Ráðstefna Einar Þorsteinsson og Sigurður Á. Snævarr hlýða á ræður.
Ráðstefna Einar Þorsteinsson og Sigurður Á. Snævarr hlýða á ræður. — Morgunblaðið/Arnþór
Starfsmenn sveitarfélaga eru alla jafna með lægri heildarlaun en starfsmenn annarra launagreiðenda hins opinbera, ríkis og Reykjavíkurborgar. Samanburður heildarlauna á vormánuðum leiðir í ljós að þetta á við um starfsfólk hvort sem það er í BSRB, BHM eða Kennarasambandi Íslands

Starfsmenn sveitarfélaga eru alla jafna með lægri heildarlaun en starfsmenn annarra launagreiðenda hins opinbera, ríkis og Reykjavíkurborgar. Samanburður heildarlauna á vormánuðum leiðir í ljós að þetta á við um starfsfólk hvort sem það er í BSRB, BHM eða Kennarasambandi Íslands. „Þá eru sveitarfélögin að borga lægst,“ sagði Helgi Aðalsteinsson, hagfræðingur á kjarasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sambandsins í gær.

„Teljum við þetta ásættanlegt? Viljum við borga betri laun? Viljum við ekki slást um bestu bitana eins og aðrir?“ sagði Helgi og kvaðst hann varpa þessu fram því hann teldi að umræða um þetta mætti eiga sér stað á sveitarstjórnarstiginu.

Fram kom á þinginu að launavísitala sveitarfélaga hefur hækkað meira en hjá ríkinu og á almenna markaðinum en skýringin sé sú að hjá sveitarfélögunum eru stærri hópar í lægri launaflokkum en annars staðar og hafa því hækkað hlutfallslega meira en aðrir í samningum. Þessi mál bar einnig á góma í pallborðsumræðum og minnti Sigurður Á. Snævarr sviðsstjóri sambandsins á að launastrúktúrinn væri annar en hjá ríkinu og á almenna markaðinum. Sveitarfélögin borgi ófaglærðu fólki hærri laun en ríkið og samsetning starfa skipti máli. „Við erum að borga t.d. háskólamenntuðu fólki töluvert mikið lægra heldur en hjá ríkinu og á almennum markaði,“ sagði hann. Helgi tók undir þetta og sagði fyrirliggjandi gögn staðfesta að sveitarfélögin borguðu lægri laun en aðrir til þeirra sem eru með meiri menntun „Þetta á ekki að vera fasti, að sveitarfélög borgi lægri laun en aðrir.“ omfr@mbl.is