Neskaupstaður Húsin eru við aðalgötuna og því áberandi í bænum.
Neskaupstaður Húsin eru við aðalgötuna og því áberandi í bænum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Fyrstu íbúarnir eru nú að flytja inn í þau tvö fjölbýlishús við Hafnarbraut í Neskaupstað sem byggingafélagið Hrafnshóll reisti, að frumkvæði Síldarvinnslunnar og Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN)

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mb.is

Fyrstu íbúarnir eru nú að flytja inn í þau tvö fjölbýlishús við Hafnarbraut í Neskaupstað sem byggingafélagið Hrafnshóll reisti, að frumkvæði Síldarvinnslunnar og Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN). Íbúðirnar í hvoru húsi um sig eru átta; fjórar 80 fermetra og aðrar jafnmargar eru 40 fermetrar. Nokkrum af stærri íbúðunum fylgja bílskúrar

„Hugsunin er að koma hreyfingu á fasteignamarkaðinn hér í bænum þar sem mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðum. Skortur á húsnæði hefur staðið ýmsu hér fyrir þrifum,“ segir Guðmundur Rafnkell Gíslason framkvæmdastjóri SÚN.

Fjölbýlishúsin tvö koma því sem næst tilbúin frá framleiðanda í Eistlandi. Komið er með einingar eða kubba og þeim raðað saman á staðnum. Allt ytra byrði húsanna er þá tilbúið og sömuleiðis það helsta innanhúss, svo sem eldhúsinnréttingar, hreinlætistæki og fleira. Við fjármögnun verkefnisins lánuðu Síldarvinnslan og SÚN fjármuni til byggingafyrirtækisins sem þá gat reist húsin, selt íbúðirnar og endurgreitt lánin. Þetta gildir um alls tólf íbúðir en leigufélagið Brák sem er í opinberri eigu keypti fjórar íbúðir. Nær allar þessar íbúðir eru nú seldar. Stærri íbúðirnar hafa verið seldar á 54 milljónir króna en hinar minni á 27 milljónir króna.

„Við hjá SÚN og fleiri viljum halda áfram á þessari braut og erum nú í viðræðum við byggingafélag í bænum um að reisa 11 íbúða fjölbýlishús úr steyptum einingum hér í Neskaupstað. Hið ánægjulega í þessu öllu er að þetta samfélagsverkefni sem ég vil kalla svo hratt af stað mikilli uppbyggingu hér í bæ. Á tímabili í fyrra voru hátt í þrjátíu íbúðir hér í bænum í byggingu eftir ládeyðu margra undanfarinna ára,“ segir Guðmundur Rafnkell. Atvinnuástand í Neskaupstað segir hann nú með besta móti. Mikið sé að gera í sjávarútveginum og nokkuð sé um að Norðfirðingar sæki vinnu út í frá, til dæmis í álverið á Reyðarfirði. Þá sæki talsvert af fólki af nærliggjandi svæðum vinnu út í Neskaupstað, hvar bjóðist fjölbreytt störf.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson