Umönnun Teymið sem vinnur við þróun dala.care-hugbúnaðarins; Ása Rún Björnsdóttir, Gísli Hrafnkelsson, Finnur Pálmi Magnússon, Guillaume Meunier, Guðjón Geir Jónsson og Berglind Brá Jóhannsdóttir.
Umönnun Teymið sem vinnur við þróun dala.care-hugbúnaðarins; Ása Rún Björnsdóttir, Gísli Hrafnkelsson, Finnur Pálmi Magnússon, Guillaume Meunier, Guðjón Geir Jónsson og Berglind Brá Jóhannsdóttir. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Nýr hugbúnaður sem auðveldar umönnun aldraðra og sjúkra er kominn á markaðinn hér á landi. Forritið heitir dala.care og er þróað af hugbúnaðarfyrirtækinu Gangverki.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Nýr hugbúnaður sem auðveldar umönnun aldraðra og sjúkra er kominn á markaðinn hér á landi. Forritið heitir dala.care og er þróað af hugbúnaðarfyrirtækinu Gangverki.

Finnur Pálmi Magnússon er vöruþróunarstjóri dala.care. Hann segir í samtali við Morgunblaðið að búnaðurinn sé byggður á grunni verkefnis sem unnið var fyrir bandaríska hjúkrunar- og þjónustufyrirtækið TheKey. „Við lærðum heilmikið af því að vinna fyrir TheKey. Því þótti okkur tilvalið að þróa vöruna sem sjálfstæða einingu sem hægt væri að bjóða víðar, þar á meðal hér á Íslandi.“

Hann segir að með því að kynna nú lausnina á Íslandi eftir velgengni ytra, sé Gangverk að fara öfuga leið við þá sem flestir hafa farið við þróun hugbúnaðar hér á landi, að þróa fyrst fyrir íslenskan markað og freista svo gæfunnar á erlendum markaði í kjölfarið.

156 skrifstofur

Eins og Finnur útskýrir er TheKey gríðarlega stórt fyrirtæki með 156 skrifstofur í flestum ríkjum Bandaríkjanna og í nokkrum löndum öðrum.

Dala.care er þriðja sjálfstæða varan sem orðið hefur til innan Gangverks, byggð á reynslu og samstarfi við erlenda aðila. „Við fórum djúpt í að leysa vandamál TheKey. Við smíðuðum í raun þrjú smáforrit. Eitt fyrir starfsfólk á skrifstofum, annað fyrir þá sem sinna þjónustu inni á heimilum fólks og þriðja fyrir fjölskyldur og tengiliði,“ útskýrir Finnur.

Út frá þeirri reynslu voru tvö ný forrit þróuð fyrir íslenskan markað sem fengu nöfnin office.dala.care og app.dala.care. Hið fyrra er að sögn Finns fyrir stjórnendur sem þurfa góða yfirsýn yfir heildarskipulag og einfalt viðmót til að greina áhættur og hnökra í rekstri. Hitt er snjallsímaviðmót fyrir starfsfólk, fjölskyldur og aðra aðstandendur skjólstæðinga sem þurfa að hafa samskipti og sameiginlega sýn á þjónustuna.

Finnur segir heimaþjónustu gríðarlega stórt úrlausnarefni. Þörfin á góðum sérhæfðum hugbúnaði sé mikil. „Hópur aldraðra sem þarf meiri stuðning og hjúkrun er alþjóðlegt vandamál og birtingarmyndin er sjúkrastofnanir sem anna engan veginn álaginu. Það er samróma álit sérfræðinga að lausnin liggi í að gera öldruðum kleift að búa sem lengst á eigin heimili og veita þjónustu sem stuðlar að meiri virkni, bættri heilsu og fleiri æviárum heima fyrir.“

Í vikunni var gengið frá samningi við Sinnum heimaþjónustu sem þar með varð fyrsti viðskiptavinur dala.care hérlendis. Viðræður standa yfir við fleiri íslensk fyrirtæki. „Það styttist líka í að við opnun fyrir notkun fjölskyldna. Þær geta þá fengið sameiginlega yfirsýn yfir fjölskyldumeðlim sem þarfnast umönnunar. Fjölskyldur eru í raun stærsti hópurinn sem sinnir veikum og öldruðum í samfélaginu. Síðan taka heilbrigðisstofnanir alfarið við á einhverjum tímapunkti.“

Finnur segir að vel hafi gengið að selja dala.care í Bandaríkjunum. „Þrjú fyrirtæki notuðu búnaðinn til reynslu til að byrja með en síðan þá höfum við selt forritið til þriggja annarra félaga. Það segir sína sögu að allir kynningarfundir hafa hingað til endað með sölu. Menn eru fljótir að sjá notagildi búnaðarins.“

Geirinn sveltur

Finnur segir að heilbrigðistæknimarkaðurinn sé að mörgu leyti dálítið sveltur þegar kemur að góðu notendaviðmóti. „Oft er fólk bara að nota pappírsskjöl eða töflureikninn excel. Það er því mikil bylting að geta látið starfsfólk fá app í símann þar sem það getur fylgst með sinni dagskrá og skráð sig inn og út af vakt.“

Í smáforritinu er einnig hægt að hafa yfirsýn yfir lyfjagjöf, tímasetningar og annað slíkt, sem og fleiri athafnir daglegs lífs.

Ef hugbúnaðurinn nær flugi á Íslandi sér Finnur fyrir sér að hægt verði að bæta við virkni sem gerir öllum aðilum sem að umönnun skjólstæðings koma, bæði fjölskyldu og heilbrigðisaðilum, kleift að deila upplýsingum sín á milli með fullu gagnaöryggi og -stýringu.

Fleiri álíka forrit eru til á markaðnum að sögn Finns. Sérstaða dala.care felist hins vegar í að þjónustan er hugsuð út frá skjólstæðingnum. „Okkar forskot felst líka í að hafa fyrst hannað þetta fyrir TheKey þar sem starfsmenn eru sjö þúsund og notendur tugir þúsunda.“

Við markaðssetningu erlendis nýtur dala.care góðs af samstarfi við tilvísunaraðila fyrir heimaþjónustu í Bandaríkjunum, sem hjálpar til við dreifingu og sölu. „Þeir tengjast 11.500 heilbrigðisþjónustuaðilum í Bandaríkjunum sem geta þá mælt með okkar lausn. Það er lykillinn í því hvað við höfum náð í marga viðskiptavini á stuttum tíma.“

Eins og fyrr sagði er búnaðurinn í prufufasa hjá nokkrum aðilum á Íslandi í dag. „Til dæmis erum við með nokkra aðila í NPA-kerfinu að nota forritið. Við höfum ákveðið að bjóða NPA-þjónustunni að nota kerfið frítt til frambúðar. Við lærum mikið á því samstarfi því þar stýrir hver einstaklingur sinni þjónustu.“

Spurður að því hvort virkni búnaðarins sé sú sama hér og í Bandaríkjunum, segir Finnur að svo sé að mestu. Helsti munurinn sé að í Bandaríkjunum fái umönnunaraðilar greitt í tímavinnu en á Íslandi starfi fólk samkvæmt kjarasamningum.

Finnur segir að lokum að spennandi tímar séu fram undan á íslenska upplýsingatæknimarkaðnum með auknum fjölda fyrirtækja í heilbrigðistækni. „Það er að myndast heilsutækniklasi og öflug fyrirtæki eins og Sidekick Health og Controlant hafa haslað sér völl. Þetta er að verða stærra en tölvuleikjabransinn.“

Höf.: Þóroddur Bjarnason