Fyrirliði Glódís Perla Viggósdóttir sat fyrir svörum í gær á blaðamannafundi íslenska liðsins á Laugardalsvelli ásamt Þorsteini Halldórssyni.
Fyrirliði Glódís Perla Viggósdóttir sat fyrir svörum í gær á blaðamannafundi íslenska liðsins á Laugardalsvelli ásamt Þorsteini Halldórssyni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þjóðadeildin Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Wales í nýrri Þjóðadeild UEFA í kvennaflokki á Laugardalsvelli í kvöld.

Þjóðadeildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Wales í nýrri Þjóðadeild UEFA í kvennaflokki á Laugardalsvelli í kvöld.

Ísland og Wales leika bæði í C-riðli A-deildar keppninnar ásamt Þýskalandi og Danmörku en keppninni lýkur í febrúar 2024.

Ísland mætir svo Þýskalandi í Bochum 26. september, Danmörku á Laugardalsvelli 10. október, Þýskalandi á Laugardalsvelli 31. október, Wales í Wales 30. nóvember og loks Danmörku í Danmörku 4. desember.

Sigurvegarinn úr C-riðli fer áfram í undanúrslit keppninnar sem fram fara í febrúar 2024, og þar verður jafnframt leikið um tvö sæti á Ólympíuleikunum sem fram fara í París á næsta ári.

Liðið sem endar í öðru sæti riðilsins leikur áfram í A-deild í undankeppni EM 2025 en liðið sem endar í þriðja sæti riðilsins fer í umspil í febrúar gegn liði úr B-deild Þjóðadeildarinnar um sæti í A-deildinni. Liðið sem endar í neðsta sæti riðilsins fellur í B-deild Þjóðadeildarinnar.

Aðeins mæst tvívegis

Wales er sem stendur í 29. sæti heimslista FIFA en íslenska liðið er í 14. sætinu. Wales hefur aldrei verið hærra á heimslistanum, en liðið var einnig í 29. sæti listans í desember 2018.

Liðið hefur aldrei tekið þátt í lokakeppni Evrópumóts eða heimsmeistaramóts en komst þó áfram í umspilið um sæti á HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í október á síðasta ári þar sem Wales hafði betur gegn Bosníu, 1:0, í framlengdum leik í Cardiff í 1. umferð umspilsins.

Liðið tapaði svo fyrir Sviss í úrslitum umspilsins, 2:1, í framlengdum leik þar sem Sviss skoraði sigurmarkið í uppbótartíma seinni hálfleiks framlengingarinnar og missti þar með naumlega af sæti á HM.

Jess Fishlock er reyndasti leikmaður velska liðsins með 134 A-landsleiki á bakinu. Fishlock er einnig sú langmarkahæsta í leikmannahópnum sem mætir Íslandi með 34 mörk en hún er samningsbundin OL Reign í bandarísku atvinnumannadeildinni.

Wales og Ísland mættust síðast á Spáni í febrúar þar sem liðin gerðu markalaust jafntefli. Það var aðeins annar leikur þjóðanna en Ísland vann leik liðanna árið 1993, 1:0.

Á meðal sextán bestu

„Þetta er gott lið og það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að þær eru í A-deild Þjóðadeildarinnar,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, þegar hann ræddi um landslið Wales á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í gær.

„Þær eru á meðal sextán bestu liða Evrópu og þetta verður strembinn leikur. Við þurfum að sýna góða frammistöðu ef við ætlum okkur að ná í einhver úrslit á móti þeim.

Það eru einhverjir leikmenn tæpir og það kemur í raun ekki í ljós fyrr en bara á leikdegi hvaða leikmenn verða 100% klárir í slaginn. Við munum stilla upp sterku liði, sama hvað, og þeir leikmenn sem byrja leikinn verða klárir í slaginn,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Ísland verður án þeirra Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur, Dagnýjar Brynjarsdóttur og Elísu Viðarsdóttur sem eru allir barnshafandi og þá hafa reyndir leikmenn lagt skóna á hilluna á undanförnum mánuðum.

„Eins og ég hef áður komið inn á þá höfum við verið að missa reynslumikla leikmenn í undanförnum landsleikjagluggum. Við höfum samt náð í ágætis úrslit í ár, þrátt fyrir að hafa misst alla þessa leikmenn, og ég held að hópurinn sé klár í þetta.

Þeir leikmenn sem hafa verið í smærri hlutverkum þurfa að stíga upp núna og ég hef fulla trú á því að þeir geri það. Við erum öll meðvituð um það að við þurfum að halda í okkar gildi og fórna okkur fyrir málstaðinn og ef við gerum það verða úrslitin eftir því.“

Hvetur fólk til að mæta

Alls hafa rúmlega 1.700 miðar selst á leikinn en Laugardalsvöllur tekur um 9.500 manns í sæti.

„Það skiptir okkur öllu máli að fólk mæti á völlinn og styðji konurnar okkar. Þær eru að spila með mörgum af bestu félagsliðum Evrópu og við þurfum að sýna það í verki að við séum íþróttaþjóð sem styður íþróttafólkið sitt, sama af hvaða kyni það er. Við þurfum að sýna að við séum tilbúin að styðja landsliðin til góðra verka og ég hvet fólk til þess að koma sér af lyklaborðinu og mæta á leikinn,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, sat einnig fyrir svörum á blaðamannafundinum í gær og var meðal annars spurð út í mótherjana frá Wales og nýja Þjóðadeild.

„Þessi leikur leggst mjög vel í okkur og það er gaman að fara inn í nýja keppni þar sem hver einasti leikur er alvöruleikur ef svo má segja og úrslitin skipta miklu máli. Það gerir að verkum að við erum allar á tánum og tilbúnar. Ég er spennt að hefja leik gegn sterkustu liðum Evrópu þar sem við þurfum að skila alvöruframmistöðu ef við ætlum okkur að ná í úrslit.

Við erum þannig lið að ef við spilum vel og erum með allt tipptopp okkar megin þá getum við unnið hvaða lið sem er. Wales er svipað að styrkleika og við og ég á von á mjög jöfnum leik gegn þeim. Hvert smáatriði skiptir því máli og við þurfum að vera með fulla einbeitingu frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu,“ sagði landsliðsfyrirliðinn.