Mótmæli Síkar í Pakistan mótmæltu Indverjum í fyrradag.
Mótmæli Síkar í Pakistan mótmæltu Indverjum í fyrradag. — AFP/Abdul Majeed
Indversk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau hefðu óskað eftir því að Kanadamenn fækkuðu í starfsliði sínu í kanadíska sendiráðinu á Indlandi. Þá hafa Indverjar einnig stöðvað alla útgáfu vegabréfaheimilda til Kanadamanna vegna ásakana stjórnvalda þar …

Indversk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau hefðu óskað eftir því að Kanadamenn fækkuðu í starfsliði sínu í kanadíska sendiráðinu á Indlandi. Þá hafa Indverjar einnig stöðvað alla útgáfu vegabréfaheimilda til Kanadamanna vegna ásakana stjórnvalda þar um að indversk stjórnvöld hafi átt aðild að morði á kanadískum þegni.

Ákvörðunin kemur degi eftir að indverska utanríkisráðuneytið gaf út ferðaviðvörun til indverskra ríkisborgara og varaði þar við ferðalögum til „vissra hluta Kanada“ á þeim forsendum að Indverjar hefðu orðið þar fyrir hatursglæpum, án þess þó að nefna nokkur dæmi þar um, eða hvaða héruð Kanada þættu varhugaverð.

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada tjáði sig ekki um þá ákvörðun Indverja að hætta útgáfu vegabréfaheimilda í gær, en sagði að Indverjar yrðu að taka ásökununum um að útsendarar leyniþjónustu Indlands hefðu myrt síkann Hardeep Singh Nijjar, sem var með kanadískt ríkisfang, alvarlega. Sagði Trudeau jafnframt að hann óskaði eftir aðstoð Indverja við að varpa ljósi á málavöxtu.

Sagði Trudeau að það væru raunverulegar ástæður til að trúa því að indverskir útsendarar hefðu staðið á bak við morðið á Nijjar, og að það skipti máli fyrir bæði réttarríkið og alþjóðalög að komist væri að hinu sanna í málinu. Sagði hann að það hefði ekki verið auðveld ákvörðun að ræða málið opinberlega.