Kex Hostel Fyrsta verkefni Högna við að endurnýta gamalt timbur.
Kex Hostel Fyrsta verkefni Högna við að endurnýta gamalt timbur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Högni Stefán Þorgeirsson er fæddur 22. september 1973 í Reykjavík og ólst upp í Hólahverfi í Efra-Breiðholti en var á sumrin í Neskaupstað. „Amma bjó þar og ég fór eiginlega á hverju sumri þangað, var þar í mánuð eða tvo, fór út að dorga með…

Högni Stefán Þorgeirsson er fæddur 22. september 1973 í Reykjavík og ólst upp í Hólahverfi í Efra-Breiðholti en var á sumrin í Neskaupstað. „Amma bjó þar og ég fór eiginlega á hverju sumri þangað, var þar í mánuð eða tvo, fór út að dorga með langafa og fleira skemmtilegt.“

Högni gekk í Hólabrekkuskóla, Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Iðnskólann í Reykjavík og er dúklagningameistari að mennt. „Ég vann hjá föður mínum og afa frá 16 ára aldri til 20 ára meðan ég var að læra iðngreinina.“

Svo flutti Högni til Danmerkur og var með eigin rekstur þar og vann m.a. fyrir konungsfjölskylduna og skipafélögin þar. „Ég var kynntur inn í diplómatasamfélagið og vann fyrir mörg sendiráð og fór þaðan í hallirnar hjá konungsfjölskyldunni. Ég vann líka fyrir lestarfélagið í Svíþjóð.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á endurnýtingu á gömlu efni og við félagarnir höfðum verið að gera upp gömul hús í Kaupmannahöfn til hliðar. Gólfefnin á heimilinu mínu hér heima voru til dæmis 120 ára gamlir furuplankar sem rifnir voru út úr gömlu húsi í Kaupmannahöfn. Gaman að segja frá því að þessir furuplankar eru búnir að taka annan snúning og eru núna í Rammagerðinni á Skólavörðustíg.“

Högni flutti til Íslands árið 2000 og hélt áfram með eigin rekstur hér heima, og flutti svo til Bandaríkjanna 2007 þegar Svana konan hans fór í framhaldsnám þar. Þau komu svo aftur heim árið 2010.

„Mig hafði lengi langað til að prófa að vinna gólfefni úr vörubrettum en hafði aldrei fengið tækifæri til að gera neitt úr þessari hugmynd. Það var svo skömmu eftir að ég kom heim að strákarnir á KEX-inu fengu mig með sér í lið að leggja gólfefnin á barnum, að ég viðraði þessa hugmynd. Úr varð að vörubrettin skyldu fara á gólfið. Í kjölfarið ákváðum við svo að halda tilraunastarfseminni áfram og smíðuðum því pallinn úr vörubrettum líka. Allt gekk þetta vonum framar og útkoman varð alveg frábær. Þannig varð til reksturinn utan um þetta. “

Högni stofnaði svo fyrirtækið Arctic Plank og einbeitir sér að því að vinna gólf, húsgögn, veggi og ýmislegt fleira úr endurnýtanlegu efni. „Vörurnar okkar hafa verið notaðar til innréttinga og skreytinga á bari, veitingastaði, verslanir, hótel og íbúðir. Einnig höfum við gert hluti fyrir sýningarbása á vörusýningum. “

Meðal nýlegra verkefna Högna eru innréttingar sem hann smíðaði fyrir Góða hirðinn í nýju versluninni við Köllunarklettsveg. „Þar smíðaði ég allar hillur, fatahengi og annað og útfærði úr rusli frá Sorpu. Sótti bara rusl up í Gufunes, tók út á verkstæði og þurrkaði, heflaði og smíðaði 97 innréttingar, minnir mig, í nýju verslunina. “

Högni er núna að færa endurvinnslu sína á gömlu timbri á annað stig og ætlar að útbúa einingahús. „Ég er að fara að byrja á prufueintaki til að sýna Reykjavíkurborg. Þetta er íbúðarhús en ég geri fyrst 30 fermetra hús til að sýna að þetta sé hægt og fá viðbrögð.“

Högni hefur einnig búið til alls konar húsgögn, sófa, stóla, ljós og skurðarbretti og selur. „Mig langaði að sýna það betur að það er hægt að gera meira úr þessu hráefni en t.d. að taka vörubretti og skera það í eina áttina og kalla það blaðarekka og svo í hina áttina og kalla það glasastandara. Það var kveikjan að því að hanna og gera fleiri hluti.“

Helstu áhugamál Högna eru ferðalög, fótbolti og golf. „Ég fer ekki í bumbubolta lengur, en fylgist með Liverpool í enska boltanum. Ég er uppalinn Þróttari en við búum í Víkingshverfinu og synir mínir spila með Víkingi. Ég fór í þrettán ára pásu í golfinu en nú erum við öll fjölskyldan komin í þetta saman.“

Fjölskylda

Eiginkona Högna er Guðríður Svana Bjarnadóttir, f. 2.7. 1978, lögfræðingur og vinnur hjá Marel. Þau eru búsett í Fossvogi. Foreldrar Svönu eru hjónin Bjarni Jóhannesson, f. 24.11. 1946 og Ásta Jóhannsdóttir, f. 3.2. 1950, búsett í Kópavogi.

Synir Högna og Svönu eru Stefán Hrafn Högnason, f. 7.6. 2011, og Steinar Bjarni Högnason, f. 20.10. 2013. Dætur Högna eru Kristjana Sif Högnadóttir, f. 17.1. 1990, viðskiptafræðingur, búsett í Vestmannaeyjum, og Elma Rebekka Högnadóttir, f. 11.4. 1997, viðskiptafræðingur, búsett í Kópavogi.

Eiginmaður Kristjönu er Guðni Þór Pétursson. Dóttir þeirra er Sunna Dröfn, f. 2023, og dætur Kristjönu frá fyrra sambandi eru Thelma Lind, f. 2009 og Andrea, f. 2011.

Systur Högna eru Eva Dögg Þorgeirsdóttir, f. 7.1. 1978, búsett í Reykjavík, og Halldóra Þorgeirsdóttir, f. 4.8. 1980, búsett í Óðinsvéum.

Foreldrar Högna eru hjónin Þorgeir A. Þorgeirsson, f. 17.11. 1953, dúklagningameistari, og Jóna Rebekka Högnadóttir, f. 8.3. 1956, húsmóðir, búsett í Reykjavík.