Málfríður Bjarnadóttir fæddist 9. janúar 1925 í Hafnarfirði. Hún lést 4. september 2023 á hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ.

Hún var dóttir Bjarna Snæbjörnssonar læknis í Hafnarfirði, f. 8.3. 1889, d. 24.8. 1970, og Helgu Jónasdóttur húsfreyju og kennara, f. 21.12. 1894, d. 2.6. 1989. Systkini eru Jónas, f. 1922, Snæbjörn, f. 1924, Bjarni, f. 1926, og Kristjana, f. 1928. Þau eru öll látin.

Málfríður giftist 26.10. 1951 Jóni M. Guðmundssyni bónda og oddvita á Suður-Reykjum í Mosfellssveit, f. 19.9. 1920, d. 22.4. 2009. Foreldrar hans vor Guðmundur Jónsson skipstjóri, f. 12.6. 1890, og Ingibjörg Pétursdóttir húsfreyja, f. 20.9. 1892. Börn: 1) Guðmundur, f. 1952, k. Þuríður Yngvadóttir, f. 1952, börn þeirra a) Málfríður, f. 1977, b) Yngvi, f. 1984, k. Sigrún Melax, f. 1984, þau eiga Þuríði, Áslaugu og Ólöfu, c) Ingibjörg Ásta, f. 1987. 2) Helga, f. 1954, m. Magnús Guðmundsson f. 1952, börn þeirra a) Jón Bjarni, f. 1981, k. Mariana M. Maia, f. 1981, hann á Helgu Júlíönu með Erlu Sigríði Hallgrímsdóttur, f. 1975, d. 2018, b) Árni, f. 1985, k. Thelma Dögg Haraldsdóttir, f. 1989, þau eiga Sigrúnu Sif og Guðmund Ara. 3) Bjarni Snæbjörn, f. 1956, k. Björg Kristín Kristjánsdóttir, f. 1954, börn þeirra a) Þórður Illugi, f. 1980, hann á Bjarna Snæbjörn með Hörpu Rún Eiríksdóttur, f. 1977, b) Kristján Sturla, f. 1985, c) Málfríður, f. 1991, k. Aníta Kristjánsdóttir, f. 1992, þær eiga Hrafnkel Sturlu og Hjalta Tómas. 4) Eyjólfur, f. 1960, k. Auður Ósk Þórisdóttir, f. 1961, börn þeirra a) Snæbjörn Þórir, f. 1993, k. Anna Sesselja Marteinsdóttir, f. 1993, þau eiga Marinó og Auði Heklu, b) Þorsteinn Orri, f. 1997. 5) Jón Magnús, f. 1962, k. Kristín Sverrisdóttir, f. 1963, börn þeirra a) Hrefna, f. 1991, m. Örn Ingi Bjarkason, f. 1990, þau eiga Henning Örn og Fríðu, b) María Helga, f. 1993, m. Örn Geir Arnarson, f. 1996, c) Jón Magnús, f. 1998, k. Jóhanna Björt Grétarsdóttir, f. 1999, d) Sverrir, f. 2003, k. Ísabella Eir Kristjánsdóttir, f. 2003. 6) Stjúpdóttir Sólveig Ólöf, f. 1949, móðir Ásdís Sigfúsdóttir, f. 27.11. 1919, m. Pétur R. Guðmundsson, f. 1948, börn þeirra a) Guðmundur Hrannar, f. 1967, k. Elín B. Gunnarsdóttir, f. 1970, þau eiga Evu Sólveigu, Ásdísi Eiri, m. Hrannar Heimisson, börn Kári og Saga, og Erlu Margréti, b) Birgir Tjörvi, f. 1972, k. Erla Kristín Árnadóttir, f. 1976, þau eiga Kristínu Klöru, m. Jóhann Páll Einarsson, og Árna Pétur; c) Ásdís Ýr, f. 1976, m. Magnús Einarsson, f. 1973, þau eiga Stellu, fyrir átti Ásdís Sólveigu Kristínu og Ólaf Örn með Haraldi Erni Ólafssyni, f. 1971 og Magnús átti Alexöndru og Matthías Leó með Þóreyju Heiðdal, f. 1979; d) Bryndís Ýr, f. 1978, m. Jürgen Maier, f. 1978, þau eiga Ísak Þorra, Freyju, Mörtu og Hildi.

