Pentagon Selenskí Úkraínuforseti og forsetafrúin Olena Selenska lögðu blóm að minnisvarða um fórnarlömb hryðjuverkanna 11. september 2001.
Pentagon Selenskí Úkraínuforseti og forsetafrúin Olena Selenska lögðu blóm að minnisvarða um fórnarlömb hryðjuverkanna 11. september 2001. — AFP/Brendan Smialowski
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Rússar skutu 43 stýriflaugum á Úkraínu í fyrrinótt og var það stærsta árás þeirra á landið frá því í vor. Úkraínumenn náðu að skjóta niður 36 af flaugunum en þeim var beint að nokkrum borgum um landið vítt og breitt.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Rússar skutu 43 stýriflaugum á Úkraínu í fyrrinótt og var það stærsta árás þeirra á landið frá því í vor. Úkraínumenn náðu að skjóta niður 36 af flaugunum en þeim var beint að nokkrum borgum um landið vítt og breitt.

Þrír féllu og fimm til viðbótar særðust í Kerson-borg í nótt en Rússar beindu bæði eldflaugum og stórskotahríð að borginni. Sjö eldar kviknuðu í borginni. Sjö særðust í höfuðborginni Kænugarði eftir eldflaugahríðina og í Rívne náðu eldflaugar að eyðileggja dreifingarmiðstöð raforkuversins þar, sem nýtir sér jarðhita.

Var óttast að árásin á orkuverið táknaði að Rússar ætluðu sér aftur að hefja víðtækar árásir á raforkuinnviði og hitaveitu Úkraínumanna líkt og síðasta vetur. Náðu árásir Rússa að slá út rafmagninu tímabundið í fimm héruðum landsins, Kænugarði, Zhitómír, Dníprópetrovsk, Rívne og Karkív.

Aftur ráðist á Krímskaga

Úkraínumenn gerðu stóra árás á Krímskaga í fyrrakvöld og um nóttina, og sagði leppstjórn Rússa á skaganum að Rússar hefðu skotið niður 19 árásardróna. Þá sögðu rússneskir fjölmiðlar að stór netárás hefði verið gerð á heimasíður leppstjórnarinnar á Krím.

Úkraínumenn náðu í fyrradag að ráðast að höfuðstöðvum Svartahafsflotans í Sevastopol og mátti sjá af gervihnattamyndum í gær að minnst tvær af skrifstofubyggingum flotans hefðu verið sprengdar upp.

Í fyrrakvöld bárust einnig fregnir um að Úkraínumenn hefðu náð að hitta herflugvöll við Sakí á Krímskaga. Var talið að minnst 12 orrustuþotur af gerðinni Su-24 og Su-30 hefðu verið á vellinum, auk þess sem hann var nýttur til þjálfunar fyrir stjórnendur dróna, en ekki var vitað í gær hvort og þá hvaða skaða árás Úkraínumanna hefði valdið.

Þá birtu rússneskir herbloggarar í gær myndbönd sem virtust benda til þess að Úkraínuher væri nú farinn að sækja fram við þorpið Verbove með bryndrekum sínum, og sáust bæði þýskir Marder-bryndrekar og bandarískir Stryker-drekar en báðir eru hannaðir til þess að styðja við sókn fótgönguliðs. Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War sagði í gær að það að Úkraínumenn gætu nú sent bryndreka í nokkrum mæli aftur fyrir skriðdrekavarnirnar sem settar hefðu verið upp í „Súróvíkin-línunni“ svonefndu væri mikilvægt merki um að Úkraínumenn væru að ná árangri með gagnsókn sinni.

Á fundum í Washington

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti fundaði í gær með ýmsum af helstu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna í Washington og leitaði þar hófanna um frekari stuðning við Úkraínu. Hann ræddi við þingmenn beggja deilda Bandaríkjaþings hvern í sínu lagi á bak við luktar dyr, en Kevin McCarthy, leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni, sagðist hafa komið í veg fyrir að Selenskí fengi að ávarpa báðar deildir þingsins opinberlega líkt og hann gerði í desember síðastliðnum.

Fulltrúadeildin hefur setið á rökstólum síðustu daga um fjárlög ríkisins, en þeir sem telja sig yst til hægri hafa gefið til kynna að þeim þyki nóg komið af aðstoð til Úkraínumanna. Hafa þingmenn þar meðal annars rætt um hernaðaraðstoð til Úkraínu sem verðmetin er á um 24 milljarða bandaríkjadala, eða um 3.268 milljarða íslenskra króna.

Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bidens Bandaríkjaforseta, sagði við fréttamenn í gær að hann teldi þverpólitískan stuðning ríkja á þinginu um stuðning við Úkraínu og að einungis hávær minnihluti stæði gegn aðstoðinni. Sullivan sagði þó að það þýddi ekki að leiðin fram undan væri „bein og breið“ í þessum efnum.

Selenskí ræddi einnig við Lloyd Austen varnarmálaráðherra Bandaríkjanna í Pentagon-byggingunni og nýtti hann tækifærið til að votta fórnarlömbum hryðjuverkanna 11. september virðingu sína, áður en hann hélt til fundar við Joe Biden Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu.

Hvíta húsið tilkynnti skömmu fyrir fund þeirra Selenskís og Bidens að Bandaríkin myndu senda Úkraínumönnum aukna hernaðaraðstoð, sem búið var að samþykkja fyrir fram. Mun aðstoðin einkum fela í sér fjölda nýrra loftvarnarkerfa handa Úkraínu, í þeirri von að hægt verði að verja Úkraínu enn betur fyrir eldflaugaárásum Rússa í vetur.

Biden ákvað hins vegar að senda ekki hinar langdrægu ATACMS-eldflaugar sem Úkraínumenn hafa löngum óskað eftir. Sullivan sagði að sú ákvörðun þýddi ekki að búið væri að útiloka að senda slíkar flaugar en að þess væri ekki talin þörf að svo stöddu.