Karlmennska „Það er líka oft rosalega sterkt hjá strákum og karlmönnum að það er eitthvert smá ógnarjafnvægi, keppni og metingur,“ segir Sverrir.
Karlmennska „Það er líka oft rosalega sterkt hjá strákum og karlmönnum að það er eitthvert smá ógnarjafnvægi, keppni og metingur,“ segir Sverrir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Þessi small einhvern veginn óvænt,“ segir rithöfundurinn Sverrir Norland, um nýja skáldsögu sína Klettinn sem varð til á nokkrum dögum þótt hann viðurkenni að síðan hafi heilt ár farið í að fínpússa verkið

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Þessi small einhvern veginn óvænt,“ segir rithöfundurinn Sverrir Norland, um nýja skáldsögu sína Klettinn sem varð til á nokkrum dögum þótt hann viðurkenni að síðan hafi heilt ár farið í að fínpússa verkið.

„Bókin fjallar um þrjá vini sem fara í útilegu. Einn þeirra deyr í útilegunni. Síðan eru liðin tuttugu ár. Aðalpersónan býr í Reykjavík og hefur greinilega burðast með hvað gerðist. Hinn vinurinn hefur búið í Bandaríkjunum um árabil en kemur síðan til Íslands. Þá fer af stað ákveðin atburðarás og það verður ljóst að þeir eiga eitthvað óuppgert,“ segir Sverrir.

„Ég fór í útilegu þegar ég var tvítugur með fjórum vinum mínum, ekki tveimur. Það dó enginn en það er eitthvað við andrúmsloftið í henni sem hefur alltaf setið í mér.“ Þarna innst í Hvalfirði hafi verið einhver sérstök stemning. „Það eru líka þessi tímamót þegar maður er tvítugur og lífið er að fara að taka einhverja nýja stefnu. Margir stefna kannski út í heim og ætla að verða eitthvað en aðrir ekki.“

Sagan hverfist um leyndarmál, og hugsanlegan glæp, en Sverrir segir að ekki sé um eiginlegan reyfara að ræða. „En mér finnst gaman að segja sögur og finnst að í öllum sögum eigi að vera ráðgáta, eitthvað sem drífur söguna áfram, og það vill þannig til að það er dauðsfall. Hjartað í sögunni er ráðgáta og það verður afhjúpun í lokin, en ég veit ekki hvort ég gæti skrifað einhverja dæmigerða formúlu af því það sem ég skrifa dettur oft á milli kategoría. Þær bækur sem heilla mig eru þannig. Þannig eiga bókmenntir að vera, gera eitthvað nýtt,“ segir hann.

„Ég tek eftir því að ég skrifa oft um persónur sem óhjákvæmilega endurspegla einhverja hlið á mér. Aðalpersónan getur verið svolítið inn í sig, leitandi og rög. Brynjar, sem stofnar sprotafyrirtæki í Bandaríkjunum, er ákveðinn og sterkur. Svo er það drungalegi vinurinn sem deyr sem er kvalinn og flókinn á einhvern annan hátt. Einhvern veginn er maður að skoða hliðar á sjálfum sér í gegnum persónurnar.“

Tilfinningasambönd karla

Sverrir hefur haldið fyrirlestra um karlmennsku í samtímanum og er um þessar mundir að þróa sjónvarpsþætti um sama viðfangsefni sem bera titilinn Hinn fullkomni karlmaður. Vangaveltur um karlmennsku koma líka fyrir í Klettinum.

„Ég geri það oft í bókunum mínum að ég súmmera upp um hvað bókin fjallar á penan hátt einhvers staðar. Aðalpersóna Klettsins segir á einum stað: „Ímyndaðu þér alla pabbana sem kunna ekki að elska syni sína og alla synina sem þrá að elska feður sína en geta það einhvern veginn ekki. Og öll vináttusambönd karlmanna sem einkennast af ógnarjafnvægi og metingi frekar en hlýju og kærleika.“

Ég hef tekið eftir því, þó þetta gildi kannski ekki um mig og vini mína, að karlmenn eiga erfitt með að rækta vináttusambönd sem eru bara hrein og tær vinátta. Það þurfa alltaf að vera einhver verkefni í gangi, sérstaklega þegar þú ert orðinn eldri, til dæmis að byggja sumarbústað. Það er líka oft rosalega sterkt hjá strákum og karlmönnum að það er eitthvað smá ógnarjafnvægi, keppni og metingur,“ segir Sverrir.

„Í þessari sögu er það þannig að aðalpersónan er af hógværari bakgrunni en hinir tveir vinir hans og hann á ofboðslega erfitt með að leyfa þeim að hjálpa sér í lífinu, m.a. vegna þess að pabbi hans hefur strögglað og er svolítið brotinn,“ segir hann og bendir á að margt í samböndum vinanna og samböndum þeirra við feður sína sé á einhvern hátt óorðað.

„Það er voða sjaldgæft, finnst mér, að karlar skrifi um tilfinningasambönd sín á milli. Karlmenn skrifa um feður sína, um æsku sína, um konur, en mjög sjaldan um vináttu sín á milli, veikleika og vanmátt. Kannski er ég aðeins að ýkja en mér finnst að það megi fjalla meira um þetta.“

Er betra að þegja?

Siðferðileg álitamál koma einnig við sögu. „Grunnkveikjan að sögunni var í rauninni hvort hægt sé að hugsa sér aðstæður þar sem einhver góður maður hefur gert eitthvað hræðilegt, eða einhver honum tengdur, og að það sé í rauninni best fyrir alla að hann segi aldrei frá því. Að það væri í rauninni siðferðilega rangt að segja frá því, af því að þá væri hann að bregðast fjölskyldu sinni og vinum og að eyðileggja enn meira. Er stundum kannski bara best, ef eitthvað hræðilegt hefur gerst, að enginn segi frá því og allir harki af sér?“ spyr höfundurinn.

Sverrir er vanur að halda mörgum boltum á lofti og spurður hvaða verkefni séu í bígerð svarar hann: „Ég er með nokkra sjónvarpsþætti í þróun, bæði skáldskap og karlmennskuþættina. Svo er ég kominn langt með bók fyrir næsta ár og ég er að skrifa bók með öðrum höfundi. Svo er ég að fara að taka upp plötu, meðal annars lag sem heitir „Kletturinn“ og fjallar um sömu þemu og eru í bókinni. Öll þessi ólíku verkefni gefa mér orku inn í hin verkefnin.“