Málfríður ólst upp á Kirkjuvegi 5 í Hafnarfirði. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944 stundaði hún nám í lyfjafræði, útskrifaðist exam. pharm. frá Lyfjafræðingaskóla Íslands 1947 og cand. pharm. frá Danmarks Farmaceutiske Højskole 1950. Hún starfaði sem lyfjafræðingur í Ingólfsapóteki 1947-1948 og aftur 1950-1951. Hún gerði hlé á þeim starfsferli þar til 1972 að hún hóf störf í Árbæjarapóteki, síðar starfaði hún í Holtsapóteki og að lokum í Mosfellsapóteki frá 1980-1993.

Meðfram hússtjórn á Suður-Reykjum og barnauppeldi tók Málfríður virkan þátt í búrekstri heimilisins og átti gott samstarf við allt starfsfólk.

Málfríður var í Kvenfélagi Lágafellssóknar og fleiri félögum. Hún var um tíma í skólanefnd Mosfellshrepps og síðar ritari stjórnar
Héraðsbókasafns Kjósarsýslu.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 22. september 2023, klukkan 13.

Nú er komið að endanlegri kveðjustund við móður mína, Málfríði Bjarnadóttur, eftir farsæla og einstaklega gefandi samfylgd í bráðum 68 ár.

Það stafaði af henni tímalaus mennska í sinni tærustu mynd. Hún var miðstykkið í óslitinni keðju fortíðar, nútíðar og framtíðar. Tengdi saman líf og hugarfar sex kynslóða sem hún hafði verið samferða og spanna meira en 200 ár. Hún hafði alla tíð skýra sýn á lífið og það sem henni var mikilvægast. Aðstæðurnar voru ekki alltaf árennilegar, en hún hafði innbyggða aðlögunarhæfni og áttavita sem gerðu það að verkum að hún gat siglt sína leið í gegnum skerjagarð lífsins án þess nokkurn tíma að steyta á skeri. Þegar allt er lagt saman átti hún einstaklega farsælt lífshlaup. Það kom hins vegar ekki af sjálfu sér; það var hennar eigið sköpunarverk. Við sem næst henni stóðum fengum þá gæfu í vöggugjöf að vera henni samferða og njóta alls þess sem hún gaf.

Viðbrögð við aðstæðum byggðust á fáum grundvallarreglum sem voru innbyggðar í hana eins og hugarfarslegt DNA: Aldrei að láta hugfallast, alltaf að mæta hverri raun af æðruleysi og með trú á hið góða að vopni, aldrei að bregðast þeim sem á mann treystir, alltaf að vera sjálfum sér samkvæmur. Þetta hafði hún fyrir okkur börnunum sínum, barnabörnum og fjölmörgum öðrum sem hún studdi og leiðbeindi í gegnum tíðina. Hún gerði það ekki með fortölum, heldur athöfnum.

Hún var í senn mild og staðföst og blandaði því saman með einstökum hætti. Tók erfiðar ákvarðanir út frá eigin áttavita ef á þurfti að halda, jafnvel þótt þær myndu ekki falla öllum í geð. Innra samræmið og heilindin í orðum og athöfnum voru svo sterk að ekki var annað hægt en að fylgja henni og taka hana sér til fyrirmyndar. Rétt eins og hún sjálf hafði tekið foreldra sína til fyrirmyndar og foreldra þeirra. Hún þreyttist enda ekki á því að halda minningu þeirra á lofti og tengja stöðugt frásagnir af orðum þeirra og athöfnum við atburði líðandi stundar til þess að dýpka skilning á réttu og röngu í nútíð og framtíð og miðla því áfram. Þannig hélst keðjan óslitin.

