Jón Friðberg Hjartarson
Jón Friðberg Hjartarson
Með starfi Borgaraþings Íslands myndi skapast fjörmikill samkeppnismarkaður um að setja lög sem gagnast myndu þjóðinni.

Jón Friðberg Hjartarson

Haft er eftir Aristótelesi að það sé í anda lýðræðis að úthluta opinberum embættum með hlutkesti en hins vegar í anda fámennisstjórnarfars að úthluta þeim með kosningu. Það væri m.ö.o. ekki í andstöðu við lýðræðið að hætti Forn-Grikkja að við Íslendingar stofnuðum til nýs alþingis, borgaraþings sem starfað gæti samhliða því alþingi sem við búum við. Valdir yrðu með slembiúrtaki úr þjóðskrá þeir einstaklingar sem þar fengju að sitja þar sem gætt væri að jafnrétti kynja, jafnri aldursdreifingu og búsetudreifingu. Háskóla Íslands væri falið að móta reglur til þess að slembitölur yrðu réttilega fundnar. Lagastofnun Háskóla Íslands fengi það hlutverk að greina þau lög sem andstæð eru stjórnarskrá Íslands. Þessu borgaraþingi væri falið að semja frumvörp um hvaðeina sem því sýndist standa til þjóðþrifa og ætti Alþingi að taka þau frumvörp sem samþykkt væru af meirihluta borgaraþingsins til samþykkis eða synjunar. Ef Alþingi felldi frumvarp þess bæri að senda það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Árið 2016 settu Írar slíkt þing saman með 99 manna liðsafnaði á hóteli rétt utan við Dublin og starfaði það vikum saman og náðust réttarbætur fram, studdar af þjóðarvilja. Flokksræðið hafði staðið gegn því sem þjóðin vildi í marga áratugi. James Bridle greinir frá viðlíka hugmyndum í bók sinni „Ways of Being“ og er m.a. kveikjan að þessu greinarkorni.

Gerð var tilraun á Íslandi til hins sama með skipan stjórnlagaþings sem ekki tókst betur en svo að við fengum engar breytingar á stjórnarskránni. Því er vert að gera aðra tilraun. Fella þarf að starfsemi borgaraþings ýmsa þjónustu, svo sem heimspekideildar Háskóla Íslands, embættis Umboðsmanns Alþingis, Hæstaréttar Íslands og bjóða ýmsum samtökum, svo sem Landssambandi eldri borgara, Geðhjálp, Félagi fatlaðra, mannréttindasamtökum af ýmsu tagi, verkalýðsfélögum, samtökum atvinnurekenda og Seðlabanka Íslands, að leggja fram mál sín og áherslur. Kalla mætti til samræðna við þessa aðila og streyma þeim um alnetið, um sjónvarp og útvarp.

Ýmis mál hafa komið fram á síðustu misserum sem vekja óhug og vantraust á ríkjandi ástandi. Má þar nefna störf sýslumannsins á Suðurnesjum þar sem fatlaður maður var sviptur eignum sínum með opinberri valdníðslu. Dómsmálaráðherra kom á vettvang og lýsti yfir máttleysi sínu til að koma honum til bjargar. Borgaraþing gæti með auðveldum hætti sett lög um að vernda einstaklinga gegn slíkum afglöpum hins opinbera valds, t.d. með því að setja lög um að slík eignaupptaka sé ólögmæt og gagnstæð allri skynsemi. Forn-Grikkir myndu hafa rekið umræddan sýslumann og skilað eigninni til síns rétta eiganda.

En hvað gerum við Íslendingar? Varpa má fram hvers vegna Seðlabanki Íslands hefur ekki það úrræði í sinni verkfærakistu að beita bindiskyldu bankanna og endurgreiðslukröfum til lántakenda um að auka endurgreiðslur sínar af þeim lánum sem þeir hafa á höfuðstól lánanna í stað þess að greiða þriðja aðila (bankanum). Það þarf að bæta lagasetningu um Seðlabanka Íslands, fjölga úrræðum fyrir Samkeppnisstofnun og lagfæra skerðingar á greiðslum til lífeyrisþega og fatlaðra. Þá þarf að takmarka fjárveitingar til stjórnmálaflokka og gera kjósendum kleift að velja fólk af mismunandi flokkum til Alþingis. Með starfi Borgaraþings Íslands myndi skapast fjörmikill samkeppnismarkaður um að setja lög sem gagnast myndu þjóðinni, bæta mannlíf og farsæld á Fróni. Það myndi auk þessa kalla fram betri vinnubrögð á Alþingi.

Höfundur er fyrrverandi landsdómari og skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.