gagnkvæmri virðingu.
Hún hlustaði og tók okkur
alvarlega, sem var sérstaklega kærkomið á unglingsárunum þegar heimurinn var ósanngjarn og allt var ómögulegt. Húmorinn var þó ekki langt undan og stutt í bullið. Hún studdi við bakið á okkur í því sem við tókum okkur fyrir hendur og hvatti til dáða.

Það er ósköp sárt að kveðja þig svona snögglega og þín verður sárt saknað. Eftir standa fallegar minningar um ást og umhyggju þína sem við erum þér þakklátar fyrir.

Hvíl í friði, elsku Omma.

Þínar

Brynhildur og Agnes.

Það er eitthvað óraunverulegt við það að hún Guðrún frænka, Gunna mín, sé farin svona skyndilega. Gunna var móðursystir mín en hún var líka svo miklu meira í mínum augum. Hún studdi okkur unga fólkið með ráðum og dáð við ótímabært fráfall móður minnar – systur sinnar sem henni þótti svo vænt um. Það var augljóst að á milli þeirra systra var sérstök tenging og það var gott að eiga tengingu áfram við mömmu í gegnum Gunnu. Oft sagði hún frá því sem þær höfðu brallað og minnti mig reglulega á hversu mikla gleði ég, dóttirin, hafði veitt mömmu. Henni þótti sérstaklega gaman að segja söguna af því þegar við frændsystkinin fæddumst þeim systrum með mánaðar millibili, annað slétt og hitt krumpað en bæði svo góð og skemmtileg.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að alast upp í fjölskylduhúsinu á Skjólbraut þar sem ég, einbirnið, upplifði systkinasamband við frændsystkini mín og samveru við ömmu Rögnu, Ragga frænda og frændfólkið. Þar upplifðum við sannkallaða stórfjölskyldustemningu þótt við séum nú ekki stór fjölskylda. Það breyttist lítið þegar Gunna og fjölskylda færðu sig aðeins vestar við sömu götu þar sem samgangurinn var áfram mikill. Lengi framan af eyddum við jólum hjá Gunnu og Árna og jafnvel eftir að börnin bættust í hópinn. Þá var líf og fjör! Stórveislurnar voru þó ekki bundnar við jólin því Gunna og Árni voru dugleg að bjóða stórfjölskyldunni heim á stórhátíðum og við önnur tilefni. Ekki nóg með það heldur var öllu stóðinu stefnt til útlanda endrum og eins og þá ekki endilega á almenna sólarströnd. Þar stendur náttúrlega Túnisævintýrið upp úr sem reglulega er rifjað upp á góðum stundum.

Gunna starfaði lengst af sem dönskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð og það var augljóst að kennslustörfin voru hennar ástríða og danskan auðvitað. Henni var annt um nemendur sína og ég skynjaði það bæði í því hvernig hún talaði um þá og hvernig þeir tala um hana. Gunna var líka víðlesin og hún og Þórmundur bundust sérstökum böndum yfir Njálu, Eglu og Laxdælu sem hún hafði sérstakt dálæti á. Þau áttu djúpar samræður um persónurnar og sálarlíf þeirra, sannleiksgildi sagnanna og stöðu og hlutverk kvenna í sögunum. Gunna var barnabörnunum líka einstaklega góð og sýndi því sem þau höfðu fyrir stafni ætíð einlægan áhuga. Barnabörnin, þ.m.t. drengirnir okkar Þórmundar, munu alltaf búa að því að hafa átt Gunnu að.

Elsku Gunna, ég bið að heilsa þú veist hverri. Við fjölskyldan eigum eftir að sakna þín.

Ragna og strákarnir.

Það er með sorg í hjarta að við kveðjum okkar kæru vinkonu, Guðrúnu Ragnarsdóttur. Leiðir okkar lágu saman í dönskudeild Háskóla Íslands á miðjum níunda áratug síðustu aldar. Þar mættist samheldinn hópur nemenda og kennara og hefur traustur vinskapur haldist æ síðan.

Guðrún var um fertugt þegar hún hóf háskólanám og var staðráðin í því að láta draum sinn rætast og feta í fótspor foreldra sinna og verða kennari. Námið veitti henni mikla ánægju enda var það lifandi og kennslan mjög framsækin.

Að námi loknu hóf hún störf við Menntaskólann í Hamrahlíð og lauk starfsferli sínum þar fyrir nokkrum árum. Guðrún var ástríðufullur dönskukennari og fór þar saman brennandi áhugi á faginu og umhyggja fyrir nemendum.

Eftirminnileg er ferð okkar til Danmerkur haustið 1996 til að heimsækja Lisu í Holbæk. Við héldum fyrirlestra um Ísland og álfatrú fyrir áhugasama lýðháskólanema þar sem við skörtuðum íslenskum þjóðbúningum og buðum upp á hákarl og brennivín.

Í áranna rás horfðum við saman á danskar bíómyndir, lásum danskar bókmenntir og fylgdumst vel með danskri menningu.

Guðrún var vönduð kona, hæg og róleg, næm á aðstæður og fólk. Hún hafði yndislegan húmor og skemmtilegan fatastíl. Mannkostir hennar birtust hvort sem við sátum við kaffiborð eða áttum í faglegu samstarfi.

Við minnumst með þakklæti allra samverustundanna sem ljúfmennska Guðrúnar átti sinn þátt í að móta.

Við vottum börnum hennar og ástvinum innilega samúð.

Auður Leifsdóttir,
Elsa Petersen,
Halldóra Jónsdóttir, Lisa von Schmalensee og Magdalena M. Ólafsdóttir.

Elsku Gunna, við áttum eftir að hittast svo oft og nú ertu allt í einu farin. Þín verður sárt saknað af mjög mörgum. Eina huggunin er að það má vera að þú hafir hitt Árna hinum megin.

Einstök kona, íhugul með eindæmum en líka kankvís dugnaðarforkur sem elskaðir að sjá spaugilegu hliðarnar. Við kynntumst fyrst á Kagså og brölluðum síðan margt saman með hópnum okkar sem stækkaði og stækkaði, stundum á sama árinu sem var í raun stórmerkilegt. Minningarnar dvelja ekki síst í Munaðarnesi en líka Þjórsárdalnum og Herdísarvík, í öllum partíunum þar sem oft var dansað af mikilli innlifun og nú síðustu árin við alla kaffihittingana.

Einkennandi fyrir þig var umhyggjan, ljúflyndið og hlýjan gagnvart öllu þínu fólki og okkur vinunum og einnig tillitssemin, sem olli að ekki var hægt annað en að sýna gagnkvæma virðingu og aka alltaf á löglegum hraða, alls ekki einn kílómetra yfir hámarkshraða, ef ég var í samfloti með ykkur Árna.

Takk elsku Gunna, það er virkilega gott að hafa fengið að verða samferða þér í lífinu. Elsku Ragna, Palli, Jónas og allt ykkar fólk, innilegustu samúðarkveðjur.

Kristín Hildur Sætran.

Líttu sérhvert sólarlag,

sem þitt hinsta væri það.

Því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Skyndilegt fráfall Gunnu vinkonu okkar kom okkur öllum í opna skjöldu, nýbúin að hittast í góðu spjalli og allt virtist í stakasta lagi.

Það voru sannarlega forréttindi að fá að kynnast Gunnu og eiga sem vinkonu. Við hittumst fyrst á Kagsåkollegiet í Kaupmannahöfn og strax tókst mjög góður vinskapur Íslendinga sem þar bjuggu.

Eftir heimkomu héldust þessi sterku vinatengsl alltaf. Við stelpurnar hittumst reglulega til að ræða málin og strákarnir til að spila bridge. Einnig fórum við ásamt fjölskyldum í óteljandi ferðalög um landið. Árlegar sumarbústaðaferðir í Munaðarnes eru ógleymanlegar en þar fór Gunna oft á kostum í heimagerðum leikritum og leikjum. Einnig hittumst við fullorðna fólkið í alls konar uppákomum þar sem var borðað, hlegið og dansað.

Mannkostir Gunnu voru einstakir. Hún var einstaklega hlý manneskja og hafði mjög góða nærveru, róleg og yfirveguð og tranaði sér aldrei fram. En þegar hún hafði orðið var sannarlega hlustað og var þá stutt í glensið og grínið.

Henni var alltaf mjög umhugað um að allir væru glaðir og hamingjusamir og þess nutum við vinirnir.

Við munum sannarlega sakna góðrar vinkonu úr hópnum. Blessuð sé minning Gunnu.

Elsku Ragna, Palli og Jónas. Við sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Anna, Guðný, Guðrún (Gunna) og fjölskyldur.

Við kvöddumst í miðjum ágúst með orðunum „sjáumst fljótlega“ en ekkert varð úr því stefnumóti þegar farið var að skipuleggja því Guðrún var ekki lengur hér, óvænt og fyrirvaralaust.