Það eru forréttindi að hafa notið alls þess sem hún gaf af sér af takmarkalausu örlæti sínu. Á þessum tímamótum streyma fram minningar sem valda ljúfsárum söknuði. En minningarnar lifa og kalla fyrst og fremst fram þakklæti og auðmýkt yfir að hafa fengið að vera í samfylgd hennar í öll þessi ár. Hún mun lifa þótt hún deyi.

Það er svipurinn þinn

er í sál mér ég finn.

Hann er samgróinn öllu því besta hjá mér.

(Jón Trausti)

Guð geymi þig.

Bjarni Snæbjörn.

Elsku Fríða mín sofnaði að morgni dags í hinsta sinn, falleg og friðsæl.

Ég var bara lítil fjögurra ára stúlka þegar hún kom inn í líf mitt. Fríða og pabbi komu í heimsókn til okkar mömmu á Flókagötuna þegar við vorum nýfluttar til Reykjavíkur. Fríðu langaði til að hitta barnið, kynnast okkur mömmu og koma á sambandi. Hún sá til þess að ég yrði hluti af föðurfjölskyldu minni, þótt við deildum ekki heimili. Að ég eignaðist yndisleg yngri systkini sem tóku mér fagnandi í hvert sinn sem ég kom í heimsókn. Að ég kynntist ömmu minni Ingibjörgu og síðan ömmu Helgu í Hafnarfirði, móður Fríðu, sem var mér líka alltaf góð.

Ég man vel þegar ég fékk fyrst að fara að Reykjum og pabbi sótti mig á gamla Willys-jeppanum. Allt var nýtt fyrir mér. Stórt heimili, stór fjölskylda, ótal vinnumenn, gjarnan danskir, jafnvel skoskir, kýr í tugatali, hænsni í hundraða tali og svo allir hestarnir. Seinna fékk ég að fara í útreiðartúra með pabba og systkinum mínum og sitja fallega gæðinga. Á borðum var framandi matur, hvítt kjöt og heilu ofnskúffurnar af dönskum snúðum með glassúr. Þegar ég fékk að gista var ég fyrst svolítið spari, svaf inni hjá ömmu í ömmustofu, en seinna í litla barnaherberginu hjá Helgu litlu systur minni. Börnin sofnuðu snemma og ég vaknaði við söng litlu bræðranna sex á morgnana. Þetta var undraheimur. Ég naut þess að vera í hópi systkina og frændsystkina sem mörg voru sumarlangt á Reykjum og eignaðist ég vináttu margra þeirra til lífstíðar. Þrátt fyrir miklar annir á þessu stóra, umsvifamikla heimili gaf Fríða sér alltaf stund til að lesa fyrir börnin. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar hún las fyrir þau Andrésar Andar-blöðin sem komu út á dönsku og snaraði hún þeim jafn óðum yfir á íslensku. Hún var jafnlynd, lét smámuni ekki á sig fá, leysti örugglega úr deilum og samdi frið. Fríða var gestrisin og hjálpfús, fróð og áhugasöm um alla hluti, en ekki síst umhugað um að öllum liði vel. Þessi blíða, yndislega kona umvafði mig jafnt og þau hin, leiðbeindi mér af hlýju og festu.

Mamma var ávallt þakklát fyrir þá ástúð sem Fríða sýndi mér. Þær báru virðingu hvor fyrir annarri og fór alla tíð vel á með þeim. Á sama hátt sýndu systkini mín mömmu minni alltaf mikla væntumþykju sem var svo sannarlega endurgoldin. Fríða reyndist mér sem önnur móðir og börnum okkar Péturs sem önnur amma, fylgdist grannt með þeim í námi, leik og starfi.

