[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson verður í leikmannahópi danska liðsins Lyngby í kvöld er liðið leikur við Vejle í dönsku úrvalsdeildinni. Félagið staðfesti tíðindin á X (áður Twitter) í gær. Gylfi samdi við Lyngby á dögunum, en hann hefur ekki spilað fótbolta sem atvinnumaður í rúm tvö ár

Knattspyrnumaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson verður í leikmannahópi danska liðsins Lyngby í kvöld er liðið leikur við Vejle í dönsku úrvalsdeildinni. Félagið staðfesti tíðindin á X (áður Twitter) í gær. Gylfi samdi við Lyngby á dögunum, en hann hefur ekki spilað fótbolta sem atvinnumaður í rúm tvö ár. Miðjumaðurinn hefur verið að glíma við meiðsli síðan hann samdi við Lyngby en hefur náð sér góðum af þeim. Lyngby er í 6. sæti úrvalsdeildarinnar með 11 stig eftir átta umferðir en Freyr Alexandersson er þjálfari liðsins.

Knattspyrnukonan Bergrós Ásgeirsdóttir hefur skrifað undir samning við ítalska félagið ACF Arezzo sem leikur í B-deildinni þar í landi. Bergrós, sem er 26 ára gömul, er uppalin á Selfossi og hefur leikið með liðinu alla tíð. Alls á hún að baki 90 leiki fyrir Selfoss í efstu deild og 11 til viðbótar í þeirri næstefstu.

Leikur ÍBV og Fram í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta hefur verið færður til sunnudags klukkan 16, en hann átti upprunalega að fara fram á laugardag klukkan 14. Veðurspáin er hins vegar mjög slæm á laugardag og var því ákveðið að seinka leiknum um 26 klukkutíma.

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, hefur valið 21 leikmann fyrir leiki gegn Lúxemborg og Færeyjum í undankeppni EM 2024 í byrjun október. EM 2024 kvenna verður haldið í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi í lok næsta árs. Íslenska liðið hefur undankeppni EM á heimaleik gegn Lúxemborg 11. október að Ásvöllum. Ísland heldur svo til Færeyja og mætir þar heimakonum þann 15. október. Þórey Rósa Stefánsdóttir er reynslumesti leikmaðurinn í hópnum með 121 A-landsleik og þá er Katla María Magnúsdóttir einnig í hópnum en hún hefur ekki leikið A-landsleik. Hópinn má sjá í heild sinni á mbl.is/sport/handbolti.