Guðrún Ragnarsdóttir dönskukennari var samstarfskona okkar í Menntaskólanum við Hamrahlíð til margra ára og vart er hægt að hugsa sér betri kollega. Hún var hugmyndarík og alltaf til í að prófa nýjar leiðir í kennslu, verkefnum og prófum. Hún var jafnframt afskaplega raunsæ og skipulögð og háfleygum verkefnum bjargaði hún frá brotlendingu með skynsamlegum og rökréttum tillögum. Svo var hún vandvirk, þegar við skiptumst á pappírum með einhverjum textum og drögum að verkefnum þá skrifaði hún athugasemdir á spássíuna með skýru, læsilegu skriftinni sinni, þar var aldrei neitt krot eða pár. Ef eitthvað í verkefnavinnunni var ónothæft að hennar mati þá kom hún alltaf með aðra tillögu eða betri útfærslu.

Guðrún stundaði stangveiði og hún hefur örugglega nýtt sér eiginleika úr veiðunum í kennslu því hún sýndi bæði lagni og þolinmæði.

Það var ekki hennar stíll að telja villur og meta eingöngu út frá þeim – hún vildi frekar sjá skýra hugsun í framsetningu efnis. En umfram allt átti að vera gaman. Nemendum þótti gaman í tímum hjá henni, þótti námið skemmtilegt og það var einmitt það sem Guðrúnu þótti líka. Það var svo skemmtilegt í skólanum. Nemendum þótti vænt um Guðrúnu og sáu í henni fyrirmynd ekki síður en kennara.

Það var gott að leita til Guðrúnar, hún átti alltaf hollráð við hverjum vanda bæði faglegum og félagslegum, svo var hún svo óendanlega fróð á mörgum sviðum. Hún vissi t.d. bókstaflega allt um Karen Blixen, ævi hennar og rithöfundarferil.

Guðrún var töffari, gjarnan svartklædd í sterklegum reimuðum skóm og leður- eða gallajakka og í eitt skipti þegar kennsludag bar upp á afmælið hennar mætti hún í Rolling Stones-bol. Hún hafði nefnilega farið á tónleika með þeim þá um sumarið.

Á kveðjustund er okkur efst í huga þakklæti fyrir samveruna og samstarfið. Fjölskyldu Guðrúnar vottum við innilega samúð okkar, þeirra er missirinn mestur. Blessuð sé minning Guðrúnar Ragnarsdóttur.

Lovísa Kristjánsdóttir,
Sif Bjarnadóttir.

Kær vinkona okkar, Guðrún Ragnarsdóttir, er fallin frá. Andlát hennar bar brátt að. Minningin um Guðrúnu verður okkur ávallt kær. Hún hafði einstaklega ljúfa framgöngu en lá heldur ekki á skoðunum sínum um menn og málefni.

Guðrún var dönskukennari við Menntaskólann við Hamrahlíð í áratugi. Kennarastarfið var henni kært og höfum við fyrir satt að afar vel hafi farið á með henni og nemendum hennar. Hún átti heldur ekki langt að sækja það enda báðir foreldrar hennar kennarar og þjóðþekkt af störfum sínum og listfengi. Guðrún erfði það allt.

Ekki verða svo rituð minningarorð um Guðrúnu að ekki sé minnst á Árna Björn sem féll frá fyrir örfáum árum. Þau hjón voru afar samrýnd og áttu mörg sameiginleg áhugamál en fjölskyldan var þeim allt. Þau voru höfðingjar heim að sækja og eigum við ótal minningar um samveru með þeim hjónum og sameiginlegum vinum okkar. Á þeim fundum var gjarnan glatt á hjalla og gamanmál ekki langt undan enda Guðrún einstaklega orðheppin.

Nú þegar þau hjón mætast aftur sjáum við fyrir okkur að þau fari að ráðum föður og tengdaföður og taki upp þráðinn að nýju: „Með sól í hjarta og söng á vörum /við setjumst niður í grænni laut.“ (RJ)

Við þökkum nú Guðrúnu fyrir einlæga vináttu og tryggð alla tíð og söknum vinar í stað. Við sendum börnum þeirra hjóna og fjölskyldum innilegar samúðarkveðjur. Megi sá sem öllu ræður vera þeim stoð og styrkja þau í sorginni.

Guðrún Erla
Sigurðardóttir,
Þorgeir J. Andrésson.

Fallinn er frá góður félagi og fyrrverandi samstarfsmaður okkar MH-inga, Guðrún Ragnarsdóttir fyrrverandi dönskukennari. Guðrún kenndi dönsku í rúma tvo áratugi við Menntaskólann við Hamrahlíð. Hún naut mikillar virðingar sem kennari jafnt af nemendum sem samstarfsfólki. Hún sinnti kennslu af alúð og vandvirkni og eftir sinn síðasta kennsludag 2017 talaði hún enn um hvað það væri gaman að kenna. Nemendum þótti gaman í tímum hjá Guðrúnu og þar var alltaf líf og fjör enda Guðrún með eindæmum kát og hress. Guðrúnu var lýst sem töffara í leðurjakka, hjartahlýrri með góða nærveru og með húmorinn á hreinu. Guðrún var dugleg að mæta á allar samkomur sem tengdust skólanum og andrúmsloftið í kringum hana var alltaf notalegt. Hún hafði gaman af því að spjalla um kennsluna við samstarfsfólk og einnig um lífið og tilveruna.

Við munum sakna Guðrúnar og sendum fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd MH þökkum við henni fyrir innihaldsríkt og farsælt samstarf.

F.h. stjórnenda Menntaskólans við Hamrahlíð,

Steinn Jóhannsson
rektor.

Skyndilegt og ótímabært fráfall okkar góðu vinkonu, Guðrúnar Ragnarsdóttur, Gunnu, kom eins og reiðarslag. Jú, við vissum að hún var veik heima, „bara einhver pest“, sagði hún, en að hún væri dáin nokkrum dögum seinna, það var eitthvað sem hvarflaði ekki að okkur. En Gunna kvartaði ekki eða gerði of mikið úr hlutunum, nei það var ekki hennar vani.

Við kynntumst þegar við byrjuðum í fyrsta bekk í Réttarholtsskóla en eftir útskrift þaðan skildi leiðir í skólagöngu. Gunna var sú eina okkar sem fór í langskólanám þó síðar yrði. Við hinar fórum í Gagnfræðaskóla verknáms þar sem við vorum svo heppnar að Ragna Jónsdóttir móðir Gunnu kenndi okkur dönsku og var hún mjög hress og skemmtilegur kennari.

Við stofnuðum snemma saumaklúbb svo að við gætum hist a.m.k. einu sinni í mánuði þrátt fyrir barnastúss og aðra vinnu. Einhver hlé urðu nú á hittingi fyrstu árin eins og gengur. Gunna fylgdi Árna sínum út til náms í nokkur ár og eftir heimkomuna fór hún í nám, tók kennararéttindi í dönsku við Háskólann og kenndi dönsku við MH þar til hún lét af störfum vegna aldurs.

Saumaklúbburinn þróaðist í gegnum árin frá því að við hittumst heima hjá hver annarri í það að hittast á kaffihúsum eða fara saman í bíó eða í leikhús.

Í covidinu tókum við Messenger í okkar þjónustu og töluðum saman þar í hverri viku. Í sumar létum við svo verða af því að heimsækja æskustöðvar Gunnu á Akranesi sem hún sýndi okkur stolt í sól og blíðu enda að hennar sögn alltaf gott veður á Skaganum.

Fyrir mörgum árum buðum við eiginmönnum okkar í vikuferð til Barcelona og kom þá í ljós hve Árni og Gunna voru góðir ferðafélagar, alltaf jákvæð og Árni traustur og góður leiðsögumaður, mikið öryggi fyrir okkur hin sem vorum eins og sveitamenn í stórborg.

Það var mikið áfall fyrir Gunnu að missa Árna skyndilega fyrir þremur árum en hún átti góða fjölskyldu sem hlúði vel að henni. Hún var ákaflega stolt af sínum börnum og barnabörnum þó að hún hafi aldrei verið neitt að stæra sig af þeim. Nei, Gunna stærði sig aldrei af neinu þó að hún hafi haft fulla ástæðu til. Við vitum að hún var frábær kennari, það höfum við frá nemendum hennar. Hún var alltaf róleg og yfirveguð, mjög góður hlustandi, talaði aldrei illa um nokkurn mann. Hún var dásamleg vinkona sem við eigum eftir að sakna mikið.

Við munum sakna allra góðu stundanna sem við áttum saman þar sem við fengum oftar en ekki óstöðvandi hlátursköst af litlu tilefni. Við vorum farnar að plana fleiri samverustundir en af þeim verður því miður ekki.

Við kveðjum kæra vinkonu okkar með þakklæti fyrir ómetanlega vináttu og vottum börnum hennar og fjölskyldum þeirra, bróður hennar, systurdóttur og hennar fjölskyldu okkar innilegustu samúð.

Hvíl í friði, elsku Gunna.

Þínar vinkonur,

Karen, Sigurveig (Sísí) og Sigrún.