Fríða var ein mín mesta velgjörðarmanneskja í lífinu. Hún auðgaði líf mitt með styrk sínum og manngæsku. Það sem henni þótti sjálfsagt fæ ég henni aldrei fullþakkað.

Ég bið Guð að blessa heimkomu hennar. Þakka af öllu hjarta fyrir elsku hennar og umhyggju í minn garð, Péturs, barna og barnabarna og til mömmu.

Guð geymi þig, elsku Fríða mín.

Sólveig Ólöf Jónsdóttir.

Nú hefur Málfríður tengdamóðir mín kvatt okkur. Hún náði að gera svo ótal margt og átti innihaldsríkt líf.

Málfríður sagðist hafa verið feimin og hlédræg sem barn og unglingur. Það átti ekki við hana að trana sér fram í skóla, í félögum eða á samkundum, hún var þeim mun öflugri í bakvarðarsveitinni. Heima á Reykjum sá hún um húshald og barnauppeldi á meðan eiginmaður hennar stundaði búskapinn, kórsöng, félagsstörf eða pólitík.

Málfríður lauk stúdentsprófi frá hvoru tveggja mála- og stærðfræðideild í MR með mjög góðum vitnisburði. Hana langaði að feta í fótspor föður síns og bróður sem höfðu lesið læknisfræði. Taldi hins vegar að lyfjafræði yrði hagkvæmari kostur samhliða væntanlegum húsmóðurstörfum, og valdi hana. Hún var hins vegar alla tíð mjög fróð um almenna sjúkdóma og gott að leita hjá henni ráða þegar barnabörnin veiktust.

Heimilið á Suður-Reykjum sem hún stjórnaði í um 60 ár var mannmargt með fjölda vinnufólks sem var í mat og kaffi alla vikuna og bjó jafnvel á staðnum, sumir árum saman. Fjöldi barna og unglinga, ættingja og venslafólks kom í vist að Reykjum á sumrin, auk þess sem erlent vinnufólk starfaði þar reglulega. Öllu þessu fólki sinnti Málfríður af kostgæfni og hlýju. Málfríður tók slátur, bjó til sultur og saft úr margs konar berjum sem hún tíndi eða ræktaði. Hún var hugmyndarík í matseld og afbragðskokkur, sérfræðingur í að nýta afganga. Það vakti undrun að heyra af öllum bókunum sem hún var að lesa – sjálf eða fyrir börn – samhliða tímafrekum störfum. Auk þess hélt hún sambandi við vini og ættingja í gegnum síma eða með bréfaskiptum, og tók á móti fólki með kræsingum á Reykjum. Málfríður var einstaklega skapgóð, umtalsfróm og lastvör – notaði aldrei blótsyrði.

Fyrir um þremur áratugum stakk ég upp á því við Málfríði að hún kæmi með mér á bókbandsnámskeið. Eftir um tvö ár hafði ég bundið inn innan við tíu bækur og lét gott heita. Hún hélt áfram að nostra við fágætar bækur fjölskyldunnar allt til 93 ára aldurs. Þá áttu öll börn hennar hillumetra af einstaklega vel innbundnum bókum.

Málfríður var vinsæll ferðafélagi innan lands og utan með börnum sínum, venslafólki og vinum. Fróð með afbrigðum, með hlýja nærveru og ráðagóð. Hún skrifaði jafnan dagbók á ferðum sínum og hafði þá örnefni og efnisþætti hvers dags á hreinu.

Þegar Málfríður hætti í Mosfells apóteki 70 ára að aldri spurði ég hana hvað hún ætlaði að taka sér fyrir hendur. „Ég ætla að passa börn,“ sagði hún. Mörg barnabörn hennar störfuðu frá unga aldri við búreksturinn á Reykjum og var Málfríður jafnan tilbúin með mat í hádeginu og í kaffitímum fyrir þau. Fjölskylda yngsta sonarins bjó í húsinu og mikill samgangur og samvinna var milli hæða, sem aldrei bar skugga á.

