Alþjóðaheilbrigðismálastofnun SÞ
Alþjóðaheilbrigðismálastofnun SÞ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Er-a svá gott sem gott kveða öl alda sonum,“ segir í Hávamálum, „því að færra veit er fleira drekkur síns til geðs gumi.“ Það má til sanns vegar færa að hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta, en glösin mega þó ekki verða…

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Er-a svá gott sem gott kveða öl alda sonum,“ segir í Hávamálum, „því að færra veit er fleira drekkur síns til geðs gumi.“ Það má til sanns vegar færa að hóflega drukkið vín gleður mannsins hjarta, en glösin mega þó ekki verða fjögur eða fimm án þess að veigarnar geti farið að hafa slæm áhrif á bæði neytandann og hugsanlega umhverfið líka, að mati sérfræðinga.

Fjórðungur drekkur of mikið

Í nýjum lýðheilsuvísum kemur fram að árið 2022 stunduðu tæplega 24% allra Íslendinga áhættudrykkju og er það nokkur aukning á milli ára. Þegar skoðaður er kynjamunur á drykkjunni nær þetta neyslumynstur til 21% kvenna en 27% karla, sem þýðir að samtals eru þá um 58 þúsund Íslendingar að drekka í óhófi, sem getur skaðað heilsu þeirra, félagslegt umhverfi og efnahag þjóðarinnar. Á alheimsvísu er talið að þrjár milljónir manna deyi árlega vegna áfengisdrykkju og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er áhættudrykkja leiðandi áhættuþáttur fötlunar og dauðsfalla.

Áhættudrykkja er skilgreind út frá tíðni drykkju, fjölda drykkja og hversu oft neytandinn verður mikið ölvaður. Nú kemur fram á heimasíðu landlæknis að nýjustu rannsóknir sýni að öll áfengisdrykkja sé skaðleg, en ákefð í neyslunni þó öllu verri. Þá er litið til þess að áfengi veldur eitrun í líkamanum í miklu magni, mikil víma getur leitt til afleitra ákvarðana og síðan er áfengið mjög ávanabindandi. Áhættudrykkja er skaðleg fyrir einstaklinginn sjálfan og allt samfélagið, enda margar rannsóknir sem sýna tengsl á milli áfengisneyslu og alvarlegra sjúkdóma, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma og krabbameins svo eitthvað sé nefnt. Þá er ótalinn félagslegur skaði af völdum ofdrykkju og neikvæð áhrif á fjölskyldur og líf allra í kringum þann sem ofnotar áfengi.

Ólík sjónarmið

Í nýlegum fréttum kemur fram að áfengisneysla Íslendinga hafi vaxið um 17% undanfarin tíu ár sem er met í Evrópu. Á sama tíma takast á fulltrúar lýðheilsusjónarmiða sem vilja halda í erfiðara aðgengi að veigunum og frekar fækka verslunum sem bjóða vöruna, sem sannanlega hefur letjandi áhrif á kaupin, og fulltrúar nútímalegri viðskiptahátta með netverslunum, sem hefur hvetjandi áhrif á kaupin. Haft var eftir fulltrúa SÁÁ, Láru G. Sigurðardóttur lækni, að áfengi í matvöruverslunum yrði stórt bakslag fyrir lýðheilsu Íslendinga. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, var í viðtali hjá Dagmálum Morgunblaðsins og sagði það tómt mál að berjast gegn nýjum reglum í áfengislöggjöfinni sem gerðu ráð fyrir netverslun með áfengi og frekar ætti að setja um netverslunina einhverjar skynsamlegar reglur.

Hófsemd í íslenska vestrinu

Þegar horft er á neyslu íslenskra karla á landsvísu má sjá að landsmeðaltal þeirra sem stunda áhættudrykkju er 26,9% og yfir það meðaltal fara karlar á Austurlandi með 27%, á Norðurlandi og höfuðborgarsvæðinu 27,5% en mest teyga karlar mjöðinn ótæpilega á Suðurlandi, eða tæp 30%. Þá gætu einhverjir bent á að talsvert sé um áfengisverslanir í þessum hluta landsins sem gæti haft áhrif. Aftur á móti eru karlar á Vestfjörðum næstum 10% undir drykkju Sunnlendinga, eða með 20,4%, og á Vesturlandi er hlutfallið enn lægra, eða 17,5%.

Alþjóðlegt átak

Fimm markmið

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna er bent á fimm markmið til að reyna að minnka ofneyslu áfengis á grundvelli heilbrigðissjónarmiða á alþjóðavettvangi.

1. Auka vitund um víðfeðm og skaðleg áhrif ofneyslu alkóhóls á heilsufar, félagslega þætti og efnahag þjóða.

2. Hafa gagnagrunn um áhrifin og mögulegar lausnir við sértækum vanda.

3. Auka tæknilegan og vísindalegan stuðning til þjóða heimsins.

4. Styrkja samstarf þjóða um nauðsynleg úrræði og samstilltar aðgerðir.

5. Hafa skilvirkar boðleiðir um miðlun og notkun upplýsinga vegna ráðgjafar og stefnumótunaraðgerða gegn skaðlegri notkun áfengis.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir