Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjárframlög til áætlaðrar opnunar nýrra hjúkrunarrýma er hvergi að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta fullyrti Kristún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í sérstakri umræðu á Alþingi í gær um hjúkrunarrými og heimahjúkrun

Fjárframlög til áætlaðrar opnunar nýrra hjúkrunarrýma er hvergi að finna í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta fullyrti Kristún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í sérstakri umræðu á Alþingi í gær um hjúkrunarrými og heimahjúkrun. Til andsvara var Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Kristrún sagði að þörf væri á aukinni áherslu á heimaþjónustu við aldraða til þess að minnka álag í heilbrigðiskerfinu. Vitnaði hún til upplýsinga frá ráðherra um að lega á sjúkrahúsi á ári fyrir einstakling kostaði um 70 milljónir króna. Kostnaður á hjúkrunarrými væri 17 milljónir fyrir hvern einstakling, en aðeins þrjár milljónir fyrir heimaþjónustu. Með aukningu á heimahjúkrun væri hægt að fækka þeim eldri borgurum sem þyrftu innlögn á hjúkrunarrými.

Benti Kristrún á að áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir uppbyggingu 394 hjúkrunarrýma á næstu fimm árum, en þrátt fyrir það mætti búast við því að það myndi vanta um 200 hjúkrunarrými, ef litið væri til lýðfræðilegrar þróunar næstu ára. Að auki sagði hún að peningarnir fyrir þessum nýju rýmum, um 6,8 milljarðar króna, fyrirfyndust ekki í fjármálaáætlun stjórnvalda.

Willum Þór þakkaði Kristrúnu fyrir að koma inn á þetta mál. Benti hann á úrræði sem stjórnvöld hefðu komið á, Gott að eldast, sem er aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk. Þar væri verið að tala um aukna heimahjúkrun, aukna endurhæfingu og aukna dagþjálfun.

Kvaðst hann sammála Kristrúnu um að það væri dýrara að gera ekkert vegna hækkandi lífaldurs en að vinna með fólki og styðja við það heima.