Málfríður þurfti að flytja á hjúkrunarheimilið Hamra í Mosfellsbæ í ágúst 2022. Hún var jákvæð og eignaðist góða vini meðal heimilisfólks og starfsfólks. Hún hélt sínum andlega styrk til síðasta dags. Síðustu vikur dreymdi hana samtöl við foreldra sína og afa og ömmur sem hún var reiðubúin til að hitta.

Magnús Guðmundsson.

Í dag er komið að kveðjustund. Þessi kveðjustund er mér erfið því ég kveð ömmu mína sem var alveg einstök. Efst í huga mér er þó mikið þakklæti. Amma Fríða var svo miklu meira en bara amma. Hún var traust og góð vinkona sem var alltaf tilbúin að hlusta. Á mennta- og háskólaárunum gerði ég mér oft ferð til hennar að kvöldi til. Þessar stundir með ömmu eru mér hvað kærastar. Ég naut þess að fá að vera ein með henni þar sem við gátum setið tímunum saman og spjallað. Ég fékk mikið rými til að tala og hún hlustaði, gaf góð ráð og mikla hlýju. Hún kenndi mér að sjá jákvæðu hliðina á hlutunum og að dvelja ekki við smáatriði. Samtölin voru alltaf svo áreynslulaus, það var hægt að tala um allt milli himins og jarðar allt fram á hennar síðustu daga.

Amma var líka frábær uppalandi og mótaði mig mikið sem manneskju. Hún var dugleg að kenna mér hluti og leiðbeina allt frá blautu barnsbeini. Það var alltaf svo gott að vera í umsjá ömmu. Það var regla á öllu, en um leið svo mikið öryggi og hlýja. Á hverju kvöldi las hún sögu, yfirleitt ævintýri því henni þóttu þau skemmtilegust. Svo söng hún mann í svefn.

Amma var einstaklega fróðleiksfús og áhugasöm. Hún var frábær í að miðla sinni þekkingu. Þegar ég var yngri þá fannst mér eins og amma vissi allt. Það var sama hvaða heimavinnu hún aðstoðaði mann með, hún hafði svarið við öllu. Í þau fáu skipti sem hún vissi ekki svarið þá hætti hún ekki fyrr en það var fundið. Þetta gat stundum tekið einhvern tíma þar sem hún sat yfir verkefninu. Ég var löngu búin að missa þráðinn þegar hún loks komst til botns í málinu. Hún hafði endalausa þolinmæði og áhuga og mikla unun af því að læra eitthvað nýtt. Það var stundum eins og að fletta upp í alfræðiorðabók að spyrja ömmu einhvers. Hún þekkti til dæmis alla íslenska fugla og íslenskar jurtir.

Amma ferðaðist mikið með mér og foreldrum mínum þegar ég var yngri. Hún var stundum að gera mig gráhærða þar sem hún hélt landakortinu á lofti í bílnum og benti á áhugaverða staði og sagði: „Lítt' á, Fríða.“ Ég vildi óska þess að ég hefði sýnt þessu meiri áhuga en amma hélt samt alltaf áfram og lét áhugaleysi mitt ekki stoppa sig. Eftir því sem ég varð eldri jókst áhuginn og í dag er ég henni svo ævinlega þakklát fyrir einmitt þetta. Þetta hefur mótað mig og kveikt hjá mér mikinn áhuga. Ég meira að segja virðist hafa erft þennan frábæra eiginleika hennar að fræða og segja frá, því ég finn að ég er strax orðin nákvæmlega eins sem uppalandi.

Amma verður alltaf mín helsta fyrirmynd og er það mikill heiður að bera nafn hennar. Í þau ófáu skipti sem fólk kannast við nafnið og tengir það við ömmu fyllist ég alltaf miklu stolti. Takk fyrir, allt elsku amma mín, minning þín mun lifa að eilífu og þú munt alltaf verða stór hluti af mínu lífi.

