Ingólfur Bjarni Sigfússon
Ingólfur Bjarni Sigfússon
„Ég hef ekki heyrt af þessu kærumáli,“ segir Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu, ritstjóri…

„Ég hef ekki heyrt af þessu kærumáli,“ segir Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu, ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks, í samtali við Morgunblaðið, spurður um viðbrögð við kæru Orra Guðmundssonar, bónda í Holti undir Eyjaflöllum sem frá var greint í blaðinu í gær.

Ingólfur Bjarni segist fyrst hafa frétt af þessu máli í Morgunblaðinu. Hann segist að öðru leyti ekki vilja ræða mál sem kunna að vera til skoðunar hjá Kveik í fjölmiðlum.

„Við áttum fund með Samgöngustofu um drónamál þar sem ekki síst var farið yfir regluverkið og það kynnt og þeir töluðu um það að þeim hefði borist kvörtun, en um annað er mér ekki kunnugt,“ segir Ingólfur Bjarni.

- Þekkir þú þá ekki til málsins?

„Jú, ég þekki til málsins, en um einhverjar frekari kvartanir eða kærur veit ég ekki, utan þess sem ég las um í blaðinu,“ segir hann og neitar því að lögreglan hafi sett sig í samband við Ríkisútvarpið vegna þessa máls.

- En almennt séð, telur þú að sú háttsemi sem þarna var lýst sé í samræmi við reglur um drónanotkun?

„Ég held að við höfum verið þarna innan þeirra marka sem reglugerðir og almenn lög kveða á um, ég veit ekki betur, en við getum ekki tjáð okkur um mál sem við erum hugsanlega að skoða,” segir Ingólfur Bjarni.

- Finnst þér eðlilegt að mynda með dróna inn um opnar dyr hjá fólki inni á einkalandi?

„Ég ætla ekki að kommentera frekar á fullyrðingar hans um það sem hann segir að hafi gerst, hann verður sjálfur að standa við þær fullyrðingar sem hann setur fram. Við, eins og aðrir fjölmiðlar, skoðum mörg mál og vitum nokkuð vel hvar reglur og mörk liggja og teljum okkur hafa verið á grænu svæði,“ segir Ingólfur Bjarni.

Hann staðfestir jafnframt að þetta tiltekna mál hafi verið eitt þeirra mála sem borið hafi á góma í samtölum starfsmanna Ríkisútvarpsins við Samgöngustofu um regluverk um drónaflug, það er að segja að borist hefði kvörtun vegna framferðis þeirra á vettvangi.