Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Eru kjarasamningar hismi ef löggjafarvaldið á að jafna allt út með sköttum? Til hvers eru frjálsir kjarasamningar?

Vilhjálmur Bjarnason

Það er undarleg tilfinning fyrir óinnvígða að fylgjast með gerð kjarasamninga í Karphúsinu. Fréttir berast af því að nú hafi Karphúsinu verið lokað og að þeir sem eiga að gera kjarasamninga séu aðskildir hvorir í sínu herbergi og ræðist ekki við án milligöngu sáttasemjara eða fulltrúa hans.

Engin umræða er um hetjuskap verkalýðsleiðtoga þar sem verkalýðsleiðtogar hella niður mjólk. Sá tími er liðinn. Nú eru verkalýðsleiðtogar einungis skrifstofufólk. Það er helst að verkalýðsleiðtogar sjáist meðal þegna sinna þegar kosningar fara fram, hvort heldur um verkfallsboðun eða stjórnarkjör, en formennska í stéttarfélagi, þar sem kjörsókn er innan við 10%, þykir mikilsvert áhrifatæki.

Auðmagn stéttarfélaga

Áhrifatæki foringja stéttarfélaga er auðmagnið. Foringjar félaganna nota auðmagnið sem valdatæki til að fjármálastofnanir hegði sér að geðþótta leiðtoga stéttarfélaga.

Rétt er að minnast þess að félagar í verkalýðsfélögunum eiga auðmagnið en fá engu ráðið um ráðstöfun þess.

Kröfur í kjarasamningum

Fyrir nokkru var viðtal við forseta Alþýðusambands Íslands. Umræðuefnið var efni væntanlegra kjarasamninga. Ekkert einasta atriði sem forsetinn fjallaði um beindist að hinum raunverulega samningsaðila.

Í 2. tölulið 17. greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur eru settar skorður við réttmætum tilgangi vinnustöðvana:

„Ef tilgangur vinnustöðvunarinnar er að þvinga stjórnarvöldin til að framkvæma athafnir, sem þeim lögum samkvæmt ekki ber að framkvæma, eða framkvæma ekki athafnir, sem þeim lögum samkvæmt er skylt að framkvæma, enda sé ekki um að ræða athafnir, þar sem stjórnarvöldin eru aðili sem atvinnurekandi. Gildandi lög um opinbera starfsmenn haldist óbreytt þrátt fyrir þetta ákvæði.“

Það er erfitt fyrir stjórnvöld að taka fram fyrir hendur Alþingis í kjarasamningum. Forseti Alþýðusamband Íslands segir ekki lýðræðislega kjörnu Alþingi fyrir verkum. Þaðan af síður ríkisstjórnum sem sitja í skjóli þingræðislegs meirihluta Alþingis.

Kjarasamningar eru gerðir miðað við gildandi lög hverju sinni. Löggjöf er almenn en nær ekki til einstakra hópa.

Vissulega geta stéttarfélög og samtök þeirra beint tilmælum til stjórnvalda. Dæmi um slíkt er löggjöf um málefni lífeyrissjóða, hvort heldur framlög starfsmanna og launagreiðenda eða skattalega meðferð lífeyrisgreiðslna.

Húsnæðismál og stýrivextir

Í áðurnefndu viðtali við forseta ASÍ virtist sem forsetinn vildi vera í hlutverki seðlabankastjóra og peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands.

Það var dálítið óljóst í hvaða hlutverki hann vildi vera í húsnæðismálum.

Tilmæli í húsnæðismálum geta aðeins að takmörkuðu leyti beinst að Alþingi og ríkisstjórn. Stærstu áhrifavaldar á fasteignamarkaði hér á landi eru borgarstjórn Reykjavíkur og sveitarstjórnir í Kraganum. Þar er byggt og þar er takmarkað framboð á lóðum til íbúðabygginga. Skortur veldur verðhækkunum.

Til viðbótar við náttúrulega fjölgun íbúa og fólksflutninga innanlands kemur mikill fjöldi aðfluttra frá Schengen-svæðinu svo og flóttafólk. Svo virðist sem alls ekki hafi verið gert ráð fyrir aðflutningi fólks, hvorki innanlands né til landsins, í lóðaframboði á Suðvesturlandi.

Niðurstaðan er sú að raunverð íbúðarhúsnæðis, miðað við vísitölu neysluverðs, hefur hækkað um 175% á þessari öld, töluvert umfram kaupmátt launa. Raunverð á íbúðarhúsnæði á árabilinu 1980 til 2000 var nokkuð stöðugt.

Mikil er ábyrgð sveitarstjórna!

Kaupmáttur launa

Það er forvitnilegt að huga að kaupmætti launa og þróun kaupmáttar frá því Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, EES.

Á þeim 30 árum sem liðin eru frá aðild að EES hefur kaupmáttur launa, miðað við vísitölu neysluverðs, tvöfaldast.

Það er erfitt að greina orsakasamhengi.

 Hvað stafar af áhrifum kjarasamninga?

 Hvað stafar af launaskriði? Eru kjarasamningar hin endanlega niðurstaða um kaup og kjör starfsfólks?

 Hvað stafar af aðild að EES? Með aðild að EES eru stjórnvöld skuldbundin til þess að fara að háttum siðaðra þjóða.

 Hvað stafar af öðrum aðgerðum stjórnvalda, eins og niðurfellingu vörugjalda?

 Hvað stafar af samkeppni á markaði?

 Hvað stafar af áhrifum rafrænna viðskipta?

Um hvern og einn þessara þátta má skrifa langt mál. Nærtækast er að fjalla um glæpbrjálað samráð skipafélaga um verðlagningu á flutningsgjöldum. Samráðið er glæpur gegn heilu samfélagi. Þar skortir samkeppni.

Atvinnurekendur koma aldrei saman til fundar nema til að sameinast gegn viðskiptavinum sínum. Svo segir Adam Smith í riti sínu Rannsókn á orsök og eðli auðlegðar þjóða. Það sannaðist á fundum stjórnenda Samskips og Eimskipafélagsins, sem að öðru leyti hatast.

Jöfnuður

Og svo kemur formaður BSRB og segist berjast fyrir auknum jöfnuði. Er það markmið BSRB að gera einn flatan kjarasamning? Hvenær hafa hátekjustéttir í stéttarfélögum beðið um aukinn jöfnuð?

Eru kjarasamningar hismi ef löggjafarvaldið á að jafna allt út með sköttum? Til hvers eru frjálsir kjarasamningar?

„Það er hætt við að hvur miklist af sinni villu.“

Höfundur var alþingismaður.