Þín

Fríða.

Málfríður Bjarnadóttir.

„Takk, elsku stelpurnar mínar, fyrir allar góðu stundirnar,“ voru síðustu orð ömmu Fríðu til okkar Ingibjargar systur þegar við kvöddum hana föstudagseftirmiðdag aðeins rúmum tveimur dögum áður en hún kvaddi fyrir fullt og allt.

Ég var svo einstaklega heppin í mínum uppvexti á Reykjum að hafa ömmu og afa á Reykjum í næsta húsi. Mínar fyrstu minningar af ömmu eru minningabrot af henni í eldhúsinu eitthvað að bjástra við mat. Amma rak jú stórt heimili og alltaf nóg að gera. Alltaf fann hún einhver verkefni fyrir mig til að hjálpa til við og gjarnan sagði hún mér sögur og ævintýri á meðan unnið var til að stytta mér stundir.

Amma var alltaf reiðubúin að aðstoða við heimanám. Hún var góð í tungumálum og raungreinum og hafði lært lyfjafræði í Danmörku. Hún kenndi mér ungri að ef í vafa þá er best að glöggva sig á hlutum með því að fletta þeim upp í bók. Áttum við margar stundir þar sem við flettum upp orðum eða hugtökum og spáðum í uppruna og þýðingu.

Í seinni tíð voru stundir okkar saman mjög gjarnan í morgunkaffi um helgar þar sem rædd voru öll heimsins mál. Amma var, eins og hún orðaði það sjálf í síðasta spjalli okkar, enn „ved fulle fem“ og alltaf mjög áhugasöm um allt og ekkert. Ég sakna morgunstundanna yfir kaffibollanum á Reykjum og minnist þeirra með hlýju í hjarta.

Takk, elsku amma, fyrir allar góðu stundirnar.

Málfríður
Guðmundsdóttir.

Þegar ég var að alast upp bjó kona á neðri hæðinni, hún var amma mín. Þegar ég kom niður fór mér strax að hlýna, það var eitthvað svo hlýtt og notalegt þarna niðri.

Fríða amma var viskubrunnur, reglusöm, umburðarlynd og með einstakt jafnaðargeð. Það var eins og hún hefði allan tímann í heiminum til að hlusta og ræða málin. Eldhúsborðið var hjartað í íbúðinni og þar safnaðist fólkið hennar saman.

Hljóðið frá katlinum, hægt var að velja um Melroses eða English breakfast. Á tyllidögum var hellt upp á Söderblandning.

Amma var mikill bókaormur, hún las og las og las ennþá meira. Bækurnar gátu haldið henni vakandi langt fram eftir á kvöldin.

Frá stofuborðinu á Reykjum færði hún mig yfir í ævintýraheim. Stundum var ég stödd í Narníu, Hogwart-skólanum, hátt uppi á tindum norskra fjalla eða sveitum Svíþjóðar. Hversdagsleikinn bliknaði og ég beið spennt eftir næsta kafla.

Amma var fróðleiksfús, hún grúskaði í bókum og stoppaði ekki leitina fyrr en hún hafði svör við stórum spurningum lítillar stúlku. Hún hjálpaði okkur systkinunum með námið og las yfir ritgerðir langt fram eftir aldri.

Hún amma var eiginlega snillingur í mannlegum samskiptum, átti ekki í útistöðum við neinn, hlustaði og tók til greina skoðanir annarra. Hún var mikil fyrirmynd og átti stóran þátt í að móta mig sem manneskju.

Ég mun halda áfram að segja mínum börnum sögur og færa þau inn í ævintýraheima.

Ég er þakklát fyrir öll árin og minningarnar sem munu halda áfram að hlýja um ókomin ár.

Hrefna Jónsdóttir.